Við heyrum þessar fréttir
Við heyrum þessar fréttir
um hvað heimurinn sé grimmur
þær skelfa okkur fyrst
en verða síðan lágróma
hversdagslegt hjal.
Við göngum út í norðanrokið
á leið okkar til vinnu
og spyrjum okkur sjálf:
Hvað get ég svosem gert?
leitum ekki svars
en látum vindinn þjóta
sem stríðsfrétt um eyru vor.
Blóð Kólumbíu
Blóðtaumurinn rennur, aftur rennur blóðtaumur
undir hurð, fram á gang, drýpur niður tröppur
lekur út á götu, streymir yfir torg
yfir land, yfir lönd
til sjávar
berst taumurinn, fregnin, blóðfregnin
berst með hafstraumum kringum hnöttinn.
Aftur rennur blóðtaumur og vitjar móður
vitjar föður, vitjar systkina og barna
vitjar ættar og tengsla
vitjar samkenndar meðal fólks um allan heim.
Við hljótum í spurn að rekja fregnina til baka
yfir lönd, yfir höf, uns við komum að húsi
komum að einu húsi
eftir öðru
þar sem flaggað er rauðu: hér búa soltin börn!
Stopp. Það verður ekki meira tekið
af þeim sem ekkert eiga nema mótlætið.
Leikum á fiðlur, blásum í flautur
blásum til mótmæla
sláum trumbur
samtaka systur, bræður.
Blásum lífi í samtaka hugsjón og dag.
Maður kominn á aldur flettir blaðinu
Pottur gleymdist á hellu í Fossvoginum.
Á Mýrunum var sígarettu kastað úr bíl.
Í Namacura drap jarðsprengja stúlku.
Hvað skyldi þessi stúlka hafa heitið?
hugsar hann sem les fréttirnar.
Hvað heitir fólk í Mósambík?
Hún var tíu ára segir blaðið, sem sagt miklu yngri
en ávöxtur borgarastríðsins, virk sprengja
sem enginn veit hver framleiddi.
Klausa á viðskiptasíðunni fjallar um sjóðinn
sem lengi ávaxtaði sparnað mannsins
og tryggir honum núna öryggi.
Á morgun verður haldinn fundur
um ábyrgar fjárfestingar
hér heima og erlendis.
Hvað heitir fólk í Mósambík?
Ólífutré ber við himin
Ef þú lítur upp eitt augnablik sérðu tré
eitt ólífutré sem ber við himin, já
krónuna ber við himin
en sýnin truflar þig
því rætur ber líka við himin.
Þú sérð ólífutré sem virðist svífa í loftinu.
Þessari sýn skaltu aldrei gleyma.
Með vægðarlausum stálörmum
vill ótuktin
rífa ólífutré burt af stað sínum á jörðinni.
Þegar ólífutréð sveiflast til í loftinu
festir það rætur á ný
rætur seiglunnar
rætur tímans
og þær vaxa í huga þínum
huga mínum, huga okkar allra
sem verðum hvert og eitt að nýju tré.
Í höll Þyrnirósar
Nú heimta ég orðið
ég sem ánauðug þjónaði höfðingjaslekti
og fékk ævintýrið gegn mér
að launum.
Fárra kosta átti ég völ
mátti stýfa úr hnefa
meðan drottningin taldi gulldiska sína.
Ég stóð að jafnaði við spunann
en starfi minn var hvergi lofaður
ætíð skyldi vegsamað
iðjuleysi kóngsdótturinnar.
En svo mættumst við yfir snældunni
fulltrúi vinnandi lýðs
og óskabarn hrörnandi ríkis …
Hlustið á mig
látið kóngsdótturina sofa
látið hana um eilífð sofa
og vorkennið henni ekki.
Freisti þess prinsinn að vekja hana
taki þá smiðirnir hann í læri.
Sveinsstykkið verði rammgerð kista.
Látið kóngsdótturina sofa
en komið sjálf úr afkimunum og vakið.
Skip á höfninni
Ávítun fóstru minnar hef ég ekki gleymt:
Aldrei að benda á skip.
Við sáum síldarbátana stíma inn fjörðinn.
Hér sigla önnur fley inná höfn og lygna undrun.
Vináttuheimsókn, ítreka blöðin.
Ég lóna á kajanum og bendi, bendi.
Andóf mitt gegn herveldum…
Blaður kvenna, barnaskapur, hjátrú.
þusar hann sem allt veit betur.
Og strákarnir í heiðursverðinum brosa.
Engan styggja bendingar mínar í dag.
Á morgun: kylfurnar.
Bak við fjöllin sjö
Í okkar húsi skorti ekki traust;
nú uppskerum við efann.
Hún sem naut stuðnings
er sest að veislu og völdum.
Fyrrum heyrðist deilt
á miskunnarleysið í höllinni.
Er við komum þreyttir heim úr námunum
fengum við jafnan nýjustu tíðindi
af klækjum drottningar mót falsleysinu.
Við héldumst í stöðugri spennu
grétum
þegar uppáhaldinu var meinað að tala.
En fegurð okkar komst aldrei á dagskrá
hins vegar var dylgjað með gáfnafarið
og sannarlega höfðum við einfaldan kost.
Við gröfum áfram málma úr jörð
þótt ævintýrið þegi um hver hagnist.
Og miskunnarleysið ríkir í höllinni.
Hún sem naut áður stuðnings
er sest að veislu og völdum
og þú veiðimaður
verður aftur sendur út í skóg.
En varastu töfrana
sú næsta verður líka alþýðleg.
Búðu hennar síðustu för
og snúðu til hallar með rýtinginn hvesstan.
Látum endinn vera óbreyttu fólki í vil
látum upphafsorðin rætast:
Einu sinni var …
Menning
Meðan Gunnar á Hlíðarenda
stökk hæð sína
í hugum okkar
sem lékum með trésverð
í snjónum
voru önnur börn
minnt á tækni nútímans
með dauða sínum.
Lina Dardonah
Hún fetar sig um laskað hús
með bangsa í fanginu, lítil stúlka.
Í fjarlægum stjórnklefa
situr ungur karl
með krullur niður vangana
maulandi súkkulaði og snakk.
Deyi fólk þá getur það sjálfu sér um kennt.
Íbúum er alltaf ráðlagt að yfirgefa húsin.
Þeir segja mér ekkert fyrir verkum
möglaði faðir úti á stétt
en þegar árásirnar hófust
var þó enginn eftir innandyra
nema kannski bangsi með ofsalega rauð eyru.
Herveldið tortryggir ásýnd vanmáttarins
fjölbýlishús gæti verið bækistöð skæruliða
leikskólabarn gæti verið dulbúinn vígamaður.
Eftir aðgerðir dagsins hófst leit í rústum
og tólf ára stúlka, Lina Dardonah
náðist á mynd
þar sem hún stígur varfærin
yfir mulning úr hrundum veggjum:
Hún heldur á bangsa með ofsalega rauð eyru.
Herveldin ætla sér víst aldrei að drepa börn.
Hvar ert þú núna, Lina?
Þú sem fannst huggara í rústunum. Lifir þú?
Lina Dardonah
lítil stúlka
með bangsa í fanginu
með ógnvekjandi bangsa í fanginu.
Hrafnaþula
Nú heyri ég krunkað og krunkað að nýju.
Hvað viltu segja mér krummalegi hugur?
Hvað viltu sýna mér hrafnsvarta minni?
Kringum hús, kringum borg, kringum land
kringum lönd hefur múrveggur risið
múr til að loka fólk inni, loka fólk úti.
Það fer múr gegnum lönd, gegnum hjörtu,
múrveggur skilur að bræður, skilur að systur,
skilur að bræður og systur, skilur að foreldra, börn.
Hvers vegna? Hvers vegna? spyr æðaber vonin.
Hvenær kemur minn tími? spyr þráláta óskin.
Hvað gerðist? Hvað gerist? spyr nóttin, spyr dagur.
Hvað gerðist í gær, hvað gerist á morgun?
Nú heyri ég krunkað og krunkað á ný.
Nú heyri ég krunkað og krunkað að nýju.
Hvar sérðu múrana krummalegi hugur?
Hvar sástu múrana hrafnsvarta minni?
Það standa múrar í vesældar suðri, í velsældar norðri
múrar í fortíðar vestri, í framtíðar austri
standa traustgerðir múrar, standa ókleifir múrar.
Þar er veröld fyrir innan, veröld fyrir utan
fyrir innan er hrokinn, fyrir utan er vonin
fyrir innan er heimskan, fyrir utan er viskan.
Hvers vegna? Hvers vegna? spyr svefndrukkin ástin.
Hvenær kemur minn tími? spyr hikandi framtíð.
Hvað gerðist? Hvað gerist? spyr nóttin, spyr dagur.
Hvað gerðist í gær, hvað gerist á morgun?
Nú heyri ég krunkað og krunkað á ný.
Nú heyri ég krunkað og krunkað að nýju.
Hvernig eru þeir múrarnir krummalegi hugur?
Hvernig virka þeir múrarnir hrafnsvarta minni?
Það er samsærismúr, það er fátæktarmúr
það er fordómamúr og múr hinna úreltu siða,
múr til að verjast hugmyndum nýjum.
Það er fortíðarmúr, það er framtíðarmúr
múr til að verjast innrás og múr til að verjast útrás, múr.
Það er múr, þar er múr, það er múr.
Hvers vegna? Hvers vegna? spyr viðutan traustið.
Hvenær kemur minn tími? spyr sundurlynd veröld.
Hvað gerðist? Hvað gerist? spyr nóttin, spyr dagur.
Hvað gerðist í gær, hvað gerist á morgun?
Nú heyri ég krunkað og krunkað á ný.
Þverstæða á vígvellinum
Bara þverstæður blómstra á vígvellinum.
Þegar vondi foringinn heimtar framsókn
fjölgar sífellt liðhlaupum
uns herinn þurrkast út.
Þegar góði foringinn heimtar framsókn
vilja fleiri ganga í herinn
og stríðið heldur áfram.
Er vondi foringinn þá góður?
Er góði foringinn þá vondur?
Noomi til staðar
Mér finnst þú ekkert flott með byssu.
Ég skil ekki þessa spennu.
Ég vil ekki þessa spennu.
Fullur salur. Áleitinn þefur tekur mig hálstaki.
Svo stendur einhver upp og byrjar að skjóta.
Það er gaman að horfa á þig, Noomi
en eftir því sem lengra líður á myndina
finn ég bara magnast
lyktina frá gaurnum
í sætinu hérna við hliðina á mér.
Lyktin þreifar sig áfram um salinn og upp á tjaldið.
Ég sé að þér fipast í hlutverkinu.
Þú hnusar út í loftið og tekur inn stöðuna.
Án minnsta fyrirvara gerist svo þetta:
Noomi stekkur út í salinn.
Noomi hleypur yfir bekkina.
Noomi þrífur í gaurinn við hliðina á mér:
Drífðu þig út!
Drífðu þig í sturtu!
En skiptu samt fyrst um sokka og settu í vél.
Svona geta allar myndir endað vel.
Mér fannst gott að þú skaust hann ekki, Noomi.
Sturta virkar betur en skotárás.
Þvottavél gerir meira gagn en byssa.