Um skáldið
Anton Helgi Jónsson fæddist 15. janúar 1955 á Sólvangi í Hafnarfirði. Fyrstu æviárin bjó hann í Hraunkoti við Hellisgerði en seinna í Sjálfstæðishúsinu við Strandgötu, þar sem móðir hans var húsvörður. Toni, eins og flestir kölluðu hann, gekk í Lækjarskólann, var í bekk hjá Herði Jafetssyni og vissi ekki betur en hann lifði í besta heima allra heima. Tólf ára fluttist hann til Reykjavíkur og bjó þar síðan í mörg mörg ár en flutti að lokum aftur í Fjörðinn og býr þar nú þegar þessi orð eru skrifuð.
Auk þess að fást við ritstörf hefur Anton Helgi Jónsson starfað við eitt og annað um ævina. Hann vann m.a. sem sviðsmaður hjá Leikfélagi Reykjavíkur í nokkur ár, vann líka á meðferðarstofnun fyrir unglinga og var seinna forstöðumaður þjónustumiðstöðvar fyrir fatlaða stúdenta í Stokkhólmi. Þá hefur Anton einnig unnið við auglýsingagerð og almanntengsl og rak um tíma fyrirtæki á því sviði. Anton lagði stund á heimspeki og bókmenntafræði við Stokkhólmsháskóla.
Í stofunni heima hjá sér hlustar Anton oft á skáldið Bob Dylan en ef hann er á gangi um Hvaleyrarholtið finnst honum gaman að heyra í hrafni. Anton Helgi Jónsson er kvæntur og faðir fjögurra barna sem sjálf eiga samtals tíu börn.
Auk þess að yrkja ljóð hefur Anton Helgi Jónsson í gegnum tíðina sett saman og gefið út eina skáldsögu og nokkrar smásögur. Skáldsagan heitir Vinur vors og blóma og kom út 1982. Þá hefur hann skrifað nokkur leikrit og þýtt önnur. Mesta frægð hefur Anton líklega fengið fyrir útvarpsleikinn Frátekna borðið í Lourdes. Handritið hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni hjá Ríkisútvarpinu og var í kjölfarið þýtt á nokkur tungumál. Fáein ljóð eftir Anton Helga Jónsson hafa líka verið þýdd á nokkur tungumál og geta áhugasamir notið þeirra hér á vefnum.
Alls konar pistla og athugasemdir birtir Anton gjarnan á Facebook-síðu sinni.
Tvisvar hefur Anton Helgi Jónsson borið sigur út býtum í samkepnninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör; 2009 og 2014.
Árið 2022 hlaut Anton Helgi Jónsson ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar.
Ný bók með áður óbirtum ljóðum AHJ er væntanleg frá Máli og menningu haustið 2024. Þá verða liðin 45 ár frá því að skáldið gaf fyrst út bók undir merki MM og 50 ár síðan það gaf út sína fyrstu bók, ljóðakverið Undir regnboga.
Útgefnar ljóðabækur:
2024 Ég hugsa mig, nokkur ljóðaljóð og sagnir, Mál og menning 2022 Þykjustuleikarnir, Mál og menning 2020 Handbók um ómerktar undankomuleiðir, Mál og menning 2015 Nokkur ljóð – ljóðaúrval fyrir Stóru upplestarkeppnina, Fíbút
2014 Tvífari gerir sig heimakominn, Mál og menning
2012 Hálfgerðir englar og allur fjandinn, endurskoðuð og aukin útgáfa, Mál og menning
2011 Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð, ljóðabók, Mál og menning
2010 Ljóð af ættarmóti, ljóðabók, Mál og menning
2006 Hálfgerðir englar og allur fjandinn, ljóðabók, Fríhendis
1991 Ljóðaþýðingar úr belgísku, ljóðabók, Mál og menning
1985 Ljóð nætur, ljóðabók, Domini
1979 Dropi úr síðustu skúr, ljóðabók, Mál og menning
1974 Undir regnboga, ljóðabók, eigin útgáfa
Sviðsleikrit:
1997 Hótel Hekla. Leikrit með ljóðum, ásamt Lindu Vilhjálmsdóttur, F.F.
1997 Sagan af Rómeó og Júlíu, ásamt Guðjóni Pedersen. Upp úr verki W.S., L.Í.
1996 Hinn dæmigerði tukthúsmatur. Leikþáttur, Höfundasmiðja L.R.
1994 Ófælna stúlkan. Unglingaleikrit, Leikfélag Reykjavíkur
1984 Aðlaðandi er veröldin ánægð. Unglingaleikrit, Thalía
Útvarpsleikrit:
1996 Frátekna borðið í Lourdes, Útvarpsleikhúsið
1985 Verk að vinna, Útvarpsleikhúsið
Útgefin skáldsaga:
1982 Vinur vors og blóma, Iðunn
Þýdd leikverk:
1999 Hamletmaskínan eftir Heiner Müller, Útvarpsleikhúsið
1998 Feitir menn í pilsum eftir Nicky Silver, Leikfélag Reykjavíkur
1995 Lofthræddi örninn, barnaleikrit, eftir P. Enquist, Þjóðleikhúsið
1995 Órar eftir Seppo Parkinen, Þjóðleikhúsið
1989 Djöflar, þýðing á Class Enemy eftir Nigel Williams, Frú Emilía
1989 Maðurinn á svölunum, útvarpsleikrit eftir I. Kallenbäck, Útvarpsleikhúsið