Undir regnboga
Undir regnboga kom út haustið 1974 og var prentuð í Letri líkt og bækur ungra skálda sem gáfu út sjálf á þeim árum. Bókin kom út í 300 eintökum sem skáldinu tókst með undraverðum hætti að selja á nokkrum vikum og ná sér í aura sem munaði um. Flest ljóðin voru ort á árunum 1972 til 1974. Þekktur bókmenntafrömuður las ljóðin í handriti og sagði þau benda til þess að höfundurinn ætti eftir að yrkja mörg góð ljóð um ævina.
I.
Augu þín
Augu þín eru blámi himinsins
á björtum sumardegi
víðátta mikil
sem hvergi endar.
Nema bak við fjöllin
en þau eru hugur þinn
og hann klífur enginn.
Dögun
Aldrei
fyrr en armar þínir
utanum mig
höfðu vafist,
skildist mér
hversu mjög
einmana
ég hafði verið.
Þegar þú brosir
Þegar þú brosir
vefur mig örmum
og kyssir
þarf ég ekki sól
til að komast í sólskinsskap.
Orð
Ég vildi geta sagt þér
svo ótal ótal margt
um sólina og vorið
um okkur
þig og mig
en hverju geta orð
bætt við það
sem hafa bros
og blik í augum sagt?
Mynd
Sál mín
nakin
fyrir augliti þínu
særð bráð
mitt í frumskógi
borgarinnar.
Bergmál
Hvert sem ég hef litið
hef ég horft í augu þín.
Í andliti hverrar stúlku
leita ég ásjónu þinnar.
Hvert sem ég hef snúið
hef ég stefnt í fangið þitt.
Í hverjum draumi mínum
greini ég hlátur þinn.
Blómið
Þú varst blómið
sem slitið var burt
viðkvæmt með ungar rætur
Þú varst blómið
sem heillaði mig
með fegurð, litum og angan
Þú varst blómið
sem slitið var burt
og fölnaði í barmi mínum.
Dapurleiki augna þinna
Dapurleiki augna þinna
gerði bros þitt að minjagrip
sem ég gæli við í huganum
á kvöldin
Ég hátta hjá nóttinni
og vonast til að sjá þig aftur
en skipulagðar mínúturnar falla
fyrir beittu sverði veruleikans.
Spurning
Villtir hestar
taka á rás
í hjarta mínu
ef mæti ég þér
Þess hef ég spurt:
Hvort var elding sem féll
eða vorið að koma?
Söknuður
Þú
ein úr fjöldanum
tókst þér stöðu
í draumórakenndum
huga mínum
seinna
fylltist hjarta mitt söknuði
við hverja mínútu
án þín
en samt en samt
voru minningin og draumarnir ofar
kossum þínum.
II.
Undir regnboga
Þegar ég stend í dyrunum
og virði fyrir mér
þennan nýfædda morgun
veit ég ekki gjörla
hvort ég hef verið hér áður
eða komið í nótt
Undir regnboga
gamalt hljóðfæri
úr myndabók hugans
reyni ég að stilla
Og ég veit ekki hvar þetta endar
með mig
áttavilltan í víðsýninu
berfættan í snjónum
með trefil í hitanum.
Bak við augu þín
Bak við augu þín leynast svörin
við spurningunum
sem engum hugðist að spyrja
Um hjarta þitt liggur
ósnortin auðn
sem enginn hefur kannað
Neðan í orðum þínum hanga
grýlukerti stór
og kaldur stormur blæs
um framkomu þína
oft.
Vegamót
Víðáttur bernskunnar
eru numið land
í heimi minninganna
Ofurlitil reynsla
byggði þar hús
en kaldhæðni örlaganna
lokaði dyrum þess
fyrirfram
en meiri þroski
opnar gluggana.
Til Brigitte
Vonir mínar og draumar
um þig
fljóta yfir barmana
á skál siðgæðisins.
en veruleikinn er grugg á botninum.
Ljóð mitt
Ljóð mitt er spegill
sem þú stendur við
og spyrð hver fegurst sé allra.
Hann svarar:
Vina mín, þú
Ljóð mitt er spegilmynd
skilningarvita minna
og ljóð mitt er glerbrot
úr hug mér
sem sker dig ef svo ber undir.
Ljóska
Ljóst hár þitt
svífandi augu
ögrandi bros
Og ég þykist vita
hvað þú hugsar
Háir fætur þínir
fjaðrandi hreyfingar
þrýstin brjós
Og ég veit fyrir víst
hvert mig langar.
Leyndarmál
Innst í huga mér
handan orða og gerða
á ég leyndarmál
sem enginn má vita
þó vildi ég
að einhver
innti mig eftir því.
Örlög
Ég heyrði þig gráta
er gekkstu hjá
í nótt
meðan húsin sváfu
Eyru mín numu
skerandi hljóð
ég sat og studdi hendi
undir tárvota kinn
Einmanaleikinn
í borginni býr
sorgin er skáldleg
og við
við munum aldrei hittast.
Næturstaður
Ég kom til að kveðja
áður en ég
puttaði vindinn
og tók mér far með honum
út í óvissuna
en skildi síðar
að óvissan bjó
í brosi þínu.
För
Aðgerðalausar
rölta klukkustundirnar
í áttina
að sjóndeildarhringnum
þar bíður þrá mín
eftir næsta strætisvagni
leiðinni
deyfðargata – ánægjubraut
sem kemur þegar birtir.
Nýir tímar
Í gagnsæum náttkjól
dansar gleðin
um hug minn
ég hætti við að syrgja
og breyti líkfylgd í kröfugöngu
en dagar ömurleikans bylta sér í gröfunum
af hneykslun og reiði.
III.
Haust
Nóttin
í sorgarklæðum
en máninn glottir
meðan trén gráta laufi
í hljóði.
Snjór
Hvítur og hreinn
liggur í breiðu
mig verkjar í augun
svo bjartur er snjórinn
sem féll í nótt
Á miðri leið sný ég við
geng sömu spor til baka
hata flekkendur alla
og vona að fenni
í spor mín fljótt.
Vetrarkvöld
Stormurinn
hlær við gluggann
og kannski frystir í nótt
en tjörnina þarf ekki
að leggja
fyrir mig
ég get alltaf skautað
á hjörtunum fólksins.
Eitthvað hefur gerst
Eitthvað hafði gerst
þegar ég vaknaði
á undan klukkunni
í morgun
Sólin
þessi trygglynda vinkona mín
gægðist
inn um rifu á gluggatjöldunum
og spurði:
Vakti ég þig?
Já guði sé lof
svaraði ég
dró frá glugganum
og bauð vorinu inn.
Vor
Það er sunnudagur sólskin og hiti
vorið bíður í dans
öllum lifandi verum
sem elska að draga andann
Gráminn er burtu af fjallatindum
þau yngjast um allan helming
hlýindin fara mjúkum höndum
um vetrarsárin
Mennirnir gleyma að sofa út
vakna sprækir og frískir
úr röddinni sljóleikinn horfinn
þegar bjóða þeir góðan dag.
Sumarnótt
Handan mínútunnar
og laufguð tré
í bjartri nóttinni
fagna elskendum
fuglasöngur
og golan stígur dans í hári þeirra
milli upphafs
og endis er kysst
í eilífðinni.
Úð
Ég hef horft á sólina
læðast yfir fjöllin
og hlustað á hljómkviðu morgunsins
og ég er orðinn
óendanlega stór
óendanlega stór
í smæð minni.
Líf
Eins og ég hefði aldrei
tekið eftir því áður
fann ég að hjarta mitt sló
og að andann ég dró
fann að steinarnir voru
kaldir, harðir og þurrir
en varir stúlkunnar minnar
heitar, mjúkar og rakar
Ó líf.
IV.
Höllin
Aldraðir menn
í blóðugum frökkum
tóku á móti mér
á hallartröppunum
þeir buðu mig ekki velkominn
en ég heyrði í þögninni
óp hinna þögnuðu.
Ljóð
Illa gengur mér
að læra reglurnar
nema hitt sé
að ég hafi ekki stjórn
á farkostinum.
Eitt er víst:
oft ek ég tilfinningum mínum
yfir á rauðu ljósi.
Póker
Orð okkar:
spil er við leggjum á borðið
í von um sigur
án þess þó að vita
hvað var lagt undir
eða hvað
séu mannspil.
Sumt fólk
Sumt fólk
kemst aldrei hærra frá jörðinni
en fætur þess leyfa
Sópar gólfin en safnar
ryki í hugann
og talar um náungans
ljótu skó
Sumt fólk
þekkir sig ekki á götu
og trúir eigin lygi.
Undur
Ekki verð ég neitt undrandi
þegar skipt er um hjörtu í fólki
Hitt finnst mér alltaf skrítið
að ég heyri hringla í sparibauk
þegar hjörtun ættu að slá.
Blindingjar
Blindingjar sem hafa
heilbrigða sjón
tala um ljósið í myrkrinu
en áræða ekki
að opna augun
og líta í kringum sig.
N.N.
Fátt leggur þú til málanna
hlustar þesir
svarar ekkert frekar
þó á þig sé yrt
Meitluð orð sem ættu
heiður þinn að verja
í þögninni kafna
Þrátt fyrir bólginn háls
tekst þér furðu vel
að kyngja stolti þínu.
Við heyrum þessar fréttir
Við heyrum þessar fréttir
um hvað heimurinn sé grimmur
þær skelfa okkur fyrst
en verða síðan lágróma
hversdagslegt hjal
Við göngum út í norðanrokið
á leið okkar til vinnu
og spyrjum okkur sjálf:
Hvað get ég svosem gert?
leitum ekki svars
en látum vindinn þjóta
sem stríðsfrétt um eyru.
Menning
Meðan Gunnar á Hlíðarenda
stökk hæð sína
í hugum okkar
sem lékum með trésverð
í snjónum
voru önnur börn
minnt á tækni nútímans
með dauða sínum.
Ávarp
Ég sem er ungur
með ótalda drauma
vil ólmur heiminum bjarga….
Æ vertu ekki að glotta
þó þú gæfist upp
og næðir í þægilegt sæti
Æ vertu ekki að glotta
rístu á fætur
og sjáðu hvar þú settist
En þú sem að andvarpar
þreyttur og mæddur
réttu úr bakinu
því sól er risin í austri
og neitar að ganga til viðar.
Stefnumót
Ég hef mælt mér mót við Sannleikann
á hringtorgi lífs míns
í dag
og það hef ég til marks
að hann einn
hefur ekki auðkennt sig
með fánýtu prjáli.