Þykjustuleikarnir heitir ný bók eftir Anton Helga Jónsson sem kom út vorið 2022. Bókin inniheldur fjölbreytilegt verk sem leyfir lesendum að fylgjast með skrautlegum persónum sýna kúnstir sínar á hinum ýmsu sviðum mannlífsins. Atriði verksins vekja ýmist hlátur eða grát í draumkenndri óreiðu sem á sér þó upphaf miðju og endi.
Umgjörð verksins sækir innblástur í söguna um Vöndu og Pétur Pan en í stað þess að elta Pétur til Hvergilands flýgur Vanda Þykjustuleikanna með huga sínum inn í margvíslega leikjaheima nútímans. Þar reynast vera týndir drengir, ásamt sjóræningjum og öðrum skuggalegum persónum sem rekja raunir sínar. Leiðangur Vöndu kallast á við ferðalögin í Gleðileiknum guðdómlega og þótt víða sé dimmt og drungalegt þá birtir í lokin.
Verkið er hugsað eins og samfelld dagskrá eða sýning sem skiptist í tvo hluta, fyrir og eftir hlé, sem aftur skiptast nokkurn veginn í tvo hluta hvor. Fyrsti hlutinn byrjar eins og sagnaskemmtun með kynningu á aðstæðum og persónum en síðan fer hugurinn á flakk og þá birtast smám saman alls konar týpur sem taka á sig margvísleg gervi úr sirkus- og leikjaheimum. Eftir hlé heldur sirkusinn áfram en þá blandast æ oftar inn í þykjustuleikadagskrána atriði sem eru hryllilegur veruleiki en í síðasta hlutanum kemur gleðin til sögunnar.
Alls konar furðufyrirbæri birtast á sviðinu í Þykjustuleikunum. Í einu atriði heldur persóna á kaleik og yfir barma hans gægist fiskur. Þessi mynd vísar beint og óbeint í heim tarotspila. Kaleikur eða bikar í tarotspilum er sagður tákna vatnið sem veitir næringu, en persónan er fulltrúi ungmenna og fiskurinn stendur fyrir ímyndunaraflið. Þykjustuleikarnir hylla ímyndunaraflið og vekja um leið áleitnar spurningar. Hvernig verða tákn til? Hvernig lærum við merkingu þeirra? Getum við gefið gömlum táknum nýja merkingu?
Margir lesendur munu eflaust kannast við fyrirmyndir úr sirkusheimum fyrri tíma í persónum verksins. Í einu atriði tekur til máls hávaxinn maður sem fær lánaða atburðarás úr ævisögu Jóhanns Péturssonar og á öðrum stað í verkinu er vísað til hennar svo lesendum megi vera ljóst hvaðan hugmyndin kemur. Fleiri persónur úr heimi fjölleikahúsa og íþrótta stíga fram á sviðið, fulltrúar ýmissa lasta og höfuðsynda en líka dyggðum prýtt fólk. Útkoman verður alþýðuleikhús þar sem saman blandast hlátur og grátur, gleði og sorg.
Bókin kom út undir merki Máls og menningar. Hún er 144 síður að stærð í mjúkri kápu með innábrotum. Umbrot og útlitsteikningu annaðist Halla Sigga, hönnuður hjá Forlaginu.
Þykusuleikarnir fást í flestum bókabúðum landins og hér er hægt að panta hana í vefverslun Forlagsins.