Loftslagsvá og dauði tegunda

 

Vetrardagur

Yfir þrúgandi
skýrslur um hlýnun jarðar
fellur hvít lygin.

 

Síðasti söngurinn

Einmitt þegar berst til mín söngur sem ég vildi nema
heyrðist óvænt annað hljóð, vélarhljóð skipsins, mér
brá, ég synti til hliðar, veltist og snérist
reyndi að láta mig hverfa, kafa
kafaði uns ég kom upp
til að játa:
Ég þarf að anda, anda, anda.

Þá finn ég skutulinn stinga sér hlakkandi inn í hold mitt.

Það gargar hver einasta taug þegar skutullinn hlær 
af sársauka gargar hver einasta taug
einmitt þegar berst til mín söngur sem ég vildi nema.

Eitt augnablik hugsa ég um fjölskyldu mína. Ég hugsa.
Reyni aftur að kafa, hugsa.
Þá springur skutullinn inní mér, springur.
Einmitt þegar berst til mín söngur sem ég vildi nema.

 

 
Síðsumarshæka
 
Með rótarhöndum
heldur tréð í jörðina
sem annars fyki.
 

 

 

Fræin tifa

Djúpt í hvelfingum bergsins tifa fræin
aflokuð á eyjunni Svalbarða tifa þau
fræ jurtanna, trjánna
sem fljótvirkir menn höggva niður, brenna
ryðja burt af jörð sem þeir óhikað kalla sína.

Djúpt í hvelfingum tifa fræin og bíða framtíðar
þar sem mennirnir eiga að vitja þeirra sárir
eftir ólukku stríð
eða hörmungar allra hörmunga.

Við skulum taka það rólega, elskan mín
við skulum samt ekki bíða
við skulum óhikað opna aðrar hvelfingar.

Innst í fylgsnum hugans, í djúpum hjartans
leynast fræ vonarinnar
þau tifa enn
og þeirra framtíð er núna. Núna.

 

Litlu skrefin

Talaðu við mig um vonina
um litlu skrefin
um gönguna
um dansinn.

Talaðu við mig um börn og framtíð.

Segðu mér frá börnum
í framtíð
og framtíð í börnum.

Talaðu við mig um vonina. Nei.
Syngdu um vonina.

Syngdu um börnin
um litlu skrefin
upphaf ferðalags einnar mannveru
áframhald ferðalags heillar plánetu.

Syngdu úr mér skömmina
aðgerðarleysið
og kvíðann.
Ég vil taka litlu skrefin.

Kenndu mér að ganga von.
Kenndu mér að dansa von.

Dansaðu við mig framtíð og von.

 
Tvær nótur 
 
Óþörf ferðalög

mannanna ræðir mosinn

við lofthjúp jarðar.
 
Hreina framrúðan

sem vekur gleði okkar

boðar ferðalok.

 

Eyjar og annes

(Jónas Hallgrímsson á tímum loftslagsbreytinga)

1. Undir Ólafsvíkurenni

Mín leið virðist greiðfær gata
það glittir í draumalönd
svo ótryggur einhvern veginn
ég ek samt um þessa strönd.

Á þurru mér leiðist lífið
mig langar helst oní sjó
þar held ég sé heimur skárri
en hikandi bíð ég þó.

Um súrnandi haf ég hugsa
sem hörkuna þarf – og vel,
ég spyr hvort mér linum lánist
þar líka að mynda skel.

2. Við Hornbjarg

Við Hornbjarg á hættuslóðum
í hópum sjást ferðamenn
en enginn það veit með vissu
hvort verpir þar bjargfugl enn.

Í skemmtiferð sigla skipin
prýdd skorsteinum sínum hjá;
viss útblástur drepur undrin
sem augað kom til að sjá.

Fyrr gilti að glápa víða
og góna á henni jörð
því mönnunum fannst hún flottust
og fyrir þá eina gjörð.

3. Í Drangey

Úr eynni sjást feikna fjöllin
með frera í margri hlíð
sem haldi við hlýnun sleppir
svo hrun verða kannski tíð.

Hér fyrrum gat aflandseyja
frá umheimi kúplað mig
en núna fær tæpast nokkur
af nærsveitum fríað sig.

Ég veifaði hendi heima
þá hreyfingu enginn leit
hún gæti samt valdið vindum
og veðri í næstu sveit.

4. Kolbeinseyjar

Enn geislar um gamla daga
þar gerast jú kraftaverk:
Þann bátinn sem ber frá landi
til baka fær trúin sterk.

Vart geta þótt kröftug kæling
mín kaldhæðnu svölu orð
ef hnettinum ógnar hlýnun
og hækkandi sjávarborð.

Það reynist oft flókið ferli
að finna við gátu svar.
Á kaf sökkva Kolbeinseyjar
í Kyrrahafsöldurnar.

5. Óvissueyjan

Hér gætir enn flóðs og fjöru
en fæða sem unginn þarf
berst alls engin uppá syllu
hún óvænt úr sjónum hvarf.

Með briminu horuð hræin
af hugmyndum velkjast til …
Í vanda og vá og raunum
og veru ég lítið skil.

Fyrst tunglið á hringferð hrífur
og hreyft getur jarðarsæ
ég vita þarf hvar og hverju
og hvurnig ég stjórnað fæ.

6. Fuglaskrúð

Við fjörð einn er fuglaeyja
sem fólk segir gróðurskrúð
þar líkt og við Laugaveginn
er lundi í hverri búð.

Ég fjölbreytni sé og fýla,
mitt fiðraða skyldulið,
og súlu í kasti knúsa
uns kemst hún í næturfrið.

Svo fuglarnir ráði ríkjum
má reka burt karl og hrút
en seint bætir fólkið fyrir
þá fogla sem dóu út.

7. Suðursveitir

Ef berangur breiðir úr sér
í birkis og skógar stað
menn grunar hvað gróðri eyði
en greinir samt á um það.

Svo lengi sem féð telst fleira
en fólkið er Bjartur sæll
að heiðum sé hætt við ofbeit
er hjartveikiskvein og væll

Í næðingnum norpa hjarðir
sem nöguðu oní rót
en kjöt fyrir réttir reddast
því rollurnar éta grjót.

8. Minningar af heiði

Með leynd yfir háa heiði
oft hef ég á trukknum keyrt;
hann bensínið brúkar hljóður
svo burr geta fæstir heyrt.

Ég rata að laut sem löngum
í leiðslu ég kanna einn
en för eftir dekk og fætur
þar finnur samt ekki neinn.

Þótt ýmislegt muni mosinn
af mér verður fátt eitt sagt
en andvörp og humm úr húddi
fékk himinn á minnið lagt.

9. Homo economicus

Þín óðfúsa iðjusemi
fer eldi um lönd og heim
en nægt er samt notagildið
sem náttúran ætlar þeim.

Ef breytir þú blóðrás landsins
á ballans þú vinnur spjöll
því jökulsár, grjót og jurtir
að jafnvægi stuðla öll.

Hin óheftu fljót og fossa
á framtíðarbarn með þér
sem hvorki þarf veg né virkjun
en víðerna óskar sér.

10. Veisla í farangrinum

Að efast um ragnarökin
er ráðstöfun mikilsverð
því sett var á sama tíma
ein suddaleg jeppaferð.

Það angrar síst ferðafólkið
þótt fækki hér jöklum senn
ef nóg er af köldum klaka
í kampavínsfötur enn.

Margt heyrist í himnaríki,
með hæðni er pískrað þar
um jóðlandi jarðarbúann
og jökul sem eitt sinn var.

11. Á ferð við Sogið

Ég veiðikló sá við Sogið
og sú var að hnýta agn
en spyrja má hvar og hvenær
og hvort sé að flugum gagn.

Ég gullhringinn tók í Teslu
samt truflar nú þversögn ein
mig uggir að flugum fækki
og framrúðan verði hrein.

Um mýrar og órækt marga
fór menningin eins og rok;
hún lífríki blés í burtu –
það boðaði ferðalok.

12. Einn áningarstaður

Á frýsandi draumafákum
til framtíðar stefnum við,
að baki er mikil móða
en myrkur á hvora hlið.

Í vaklandi trú á vinskap
með vonir og hjartans þrár
við seiglumst á söndum lífsins
og sundríðum jökulár.

Það skyggir og vart fæst vitað
hvert verður að lokum náð.
Einn haga í himingeimnum
við höfum og þar skal áð.

 

Andvökusenna

(Þula fyrir tvær hendur og höfuð manns)

Segðu mér söguna aftur
þá sem þú sagðir í gær
um kvíðafullu veruna
með undarlega höfuðið og hendurnar tvær.

Það var einu sinni vera sem átti sér athvarf í kompu
innan í kúlu sem þeyttist um geiminn
hún lá undir sæng, undir þykku teppi
lá undir feldi og gat hvorki vaknað né sofnað.

Veran var maður og maðurinn var ég, en samt ekki ég
ég er leikari sem leikur þennan mann, trúður að segja sögu.

Þetta er saga um veru sem vissi ekki hvað hún átti af sér að gera
veru sem hafði einkum höfuð og hendur til að skemmta sér við.

Uppúr leiðindum hrópaði veran: Hægri hönd, hægri hönd, hvar ert þú?
Í myrkinu tautaði veran: Vinstri hönd, vinstri hönd, hvar ert þú?
Síðan hlúði hún með höndunum að viðkvæmum gróðri.
Hún mótaði með þeim leirker, hlóð með þeim hús og smíðaði tæki.

Þegar maðurinn lék við hvern sinn fingur var gaman í kompunni hans.
Þumalputti, þumalputti, hvað finnst þér um ástand og horfur?
Langatöng, langatöng, hvernig líka þér straumar og stefnur?
Þá kom lilli putti spilleman með stríðni og spurði: Hver var að prumpa?

Oft fer dagurinn út í hreina vitleysu svo höfuð og hendur hlæja.
Enginn hlær samt þegar kemur að skrýtnasta ævintýri dagsins.
Það var einu sinni slys sem var ekki neinum að kenna.
Það var einu sinni mannshönd sem startaði vél.
Síðan startaði mannshöndin hundrað þúsund milljón vélum.

Þetta var ég, en samt ekki ég.

Það var gaman að lifa og vélarnar gátu endalaust unnið.
Þær fengu fæðu sem gaf þeim kraft
en fæðan olli vindgangi líka
svo vélarnar þurftu að prumpa.
Þegar vélar prumpa verður lyktin svo vond.
Þegar vélarnar prumpa verður loftið þyngra
leggst yfir allt og alla eins og þykkasta teppi
undir teppinu magnast svækja og hiti uns varla er hægt að anda.

Loft. Loft, hrópaði maðurinn inni í kúlunni
hrópaði maðurinn undir feldinum. Gefið lífsanda loft.

Hvað er hægt að gera? spurði höfuð mannsins
Vélarnar verða að prumpa minna.
Gefum vélunum annað að borða svo þær prumpi minna.

Höggvum færri tré og ræktum fleiri svo lyktin batni.
Lyktin af blöðunum grænu gerir loftið betra.

Þumalinn tautaði: Ég hlusta ekki á neina vitleysu.
Langatöng baulaði: Hér er sko allt í þessu fínasta lagi.
Baugfingur þusaði: Það er best að hver treysti á sjálfan sig.

Þegi þú, þumall, sem aldrei lest á umbúðir.
Þegi þú, langatöng, sem snattast um á bensínháknum.
Þegi þú, baugfingur, sem aldrei vilt borða lífrænt ræktað.

Hægri hönd, hægri hönd, hvar ert þú?
Vinstri hönd, vinstri hönd, hvar ert þú?

Það var einu sinni par sem lá í grasinu
andaði að sér fersku sumri
og kysstist í sólinni.
Það flaug þröstur hjá og settist á grein.
Það var einu sinni skógur.
Það var einu sinni tré.
Þar söng einu sinni þröstur og aldrei meir.

Það var einu sinni mannshönd sem gróðursetti tré.
Það var einu sinni mannshönd sem hjó niður tré.

Þetta var ég, en samt ekki ég.

Það var einu sinni hönd sem lék mannshönd og hjó niður tré.
Síðan felldu margar hendur hundrað þúsund milljón tré.

Þegi þú, trúður, ég leik ekki mannshönd
ég vil vera hönd sem leikur kúfskel.
Ég var til á undan öllum vélum.
Ég hef lifað í þrjú hundruð ár.
Ég gæti vel lifað annað eins.
Ég gref mig í botninn og lifi hægt.
Segðu mér höfuð, þú sem veist allt:
Á athvarf mitt eftir að endast svo lengi?

Vonandi gerist ekkert næstu árin, sagði höfuð mannsins.
Vonandi ekkert meðan við erum á lífi, sögðu fingurnir allir.

Ég get ekki sofið. Ég get ekki andað.
Ég þarf loft.
Ég þarf von, kæri trúður.

Segðu mér söguna aftur.

Það segir enginn söguna aftur.
Einu sinni var og aldrei meir.
Allt var einu sinni og aldrei meir.

Það var einu sinni dúdúfugl.
Það var einu sinni úruxi.
Einu sinni geirfugl og aldrei meir.
Einu sinni tígrisdýr og einu sinni górilla.
Það var einu sinni nashyrningur og aldrei meir.

Það var einu sinni margt.
Það var einu sinni ég.
Það var einu sinni við.
Það var einu sinni mannvera og aldrei meir.

Kæri trúður, ekki þetta; segðu mér aðra sögu
sögu mannverunnar sem lifði hægt
segðu mér hvernig hún verður
segðu mér söguna aftur, segðu hana upp á nýtt.

Pin It on Pinterest

Share This