Tvífari gerir sig heimakominn

Tvífari gerir sig heimakominn er syrpa ljóða sem birta augnabliksmyndir af alls konar fólki í borgarumhverfi þar sem veruleikinn virðist ansi hreint kunnuglegur. Þegar betur er að gáð kemur þó iðulega í ljós að eitthvað við hann stemmir ekki, veruleikinn á sér tvífara sem er einhver annar.

 

Dagur í mollinu

Tilgangur lífsins klæðist aldrei jakkafötum
þegar hann fer að kaupa í matinn.
Hann mætir í gömlum pólóbol
og hnésíðum buxum.

Tilgangur lífsins ýtir á undan sér innkaupakerrunni
berfættur í fótlaga sandölum
og allir sem vilja geta haft á því skoðun
hvort hann mætti fara oftar í fótsnyrtingu.

Kona sér hann koma með pokana út á bílastæðið.
Hún hallar sér að eiginmanninum og spyr:
Svenni, getur þetta verið tilgangur lífsins?

Svei mér þá, segir maðurinn og ræsir jeppann.
Þetta er tilgangur lífsins.
Hann er bara ekki í jakkafötum.

 

Ljóðið um hjartapuntinn

Hvers vegna nefnir enginn hjartapuntinn
sem bara vex í Grafarvogi?

Það hvín oft í stráum
og grösum í sveitinni.
Hlustum frekar á hjartapuntinn
sem hvergi vex nema í Grafarvogi.

Við gætum átt svo góðar stundir.

Förum og leitum að hjartapuntinum
sem bara vex í Grafarvogi.

 

Skoðunarferð um nágrennið

Má ég kynna ljótustu blokkina 
í ljótasta hverfinu
ljótustu
ljótustu blokkina.

Á annarri hæð býr maður með finkur
sem tísta og syngja
ótal finkur sem tísta
og syngja
og tísta
í ótal búrum
í heilu herbergi.

Ég hef hitt þennan mann.

Hann sat við næsta borð
og hafði fengið sér bjór
en ég trúi honum samt.

Í ljótustu blokkinni
í ljótasta hverfinu
býr sá
sem á
herbergi fullt af finkum.

 

Miðaldra biðskyldumerki

Ég fæddist ekki sem biðskyldumerki
en ég helgaði líf mitt starfinu
og kann ekki neitt annað.

Mín köllun var að sussa á náungann
segja honum að taka það rólega
og veita öðrum forgang.

Ennþá stend ég hérna á götuhorninu
ekkert nema hjálpsemin
sama gamla biðskyldumerkið

sama gamla biðskyldumerkið
sem getur ekki horft á sig í spegli.

 

Opinberun

Ég opnaði óvart augun
meðan þú bröltir
ofan á mér
og við kysstumst á stofugólfinu.

Út um gluggann greindi ég húsið á móti
og þar í glugga
á efstu hæð
dömu
með leikhúskíki.

Elskan mín, það fylgist alltaf einhver með okkur.
Hver veit nema þetta hafi hreinlega verið Guð.

 

Maður kominn á aldur flettir blaðinu

Pottur gleymdist á hellu í Fossvoginum.
Á Mýrunum var sígarettu kastað úr bíl.
Í Namacura drap jarðsprengja stúlku.

Hvað skyldi þessi stúlka hafa heitið?
hugsar hann sem les fréttirnar.
Hvað heitir fólk í Mósambík?

Hún var tíu ára segir blaðið, sem sagt miklu yngri
en ávöxtur borgarastríðsins, virk sprengja
sem enginn veit hver framleiddi.

Klausa á viðskiptasíðunni fjallar um sjóðinn
sem lengi ávaxtaði sparnað mannsins
og tryggir honum núna öryggi.

Á morgun verður haldinn fundur
um ábyrgar fjárfestingar
hér heima og erlendis.

Hvað heitir fólk í Mósambík?

 

Leynivinur

Ég hef aldrei séð neinn
sem vinnur á skrifstofunni yfir daginn.

Ég þríf bara á kvöldin.
Heima yrki ég ljóð
og plokka gítarinn.

Á hæðinni minni er einn öðruvísi.
Ég skoða oft dótið hjá honum.
Hann teiknar krúsidúllur
á minnismiðana.

Ég þríf alltaf vel kringum borðið hans.

Í gær fann ég bók undir borðinu:
Tuttugu ljóð um ást.
Ég lagði hana við símann.

Ég var andvaka í alla nótt.

Í kvöld ákvað ég að festa minnismiða
á tölvuskjáinn hans:
Skógarhöggsmaðurinn vakni.

Á morgun ætla ég að standa fyrir utan
þegar þau fara heim
og reyna að sjá hann.

 

Botnlangi 

Konan sem skokkar í hádeginu
teygir úti við ruslatunnurnar.
Þá kemur lítill sendiferðabíll
öðru sinni inn í botnlangann.

Þegar konan réttir úr sér
stingur karlmaður hausnum út.
Spyr um húsnúmer sem hvergi sést.
Segist vera með þvottavél.

Hann er bara að spyrja til vegar
talar skýrt og horfist í augu
við geirvörtur konunnar.
Alltaf með vitlausa adressu.

 

Horfurnar um miðja vikuna

Það er bara miðvikudagur
enn getur allt gerst
enn er von

enn má finna rétta taktinn
finna sinn hljóm
jafnvel finna sig í góðu lagi

allt getur gerst

meðan enn leynist bílskúr
baka til í hausnum á mér
og band
sem djöflast frameftir.

 

Gallerí Eldhús

Teikningunum fjölgar á ísskápnum. 

Tveir bláir fuglar.
Sól. Hús. Tré.
Karl sem brosir.
Kona sem brosir.
Krakki með glaðar hendur.

 

Prófarkalesari ávarpar tómatana 

Illa sofinn prófarkalesari
rápaði inn í ávaxta- og grænmetiskæli
á einhvers konar föstudegi.

Þá heyrðist rödd. Það heyrðist rödd. Já rödd.

Tómatur í kös
í bláum kassa
kallaði og spurði:
Svara þú mér, spekingur:
Hvort er tómaturinn ávöxtur eða grænmeti?

Þetta var í hádeginu á föstudegi.
Þarna var ekki neinn til svara
nema illa sofinn prófarkalesari.

Skyndilega risu gúrkurnar upp.
Þær tóku dansspor og sungu viðlag:
Hvað er ég?
Hver er ég?
Hvert er eðli mitt?

Prófarkalesarinn hristi af sér drungann.
Hann taldi í
og svaraði
með mjaðmasveiflum:

Tómaturinn er kóróna sköpunarverksins
en margir
margir
aðrir
hafa eitthvað sér til ágætis.

Frammí brauðinu stendur karl.
Inní mjólkinni stendur kona.
Okkur hin kalla sumir grænmeti.
Okkur hin kalla aðrir ávexti.

Prófum nú aðra spurningu:
Hvaða rullu spila ég
í þessu ágæta lífi?

Það ræðst af hlutverki okkar í borðhaldinu
hvað við erum
í raun og veru.

Húrra, hrópuðu tómatar í bláum kassa.

Það var lagið, góluðu paprikur og epli.

Meira meira, kyrjuðu spergilkál og vínber.

Gúrkurnar tóku fleiri dansspor
og sungu annað viðlag:
Síld og fiskur.
Bókmenntir og listir. Heimurinn og ég.

Þetta var í ávaxta- og grænmetiskælinum
á einhvers konar föstudegi.

 

Sólskinsdagur af svölunum

Niður með húsinu gengur vonin blíð
gengur fegursta kona í heimi
gengur móðirin unga
með börnin tvö
sem hoppa
og skoppa um stéttina.

Börnin hinkra við gangbrautina
og fara ekki yfir
fyrr en mamma segir hvenær má.

Megi hér alltaf ríkja friður
megi alltaf ríkja ást
móðirin unga
og börnin tvö.

Já.

 

Bein lýsing frá degi í lífi mínu

Í rigningunni spúlar maður plan.
Hann stígur síðan upp í lyftara
og ekur honum undir skýli
þar sem kassar standa á brettum.

Ég er löngu hættur að reykja
samt ákvað ég að taka pásu
hérna í skjóli bak við hús
meðan endurskoðandinn klárar framtalið.

Maðurinn stekkur niður úr lyftaranum
og gengur fyrir hornið, veifar
flutningabíl sem silast inn í portið.
Núna hefði ég fengið mér aðra.

 

Föstudagur á Miklubrautinni

Hvalur blés framundan
þar sem ég ók austur Miklubraut
eftir vinnu á föstudegi.

Hann maraði í yfirborði götunnar
en bílarnir tóku fram úr
án mikilla vandræða.

Á móts við innstu húsin
stakk hann sér loks í djúpið
og sporðurinn reis yfir malbikið.

 

Grafskrift mín

Hann svaf með vekjaraklukku til fóta.

Hún var gömul og upptrekkt
með bjöllur á kollinum.

Þetta háttalag lýsir honum vel.

Hann tamdi sér ýmsa siði
í þeirri von að geta talist normal.

 

Stutt kynni á Listasafninu

Við pissuskál á Listasafni Reykjavíkur
stóð gaur sem var að kíkja
yfir í mína.

Allt hljómaði vel
í skálinni
hjá honum.

Helvíti ertu með góða bunu!
datt mér í hug að segja.

Svo datt mér í hug að tala
um þvagteppuna
eða vörtuna sem ég fékk á vininn miðjan.

Manni dettur svo margt í hug
þegar einhver kíkir
yfir í skálina til manns.

En þá var hann allt í einu búinn
renndi upp
og fór.

Eftir stóð ég
einn
við mína pissuskál
og gat ekki tæmt mig.

 

Síðdegi við Rauðavatn

Fyrst kemur einn bíll og bíður.
Svo kemur annar með kringlóttar framluktir.
Ljósin blikka og álútur skuggi hleypur milli bíla.

Það er ást í bíl við Rauðavatn.

Ég er óvart vitni
úti að viðra hundinn.

Vonandi engin sárindi heima.
Vonandi enginn grátur.
Vonandi hafa þau fundið upp á leik
og þykjast nú hittast í bíl við Rauðavatn.

 

Séð og heyrt úr beðinu

Það fréttist ekki mikið úr lífi ánamaðkanna
meðan við sitjum hérna á pallinum
og drekkum volgan ávaxtasafa.

Núna gætu elskulegar hlussur
verið að draga sig saman
þarna úti í beðinu.

Við þurfum ekki að nefna nein nöfn.
Tveir ánamaðkar, hann og hann
skrúfa sig oft listilega saman
strax á fyrsta hittingi
og dæla sæði
hvor í annan
eins og herrum einum er lagið

en skiljast svo að og eru þá hún og hún
tvær
með frjóvguð egg.

Þannig eru ánamaðkarnir
fyrst eru þeir eitt
svo eru þær annað

og þannig er allt lífið
eitt
og annað.

 

Verslunarmannahelgin í borginni

Fjörið byrjar í Árbæjarsafninu eftir lokun
þegar fólkið stefnir vestur á land
eða austur yfir heiði.

Húsin dusta af sér siðprýði og ryk.
Þau taka upp hljóðfæri og brosa.

Þau taka upp hald og dansa.

Meðan grunlaust fólk liggur í hjólhýsum á Flúðum
eða tjöldum í Stykkishólmi
slæðast í dansinn yfirgefin hús
úr nálægum hverfum.
Svo er dansað og valsað út yfir túnin.

Jafnvel raðhúsalengja í Fossvogi
slítur sig af grunninum
og arkar af stað
til að bjóða Dillonshúsi upp.

Meðan nóttin er ung koma verkfæraskúrarnir
neðan af Höfða
tjúttandi yfir brúna.
Þeir vilja líka dansa. Þeir vilja tjútta og samba.

Og nóttin er ung og nóttin er alltaf að yngjast.
Húsin þau dansa og samba.
Húsin þau dansa og valsa og samba.

Loks fer að birta og vonandi kemur dagur.
Það ærir yfirgefinn pilt að horfa á húsin dansa.

 

Noomi til staðar

Mér finnst þú ekkert flott með byssu.
Ég skil ekki þessa spennu.
Ég vil ekki þessa spennu.
Fullur salur. Áleitinn þefur tekur mig hálstaki.
Svo stendur einhver upp og byrjar að skjóta.

Það er gaman að horfa á þig, Noomi
en eftir því sem lengra líður á myndina
finn ég bara magnast
lyktina frá gaurnum
í sætinu hérna við hliðina á mér.

Lyktin þreifar sig áfram um salinn og upp á tjaldið.
Ég sé að þér fipast í hlutverkinu.
Þú hnusar út í loftið og tekur inn stöðuna.

Án minnsta fyrirvara gerist svo þetta:

Noomi stekkur út í salinn.
Noomi hleypur yfir bekkina.
Noomi þrífur í gaurinn við hliðina á mér:
Drífðu þig út!
Drífðu þig í sturtu!
En skiptu samt fyrst um sokka og settu í vél.

Svona geta allar myndir endað vel.

Mér fannst gott að þú skaust hann ekki, Noomi.
Sturta virkar betur en skotárás.
Þvottavél gerir meira gagn en byssa.

 

Við strákarnir og ég

Ég iða í stúkunni
og fagna
þegar hinir fagna
en auðvitað sjá allir í gegnum mann.

:,: KOMASO! :,:

Ég kann þetta ekki.

Ekki samt halda
að ég haldi
heldur með hinum.

Ég vil bara tilheyra hópi sem fagnar.

Viðlag:

Það er vont að vera einn.
Það er verra að vera einn með öðrum.
:,: Það er ekkert verra. :,:

 

Seinni hálfleikur á dvalarheimilinu

Sjónvarpið sýnir beint frá handboltaleik
en útsendingin truflar ekki gamla fólkið
sem matast í stofunni.

Það hafa orðið umskipti í leiknum.

Ég beini skeið að munni föður míns
og endurtek ótvíræð hvatningarorð:
Borðaðu nú skyrið þitt, pabbi.

Skyrið pabbi, skyrið!

 

Störukeppni sunnan undir vegg

Enn ein eftirlitsmyndavélin gefur mér auga.

Eitthvað segir mér að gefa henni auga á móti.

Metnaðurinn heimtar að ég snúi mér við
leysi niðrum mig
lúti fram
og gefi myndavélinni mitt innra auga.

Ég hef alltaf verið sigurvegari.

 

Frægð erlendis

Um leið og ég skaust fyrir hornið
smellti ferðamaðurinn af
og kirkjan
túristasegullinn
lenti í bakgrunni.

Fyrir tilviljun hlýt ég frægð í Japan
sem stressaði Íslendingurinn.

 

Heitstrenging síðasta víkingsins

Ég heiti því að skreppa með milljónasta túristann
austur fyrir fjall
í þessum líka skafrenningi
hlusta á útvarpið og túlka jafnóðum:
Heiðin er lokuð en við höldum áfram samt.

Í miðjum Kömbunum húrra ég út í kófið:
Þarna niðri ræktum við banana
og allskonar
allskonar
hitabeltisdót.

Við sjáum bráðum ljósið. Við sjáum
bráðum ljósið. Við sjáum bráðum ljósið.

 

Tilbrigði við gamalt stef

Maðurinn sem er alltaf að missa af strætó

hann er ennþá til
hann birtist við gatnamótin
með tösku í annarri hendi
frakka í hinni
og þótt hann sé kominn í jakkafötin
er hann varla kominn út úr sturtunni.

Maðurinn sem er alltaf að missa af strætó
hann er enn á ferðinni
einmitt núna hleypur hann hérna framhjá
og hendist fyrir hornið hjá leikskólanum, bless.

 

Fantasía á morgunvaktinni

Bakkarnir mjakast áfram á færibandinu
fá ofan í sig kjötbollur
kartöflumús og sósu
fá utan um sig litríkar umbúðir og hverfa.

Með einum þeirra sendi ég þér kveðju.

Og það skal vera bakkinn minn
sem þú finnur í búðinni
grípur með þér heim
eftir vinnu á föstudaginn.

Pling! segir örbylgjuofninn.
Pling! segir einveran.
Gjörðu svo vel og sestu til borðs.

Þú lítur upp og reynir að horfa í augu mín
þar sem ég sit ekki handan við borðið.

Þú ert betri en enginn
og ég
gæti líka verið betri en enginn.

Þetta segir þú
við mig
þar sem ég sit ekki handan við borðið.

 

Hafmeyjan bíður niðri

Litla hafmeyjan ætlar á ballið í kvöld.
Hún bíður niðri í anddyri
eftir ferða
þjónustu
bíl.

Hún er til.

Hann er seinn.
Hún er þreytt. Hún er örg.

Einhver kemur, einhver kemur.
Bíddu hæg
litla hafmeyja
það kemur einhver.

Þú dansar í kvöld.

Þú eignast enga fætur í kvöld
þú dansar með þessum sporði
þessum stól á hjólum
þessum hjólastólaða ólaða sporði.

Dansaðu hafmeyja, dansaðu í kvöld.
Kæra litla hafmeyja, dansaðu í kvöld.

 

Ágústkvöld

Hún tiplar út á stétt
og steytir hnefa í átt að manni
sem fjarlægist.

Það fer enginn heim
til konunnar sinnar
eftir að hafa riðið mér!

Þetta hrópar hún
aftur
og aftur.

 

Hlátur eftir miðnætti

Eftir miðnætti heyri ég hlátur barna.
Hann berst frá leikskólanum.

Það er nótt. Það er myrkur
og enginn úti
nema ég
á leiðinni heim.

Ég heyri hlátur barna frá leikskólanum.

Þetta er hlátur gleymdu barnanna á leikskólanum.
Hlátur frá deild hinna gleymdu barna á leikskólanum.

 

Horft til himins af planinu hjá sjúkraþjálfaranum

Mér heyrðist hálfvegis klappað
uppi við þakbrún
þegar ég gekk yfir planið til sjúkraþjálfarans.

Eitt augnablik sá ég dúfur flögra í hring
og hverfa.

Einu sinni var ég alltaf dúfa.
Einu sinni flaug ég alltaf um í hóp.

Ég man ekki nákvæmlega hvað gerðist svo.

Ég veit bara að núna er ég á leið í sjúkraþjálfun
með stífan olnboga
eftir líf og starf við eitthvað annað.

 

Milli hæða

Ég sést ekki í spegli.
Sést ekki. Sést
ekki.

Þetta ástand háir mér ekki neitt
en af tillitssemi við aðra
mæti ég snemma
og fer seint
svo enginn verði mér samferða í lyftunni.

En núna stendur ung kona við hlið mér.
Hún þrengdi sér inn
þegar rennihurðirnar voru að smella saman.

Ég fylgist með henni í speglinum.
Ég bíð þess að hún líti upp
horfi í spegilinn og síðan á mig.

Það gerist ekki neitt.

Kannski leit hún upp án þess að ég tæki eftir.
Kannski lætur hún sem ekkert sé.

Hún veit ekki hvað gerist næst.
Ég veit ekki hvað gerist næst.

 

Úrslitakvöld í fjölbýli

 

Fimm tilnefningar í flokknum besta hljóðið:

 

Dæsandi skáldið á bláu vorkvöldinu.

Ítrekuð borvél mannsins í kjallaranum.

Fótatak á sviði í útsendingu frá óperunni.

Hryglur úr kaffivél sem var að gefa upp andann.

Fagnaðaróp nýsjálensku konunnar á efstu hæðinni.

 

Klípitöng símvirkjans

Klípitöng símvirkjans liggur á hillu í forstofunni.
Aldrei kom til þess að ég setti hana inn í skáp.
Ég sá hana ekki fyrir mér hjá dótinu mínu.

Í fyrstu ætlaði ég alltaf að hringja
og segja frá tönginni
en ég kom mér aldrei til þess og svo liðu öll þessi ár.

Ég veit að símvirkinn gengur ekki hús úr húsi.
Hann leggst ekki á allar dyrabjöllur í hverfinu.

Samt er eins og ég sjái manninn fyrir mér.
Hann stendur í gættinni og spyr:
Getur verið að ég hafi gleymt hérna klípitöng?

Það er gott að geta gengið að hlutum á vísum stað.
Klípitöng símvirkjans liggur á hillu í forstofunni.

 

Númer í afgreiðslusalnum

Í afgreiðslusalnum varð mér á að horfa
í augu manns
sem horfði
á móti

og við horfðumst í augu
og við horfðumst í augu
og við horfðumst í augu

og ég vissi ekki hvað
eða hver ég var
og ég gat ekki hreyft mig

fyrr en gjaldkerinn hrópaði: Númer 42!

 

Eftirmiðdagur í mátunarklefanum

Svörtu buxurnar passa.
Þær klæða mig vel.
Þær lykta vel.
Ég held ég taki þær svörtu.

Þessar gráu eru þó betri í mittið.
Einsog sniðnar á mig.
Ég tek þær frekar.
Já.
Kannski ég taki þær gráu frekar.

Skálmarnar eru samt víðari á þeim svörtu.
Ég ætti bara að skella mér á þær.

En það getur svosem verið um fleira að velja.
Ég þarf ekkert að kaupa buxur hérna.
Ég lofaði engu þótt ég fengi að máta.

Þegiðu.

Þótt mér líki þessar gráu
og þótt ég vilji þessar svörtu
get ég gengið héðan út eins og ekkert sé.

Það eru hundrað verslanir neðar í götunni.
Það er nóg af buxum í heiminum.
Stundum má hugleiða annað en svart.
Samt þarf maður ekkert að sætta sig við grátt.

Hver segir að ég vilji ekki skræpótt?

Ég gæti fundið aðra verslun ef mér bara sýndist.
Ég gæti fundið aðra verslunargötu eða jafnvel moll.
Ég gæti fundið heilt verslunarhverfi sem bara selur buxur.

Ég þarf ekkert að ákveða mig strax.
Aldrei.
Mín bíða alltaf endalausir möguleikar neðar í götunni.

 

Kaffi og ég eitthvað

Kaffivélin birtir mér skilaboð:
Settu baunir í kvörnina.
Fylltu vatnstankinn.
Veldu styrkleika.

Hún segir aldrei neitt í trúnaði.
Spyr aldrei hvernig mér líði.
Ekki frekar en Guð
eða yfirstjórn landsins.

Kaffivélin skipar mér fyrir.
Gerðu þetta. Gerðu hitt.
Ég hlýði. Ég framkvæmi.
Geri allt fyrir samlyndið.

 

Drög að áreitni við opinberan starfsmann

Náunginn sem skiptir um perur í ljósastaurum
mætir í körfubíl og svífur upp yfir götuna.

Innra með mér hrópa ég til hans brandara
sem hefur sannarlega dýpri merkingu:

Þú sem skiptir um perur í ljósastaurum,
viltu í leiðinni athuga hausinn á mér?

 

… einhver læðist inn

Öfundin heldur fyrir mér vöku.
Ekki með hurðarskellum.
Ekki með píanóleik um nætur.
Öfundin heldur fyrir mér vöku með hvísli.

Hún læðir sér inn til mín.
Hún tyllir sér á rúmið.
Hún hvíslar.
Hún hvíslar ofur lágt.

Öfundin hvíslar nafnið.
Öfundin hvíslar sama nafnið.
Öfundin hvíslar alltaf sama nafnið.
Alla nóttina hvíslar öfundin sama nafnið

sama nafnið sama nafnið sama nafnið
sama nafnið sama nafnið sama nafnið
sama nafnið sama nafnið sama nafnið
sama nafnið sama nafnið sama nafnið

 

Þórsmerkurljóðið

Það er nótt.
Það er kyrrt.
Enginn vindur. Engin María María.

Ekkert truflar næturfriðinn
nema hroturnar

þær stökkva um skálann
þær sveifla sér upp í kojurnar
þær naga sig í gegnum eyrnatappana.

Svo dettur á algjör þögn
eins og allt sé hætt
eins og loksins verði hægt að sofna.

Þá byrjar eitthvað aftur
en í þetta sinn ekki hrotur
heldur mannvonskan sjálf.

Ég á aldrei eftir að sofna
aldrei eftir að sofa.
Hér á ég eftir að liggja í hundrað ár.
Hér á ég eftir að liggja og rotna í hundrað ár.

 

Eftirþankar leiktjaldamálarans

Sextán ára þóttist ég skilja orðið helgidagur.
Það var eftir klukkutíma bið og heilabrot
í strætóskýli
á andfúlum rigningardegi.

Mín unglingsár voru einn langur helgidagur.
Það var aldrei hægt að komast neitt.
Ekkert hægt að gera.
Ekkert hægt að kaupa.
Allt var lokað og enginn vissi hvers vegna.

Ég náði því ekki að helgidagur væri hátíð.
Ég hafði enga þörf fyrir helgidag sem þýddi frí.

Seinna komst ég í vinnu og aðra merkingu.
Mér var ætlað að mála svartan vegg
hvítan. Stóð
í valtri tröppu
og hamaðist með rúllu.
Að baki mér galaði verkstjóri:
Það eru helgidagar hjá þér.

Ég hef víða þvælst um ævina og málað ýmsa fleti
en aldrei vitað hvaða svæði
vöktu helst athygli
á handverki mínu
þau sem mér tókst að þekja
eða hin sem óviljandi urðu útundan.

Þetta er sagan um líf mitt og störf.

Ég veit ekki hvaða orð lýsa mér best
þau sem ég sagði og setti á blað
eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota.

 

Val keppenda 

Krakkarnir safnast í hóp á blettinum.
Einhver er ’ann
snýst í hringi
hleypur á eftir hinum
og það er fíflast og það er hlegið.

Fleiri
fleiri krakkar nálgast.

Má ég vera með? hrópar fyrsti krakki.
Má ég vera með? hrópar annar krakki.
Má ég vera með? hrópar þriðji krakki.

Svona hefur alltaf verið spurt.

Þá kemur ein stelpa hlaupandi
og tekur sér stöðu.

Ég er með! kallar hún

og óvænt
fær leikurinn merkingu.

 

Umkomulaus spurning í myrkrinu

Ég vakna fávís við höggið
við dyninn
við bramlið
sest upp í myrkrið
og hvísla: fannstu skjálftann?

Þú andar vært.
Þú sefur.
Úti er örlítil skíma.
Niðri á plani fer bíll að væla.

Trúlega hef ég dottið út af.
Ég rumska.
Þú ýtir við mér
og hvíslar: fannstu skjálftann?

Ég heyri úr fjarlægð í bíl sem vælir.

 

Útsýnið frá Borgartúninu

Fjöllin höfðu ekkert breyst
þegar þú komst út frá lögfræðingnum
sem sagði þig vera gjaldþrota.

Þetta lið er alltaf sjálfu sér líkt;
Esjan, Akrafjallið og Skarðsheiðin.
Það fylgist með en haggast aldrei.

Þú ert hvorki hálfviti né blábjáni
og veist að flestar raunir þínar eru léttvægar
í jarðfræðilegum skilningi.

Samt ertu bæði hálfviti og blábjáni.
Þú vonast eftir hluttekningu þeirra
sem enga samúð geta veitt.

 

Tvífari gerir sig heimakominn

Ég stend við útidyrnar og kemst ekki inn.

Einhvers staðar grætur yfirgefinn lykill.

Borgin myrkvuð.
Enginn á ferli.
Nágrannar sofnaðir.

Ég kemst ekki inn.
Kemst ekki inn í líf mitt.
Kemst ekki inn í drauma mína.

Ég stend hér utan við mig.
Utan við veröld mína.

Takk.
Ég hef átt ágætis líf.

Ég er löngu kominn heim.
Ég sef í mínu rúmi.
Mig dreymir.

 

Óskilapési

Ég bíð eftir sektarlausa deginum.

Ég trúi því ekki að rukkari komi
banki upp á
þrengi sér inn
og krefji mig um bókina
sem ég gleymdi eða gleymdi ekki að skila.

Stundum fletti ég henni ennþá
plánetubókinni
sem útskýrir allt
til að vita hvenær ég eigi að deyja.

Ég fæ aldrei svar.

Það mega koma mánudagar, föstudagar,
helgidagar, hundadagar,
tískudagar, flugdagar,
eindagar og afmælisdagar.

Það gerist ekki neitt.

Þegar sektarlausi dagurinn kemur
þá fer ég á safnið
þá fer ég og skila bókinni
þá fer ég með mig í leiðinni og játa allt mitt líf.

Á sektarlausa deginum játa ég allt mitt líf.

 

Lúr í vagninum

Það jafnast ekkert á við lúr í vagninum.

Ég grenja þegar mamma dúðar mig niður
en sofna um leið og hún vaggar af stað.

Mamma trillar oft vagninum inn í strætó.
Önnur mamma trillar þeim vagni um borgina.
Enn önnur mamma trillar jörðinni kringum sólina.
Mamma allra mamma trillar sólkerfi út eftir vetrarbraut.

Allt þetta gerist meðan ég fæ mér lúr í vagninum.

Á meðan ég fæ mér lúr gerist líka allt hér heima.
Fjallajeppi spólar á gangstétt.
Hundamaður setur kúk í poka.

Ég veit alveg hvert við erum að fara.
Ég hef komið áður.

Bráðum verð ég þriggja mánaða
bráðum verð ég eins árs og tólf ára
bráðum fer að styttast í tvítugt og þrítugt.

Allt í einu hrekk ég upp og næsta stopp er áttrætt.

Ég þekki þessi augu sem horfa á mig. Mamma.

 

Fornbókasalan

Skyndilega kallaði fornbókasalinn:
Ég verð enga stund.

Það mátti heyra dyrnar opnast.
Það heyrðist í bíl fyrir utan.
Það heyrðist í fólki.
Svo lokuðust dyrnar og allt varð hljótt.

Ég var í miðri skáldsögu.
Hinkraði við.
Hélt svo áfram að fletta.

Þá fór síminn að hringja
og hringja aftur
innan við diskinn.

Enginn kom til að svara og síminn
hélt áfram að hringja og hringja
uns hann hætti að hringja og allt varð hljótt.

Það var undarlegt að standa þarna einn
í miðri sögu.

Þá heyrði ég þrusk eða andvarp.

Ég hikaði. Kíkti loks fyrir endann
á hillu og horfði í augu
sem kíktu
fyrir endann á hillu innar í búðinni.

Síðan birtust önnur augu
ennþá innar í búðinni
inni í sagnfræðiskotinu
og enn önnur birtust hjá ljóðunum
og enn önnur birtust hjá þjóðlegum fróðleik.

Allt í einu var undarlegt að vera ekki einn
í miðju
einhverju.

Þá, einmitt þá
hurfu þau
öll þessi augu
bak við ótal hillur
bak við alls konar fræði
og allt var svo hljótt og svo hljótt
og síminn var löngu hættur að hringja.

 

 

 

 

 

 

Pin It on Pinterest

Share This