Nokkrar ljóðaþýðingar AHJ
W.B Yeats
Endurkoman
Vendandi æ vendandi í gleikkandi hvirfli
heyrir fálkinn ekki til fálkarans;
allt liðast í sundur; miðjan heldur engu;
hreinu anarkíi streymt um heiminn,
blóðmyrkvuðu flóðinu streymt,
og siðvenju sakleysis hvarvetna drekkt;
alla sannfæringu skortir þá bestu, en þeir verstu
bólgna út af ástríðufullum krafti.
Vissulega virðist opinberun í nánd;
vissulega virðist Endurkoman í nánd.
Endurkoman! Varla hef ég látið frá mér orðið
fyrr en Andi heimsins tekur á sig mynd
ruglar sjón mína: úti á söndum eyðimerkurinnar
hreyfir svifasein lærin skapnaður með búk
af ljóni og höfuð manns, tillitið sljótt og laust
við meðaumkun eins og sólin, en allt um kring
snúast skuggar hinna örgu eyðimerkurfugla.
Myrkrið kemur aftur; en núna veit ég
að tuttugu aldir af algjörum svefni
byltust í martröð ruggandi vöggu,
og hvaða ógnarskepna sem loks á vitjunatíma
hokrast í átt að Betlehem til að fæðast?
Bronislawa Wajs (Papusza)
Blóðtár
– Það sem við máttum þola vegna þýsku hermannanna í Voly veturinn ’43 til ’44 –
Í skóginum. Ekkert vatn, enginn eldur – mikið hungur.
Hvar áttu börnin að sofa? Ekkert tjald.
Um nætur gátum við ekki kveikt eld.
Á daginn hefði reykurinn vakið athygi Þjóðverjanna.
Hvernig er hægt að komast af með börn á köldum vetri?
Allir berfættir…
Þegar þeir höfðu ákveðið að myrða okkur
settu þeir okkur fyrst í nauðungarvinnu.
Þjóðverji kom til okkar.
– Ég hef slæmar fréttir að færa.
Þeir ætla að drepa ykkur í nótt.
Ekki segja neinum.
Ég er líka dökkur Rómamaður
af ykkar ætt — hreinn og sannur.
Guð veri með ykkur
í svörtum skóginum…
Eftir að hafa sagt þetta
faðmaði hann okkur að sér
Í tvo þrjá daga enginn matur.
Allir fara svangir að sofa.
Geta ekki sofið
stara á stjörnurnar…
Guð, það er svo fallegt að lifa!
Þjóðverjarnir vilja ekki leyfa okkur…
Ó þú litla stjarna!
Í dögun ert þú stór!
Blindaðu Þjóðverjana!
Ruglaðu þá
leiddu þá afvega
svo að Gyðinga- og Rómabörnin fái lifað!
Hvað tekur Rómakona með lítil barn til bragðs
þegar kemur harður vetur?
Hvar finnur hún klæði?
Allt verður einskisnýtt.
Hún vill deyja.
Enginn veit, nema himininn
bara fljótið heyrir harmatölur okkar.
Augu hverra sáu okkur sem óvini?
Munnar hverra formæltu okkur?
Ekki hlusta á þá, Guð.
Hlustaðu á okkur.
Það kom köld nótt
gamla rómakonan söng
ævintýri rómafólks:
Það kemur gullinn vetur,
snjór, sem litlar stjörnur,
mun hylja jörðina, hendurnar.
Svörtu augun frjósa
hjörtun deyja.
Það féll svo mikill snjór
að hann huldi vegina.
Bara hægt að sjá Vetrarbrautina á himnum.
Á einni slíkri frostnótt
deyr ung dóttir
og á fjórum dögum
grafa mæður í snjóinn
fjóra unga syni.
Sjáðu sól, hvernig unga Rómafólkið
deyr úr kulda í skóginum
þegar þú ert fjarri.
Þegar ég var komin heim óð tunglið í glugganum
leyfði mér ekki að sofna. Einhver leit inn.
Ég spurði – hver er þar?
– Opnaðu dyrnar, dökka Rómakona.
Ég sá fallega unga Gyðingastúlku
skálfandi úr kulda
biðjandi um mat.
Litla vina, greyið mitt.
Ég gaf henni brauð, allt sem ég átti, skyrtu.
Við gleymdum því báðar að ekki fjarri
var lögreglan.
En þeir komu ekki þá nótt.
Allir fuglarnir
biðja fyrir börnum okkar
svo að vonda fólkið, illmennin, drepi þau ekki.
Ó örlög
Ólukkans lukka mín.
Þéttur eins og laufin féll snjórinn
hefti för okkar
svo mikill snjór, vagnhjólin grófust í hann.
Það varð að troða stíg
ýta á vagnana aftan í hestunum
Ótal stundir eymdar og hungurs.
Ótal sorgarefni og vegir.
Ótal beittir steinar sem skáru fætur okkar.
Ótal byssukúlur sem smugu við eyru okkar.
(Snarað eftir enskri þýðingu sem Yala Korwin gerði úr pólsku)
Jan Erik Vold
Heildarútgáfan af ástarlífi Borislav Herak
Ég hafði aldrei verið með neinni. Við komum
í bæinn Bioca. Ég fékk skipun
um að nauðga stelpu. Ég fór með hana
í hús þar rétt hjá. Hún hét Naila. Hún streittist
ekkert á móti. Verðirnir litu til mín. Gerði ég
það ekki, myndu þeir drepa mig. Önnur
hét Amela. Hún sagði ekki neitt. Grét bara.
Við sögðum henni að fara úr öllu.
Meðan einn nauðgaði, hélt annar henni
niðri. Eða drakk koníak. Við ókum
henni að aflíðandi brekku. Hún var ósköp
róleg. Gekk af stað. Þá tók Sretko upp byssuna
og skaut hana í hausinn. Það var ein sem hét Ina
og ansi sæt. Hún var sautján. Mér leist á hana
en ekki að nauðga henni. Við komum í múslímska
kvennafangelsið þriðja hvern dag. Eftir á
var það yfirleitt ég sem þurfti að skjóta þær, því ég
var sá lægst setti. Ég á þetta skilið.
Mig langar bara að sjá pabba einu sinni enn.
Og svo langar mig í smók.
Paul Celan
Fúga dauðans
Svarta árdegismjólk við teygum á kvöldin
við teygum hana seint og snemma og við teygum hana um nætur
við teygum og teygum
við tökum gröf á himnum svo þrengi ekki að neinum
í húsinu býr maður hann leikur við nöðrur hann ritar
hann ritar þegar dimmir um Þýskaland glóandi hár þitt Margrét
hann ritar og gengur úr húsi og stjörnurnar leiftra hann flautar hundana til sín
hann flautar fram júðana sína lætur þá taka sér gröf í jörðu
hann skipar okkur spiliði fyrir dansi
Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig seint og snemma og við teygum þig á kvöldin
við teygum og teygum
í húsinu býr maður hann leikur við nöðrur hann ritar
hann ritar þegar dimmir um Þýskaland glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít við tökum gröf á himnum svo þrengi ekki að neinum
Hann hrópar grafiði dýpra þið þarna spilið og syngið
hann grípur til járnsins í beltinu hamast með augun sín bláu
stingið skóflunum dýpra þið þarna spiliði fyrir dansi
Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig seint og snemma og við teygum þig á kvöldin
við teygum og teygum
í húsinu býr maður glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít hann leikur við nöðrur
Hann hrópar spiliði dauðann af blíðu dauðinn er meistari þýskur
hann hrópar snertið dekkri strengi þá stígiði sem reykur til himins
þá öðlist þið gröf í skýjum svo þrengi ekki að neinum
Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig á kvöldin dauðinn er meistari þýskur
við teygum þig seint og snemma og við teygum og teygum
dauðinn er meistari þýskur með augað sitt bláa
hann hæfir þig með blýkúlu sinni hann hæfir þig beint
í húsinu býr maður glóandi hár þitt Margrét
hann sigar á okkur hundum býr okkur gröf á himnum
hann leikur við nöðrur og dreymir dauðinn er meistari þýskur
glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít
Wislawa Szymborska
16. maí 1973
Ein hinna mörgu dagsetninga
sem kveikir ekki lengur á neinu.
Hvert ég fór þann daginn
hvað ég gerði — ég veit það ekki.
Hverja ég hitti, um hvað var talað,
ég man það ekki.
Ef glæpur var framinn í nágrenninu,
hefði ég enga fjarvistarsönnun.
Sólin lýsti og hvarf
án þess að ég tæki eftir því.
Jörðin snerist sinn hring
án þess að ég gæti þess í minnisbókinni.
Mér er bærilegri sú tilhugsun
að ég hafi verið látin um stund
en að minnast einskis
þótt ég hafi verið á lífi allan tímann.
Ég var engin vofa
ég andaði, ég át
ég gekk um.
Fótatakið heyrðist
og fingraförin
hljóta að hafa komið á hurðarhúninn.
Mynd mín var í speglinum.
Ég klæddist einhverju í ákveðnum lit.
Einhver hlýtur að hafa séð mig.
Ef til vill fann ég á þessum degi
hlut sem ég hafði týnt
Ef til vill týndi ég einhverju sem ég fann síðar.
Ég var þrungin tilfinningum, og skynjaði.
Nú er allt
eins og punktalína innan sviga.
Hvar hélt ég til
hvar var ég eiginlega?
Það má heita merkilegt
að hverfa úr eigin augsýn
Ég hristi minnið.
Ef til vill er í greinum þess eitthvað
sem um áraraðir hefur sofið
og flögrar nú að stað.
Nei.
Greinilega krefst ég of mikils.
svo mikils sem einnar sekúndu.
Wislawa Szymborska
Ást við fyrstu sýn
Þau eru bæði sannfærð um það
að óvænt ástríða hafi sameinað þau.
Slík vissa er falleg
en óvissa er samt fallegri.
Fyrst þau hafa aldei hist áður, eru þau viss
um að ekkert hafi verið á milli þeirra.
En hvað segja göturnar, tröppurnar, gangarnir
ef til vill hafa þau mæst ótal sinnum.
Mig langar til að spyrja þau
hvort þau muni ekki
andartak augliti til auglitis
einhvers staðar í hringdyrum?
ef til vill „afsakið“ muldrað í mannþröng?
snubbótt „vitlaust númer“ í tólinu?
en ég veit svarið.
Nei, þau muna ekki.
Þau yrðu hissa að heyra
að tilviljunin hefur leikið sér að þeim
í mörg ár
Ekki enn tilbúin
að verða Örlög þeirra
hún ýtti þeim nær, dró þau sundur
setti hindrun í veg þeirra
með bældum hlátri
og læddist síðan í hvarf.
Það voru merki og tákn
jafnvel þótt þau gætu ekki ráðið þau.
Ef til vill fyrir þremur árum
eða bara á þriðjudaginn var
eitt lítið lauf sem flökti
af einni öxl á aðra?
Eitthvað rann úr hendi og var gripið upp.
Hver veit, ef til vill boltinn sem hvarf
inn í runna æskunnar.
Það voru hurðarhúnar og dyrabjöllur
þar sem ein snerting kom
á eftir annarri.
Töskur sem voru bókaðar inn og stóðu hlið við hlið.
Nótt eina, ef til vill, sami draumurinn,
orðinn þokukenndur að morgni.
Allar byrjanir eru sjálfstætt framhald
þegar allt kemur til alls
og bók atburðanna
er alltaf opin í miðju.
Wislawa Szymborska
Köttur í tómri íbúð
Deyja — slíkt er ekki hægt að gera ketti.
Eða hvað ætti köttur að gera
í tómri íbúðinni.
Klifra upp veggina?
Nudda sér upp að húsgögnunum?
Ekkert virðist breytt
en ekkert er þó eins og það var.
Ekkert hefur hreyfst úr stað
en samt er meira pláss.
Og á kvöldin er ekki kveikt á neinum lampa.
Það heyrist fótatak í stiganum,
en ekki það rétta.
Höndin sem leggur fisk í skálina
er líka önnur.
Eitthvað byrjar ekki
á venjulegum tíma.
Eitthvað gerist ekki
eins og það ætti.
Einhver var alltaf, alltaf hérna
síðan skyndilega horfinn
og þrjóskast við að vera horfinn.
Hver skápur hefur verið rannsakaður.
Hver einasta hilla könnuð.
Til einskis að grafa sig undir teppið.
Búið að gera það sem er bannað,
pappírum rótað út um allt.
Hvað er hægt að gera fleira?
Sofa og bíða.
Bíða bara uns hann kemur
bara láta hann sýna sig.
Þá skal hann vita að svona
kemur maður ekki fram við kött
Mjakast í áttina til hans
með sýnilegum óvilja
og ákaflega hægt
á móðguðum loppum
og ekki stökkva eða væla til að byrja með.
Wislawa Szymborska
Terroristinn, hann fylgist með
Sprengjan á kránni er stillt á tuttugu mínútur yfir eitt.
Núna er hún sextán mínútur gengin.
Nokkrir geta ennþá farið inn.
Aðrir gengið út.
Terroristinn stendur nú hinumegin götunnar.
Þessi fjarlægð verndar hann frá illu.
Og hvílíkt útsýni, eins og í bíó:
Kona í gulum jakka, hún fer inn.
Maður með dökk sólgleraugu, hann kemur út.
Strákar í gallabuxum, þeir spjalla.
Sautján mínútur og fjórar sekúndur.
Sá stutti, hann er heppinn, sest á vespuna
en sá langi, hann gengur inn.
Sautján mínútur og fjörtíu sekúndur yfir eitt.
Þessi stúlka, hún nálgast með grænan borða í hárinu.
En þá skyggir stætisvagn óvænt á hana.
Átján mínutur gengin.
Stúlkan horfin.
Var hún þetta fífl, fór hún inn, eða ekki?
Kemur í ljós þegar þau verða borin út.
Nítján mínútur gengin.
Engir fleiri virðast ætla inn.
En einhver gaur, feitur, sköllóttur, er á förum.
Bíðum við, helst virðist sem hann leiti einhvers í vösunum og
tíu sekúndum fyrir eitt tuttugu
gengur hann inn til að sækja skitna hanska.
Nákvæmlega trettán tuttugu.
Þessi bið, heil eilífð.
Nú gerist það.
Nei, ekki enn.
Jú, núna.
Með hvelli, sprengjan.
Fernando Pessoa
Álvaro de Campos: Tóbaksbúðin
Ekki er ég neitt.
Aldrei verð ég neitt
Ekki fæst ég til að vera neitt.
Burtséð frá þessu bý ég yfir öllum draumum heimsins.
Gluggarnir á herbergi mínu
sem er herbergi eins sem enginn þekkir af milljónunum í heiminum
(Og ef þeir þekktu, hvað myndu þeir vita?)
Þið horfið út á dulúð strætis sem stöðugt er gengið af fólki
á stræti sem er óaðgengilegt öllum hugsunum
áþreifanlegt, hræðilega áþreifanlegt, öruggt, undarlega öruggt
með dulúð hluta undir steinum og skepnum
með dauða sem veldur raka í veggjum og hvítu hári manna
með þau örlög að aka bifreið alls niður vegarspotta einskis.
Í dag er ég uppgefinn líktog ég viti sannleikann.
Í dag er ég skýr líktog ég sé að dauða kominn
og nái ekki lengur sambandi við umhverfið
nema til að kveðja, þetta hús og þessa hlið strætisins sem breytist
í röð lestarvagna og flauta blæs til brottfarar
innan úr höfði mínu
og hristingur tauga minna og skruðningar beina við hreyfinguna.
Í dag er ég ráðþrota einsog maður sem hefur hugsað og fundið og gleymt.
Í dag er ég skiptur milli trúnaðar við
tóbaksbúðina hinu megin götunnar sem er eitthvað áþreifanlegt fyrir utan
og skynjunar sem segir að allt sé draumur, sem áþreifanlegt fyrir innan.
Mistekist hefur mér í öllu
þar sem mér hefur ekki tekist að koma neinni áætlun í verk, kannski var allt einskis virði.
Iðnnámið sem mér var komið í-
Ég stökk frá því útum glugga á bakhlið hússins.
Ég fór út á land með stórar áætlanir.
en þar mættu mér aðeins gras og tré
og þegar um fólk var að ræða var það alveg einsog allir aðrir.
Ég fer frá glugganum, sest á stól. Um hvað á ég að hugsa?
Hvað veit ég um það sem ég ætla að verða, ég veit ekki hvað ég er?
Vera allt sem mér dettur í hug? En mér dettur svo margt í hug.
Og það eru svo margir að hugsa um að verða það sama í því sem ekki er þörf fyrir svo marga.
Snillingur? Á þessu augnabliki
eru hundrað þúsund heilar uppteknir við drauma um þá sjálfa sem snillinga einsog ég
og sagan mun ekki muna eftir – hver veit? – neinum þeirra
og ekkert nema áburður verður eftir svo mikla framtíðar keppni.
Nei, ekki hef ég trú á mér…
Öll geðveikrahælin eru full af sjúklingum með mikla mikla vissu.
Og ég sem hef alls enga vissu, er ég öruggari eða minna örugggur?
Nei, ekki einu sinni á mér..
Á hversu mörgum hanabjálkum og ekki hanabjálkum heimsins
eru ekki á þessari stundu dreymandi snillingar-að-eigin-áliti?
Hversu margar háar og göfugar og skýrar vonir-
Já, raunverulega háar og göfugar og skýrar-
Og hver veit hvort þær eru framkvæmanlegar?
munu nokkurn tímann sjá ljós sólarinnar eða ná eyrum fólksins?
Þessi heimur er fyrir manninnn sem er fæddur til að sigra hann
ekki þann sem lætur sig dreyma um að sigra hann jafnvel þótt hann hafi rétt fyrir sér.
Ég hef látið mig dreyma meir en Napóleon kom í verk.
Ég hef kreist inn í ímynduð hjörtu meiri ástargæsku en Kristur
Ég hef í leynum upphugsað heimspekikerfi sem enginn Kant skrifaði.
En ég er og verð kannski alltaf maður á hanabjálkanum
jafnvel þó ég búi þar ekki;
ég mun alltaf verða sá sem ekki var fæddur til þess;
ég mun alltaf verða sá sem hafði hæfileikana;
ég mun alltaf verða sá sem beið eftir því að þeir opnuðu fyrir honum dyrnar á hurðalausum vegg
og söng ballöðuna um Óendanleikann í hænsnakofanum
og heyrði rödd Guð í byrgðum brunni.
Hvort ég trúi á sjálfan mig? Nei, og ekki á neitt.
Lát Náttúruna hella yfir brennandi höfuð mitt
sólskini sínu, regni, vindinum sem hreyfir við hári mínu
og afgangurinn má koma ef vill eða þarf eða þarf ekki
hjörtu okkar þrælkuð af stjörnunum
við sigrum allan heimin áður en við stígum frammúr
en við vöknum upp og hann er myrkur
við förum á fætur og hann er framandi
við förum úr húsi og það er öll jörðin
að viðbættu sólkerfinu og vetrarbrautinni og óendanleikanum.
(Fáðu soldið súkkulaði, litla stúlka;
fáðu súkkulaði!
Sjáðu nú til, það er engin frumspeki í heiminum nema súkkulaði.
Sjáðu nú til, trúarbrögðin kenna ekki meira en sælgætisgerðin.
Éttu, litla skítuga stelpa, éttu!
Ef ég gæti étið súkkulaði með sömu sannfæringu og þú!
En ég hugsa og, reitandi silfurpappírinn með tinlaufi skil ég við það á gólfinu,
einsog ég hef skilið við lífið.)
En að minnsta kosti verður eftir, útúr biturð þess sem aldrei verður
hröð skrift þessara erinda-
Upphaf súlnagangna til hins ómögulega.
En að minnsta kosti helga ég sjálfum mér fyrirlitningu án tára
loksins göfugur í þessari handarhreyfingu sem ég geri þegar ég hendi
þeim skítuga þvotti sem ég er – enginn listi – inn í röð atburða
og verð heima án skyrtu.
(Þú sem huggar, sem ert ekki til og þaraf leiðandi huggar
hvorki grísk gyðja, meðtekin sem stytta sem gæti verið lifandi
né rómverskur faðir hræðilega göfugur og illur
né prinsessa trúbadúrsins, ljúfust og skærust sýna
né átjándu aldar markgreifafrú fjarlæg og í síðum klæðum
né margfræg mella frá æskuárum feðra okkar
né eitthvað nútímalegt – ég hef enga skýra hugmynd um hvað-
vertu hvað sem er af þessu, og, ef það gefur innblástur, láttu það gefa innblátur.
Hjarta mitt er tæmd karfa.
Einsog fólkið sem ákallar anda, ákallar anda, ákalla ég
sjálfan mig og mæti engu.
Ég fer að glugganum og sé strætið algjörlega skýrt:
Ég sé búðirnar, ég sé gangstéttarnar, ég sé umferðina líða hjá
Ég sé lifandi verurnar í fötum ganga hverja framhjá annari
ég sé hunda sem líka eru til
og allt þetta liggur á mér einsog útskúfunardómur
og allt þetta er mér framandi, sem allt annað.)
Ég hef lifað, lært, hef elskað og jafnvel trúað
og í dag er ekki til sá betlari sem ég öfunda vegna þess að hann er ekki ég
Ég lít á tötra hvers og eins, sár og lygar
og hugsa: kannski lifðirðu aldrei né lærðir né elskaðir né trúðir
(vegna þess að hægt er að framkvæma raunveruleika alls þess án þess að gera neitt af því)
kannski hefurðu varla verið til, frekar en hali eðlu sem er skorinn af
en eðlan heldur áfram að hreyfa sig.
Ég hef gert úr mér það sem ég hafði ekki hæfileika til.
Og það sem ég gat gert úr mér gerði ég ekki.
Fínu fötin sem ég fór í voru ekki þau réttu.
Þau þekktu mig strax sem þann sem ég var ekki og ég mótmælti ekki
lyginni og tapaði sjálfum mér.
Þegar ég reyndi að taka niður grímuna
var hún föst við andlit mitt.
Þegar ég náði henni af leit sjálfan mig í spegli
hafði ég þegar elst.
Ég var drukkin, reyndi árangurslaust að komast í
fötin sem ég hafði ekki afklæðst.
ég henti frá mér grímunni og svaf í klæðaskápnum
einsog hundur sem stjórnendurnir þola
vegna þess að hann er hættulaus.
Og ég ætla mér að skrifa þess sögu til að sýna frammá að ég er göfugur.
Hljómur minnar gagnslausu ljóðlistar
ég vildi að ég gæti fundið í þér hönd mína vinna
og að ég myndi ekki alltaf vera fyrir framan tóbaksbúðina hinu megin götunnar
trampandi undir mér, samvisku minni yfir því að vera lifandi
einsog teppi sem fyllibytta fellur um
eða verðlaus motta sem sígaunar stela.
En tóbakssalinn er kominn að dyrunum og stendur í gættinni.
Ég lýt á hann og finn til óþæginda í hnakkanum
og finn til óþæginda þeirrar sálar sem ekki sér skýrt.
Hann mun deyja og ég mun deyja.
Hann mun skilja við sitt skilti og mun skilja eftir mig ljóð mín.
Dag einn mun skiltið líka deyja og sömuleiðis ljóðið.
Eftir nokkurn tíma mun strætið þar sem skiltið var líka deyja
og tungumálið sem ljóðin voru ort á mun deyja líka.
Síðan mun plánetan þar sem þetta allt gerðist líka deyja
Á öðrum hnöttum í öðrum kerfum mun eitthvað einsog fólk halda áfram
að skrifa eitthvað einsog ljóðlist og búa undir einhverju einsog skiltum
allltaf eitthvað á undan öðru
alltaf einn hlutur jafn gagnslaus og annar
alltaf hið ómögulega jafn vitlaust og veruleikinn
alltaf dulúð dýpisins jafn viss og svefn dulúðar á yfirborðinu
alltaf þetta eða alltaf eitthvað annað eða hvorki eitt né neitt.
En maður nokkur hefur farið inn í tóbaksbúðina (til að kaupa tóbak?)
og hinn mögulegi veruleiki hrynur yfir mig
ég rís upp við dogg, krafmikill, ákveðinn, mannlegur
og ég ákveð að skrifa þessi erindi þar sem ég segi hið gagnstæða.
Ég kveiki í sígarettu meðan ég hugsa um að yrkja erindin
og í sígaretunni finn ég frelsi frá öllum hugsunum.
Ég elti reykinn einsog rétta stefnu
og ég nýt í einu viðkvæmu og réttu augnabliki
frelsis frá öllum spekúlasjónum
og viskunni um að frumspeki sé afleiðisng þess að vera í slæmu skapi
síðan halla ég mér afturí stólinn
og held áfram að reykja.
Meðan örlögin leyfa mun ég halda áfram að reykja.
(ef ég giftist dóttur þvottakonunnar
myndi ég kannski verða hamingjusamur)
Því fer ég upp úr stólnum. Ég geng að glugganum.
Maðurinn er kominn út úr tóbaksbúðinni (setur skiptimyntina í buxnavasann)
Ó, ég þekki hann: það er Stebbi án frumspeki.
(Tóbakssalinn er kominn út í dyr.)
Sem leiddur af æðra innsæi snýr Stebbi sér við og sér mig.
Hann veifar til mín, ég kalla til hans Halló Stebbi ! og alheimurinn
byggir sig aftur upp án hugsjónar eða vonar og tóbakssalinn brosir.
Jorge de Sena
Á Krít, með Mínotárusi
I
Fæddur í Portúgal, foreldrarnir portúgalir
og faðir brasilíumanna í Brasilíu
verð svo ef til vill kani þegar ég hafna í Ameríku.
Ég viða áfram að mér þjóðernum einsog skyrtum sem slitna,
sem ég klæðist og hendi síðan með hæfilegri virðingu
fyrir þeim fatnaði sem gengur úr sér við mikla notkun.
Ég er mitt eigið föðurland. Föðurlandið
sem ég yrki er tungan, málið sem ég fæddist í af hreinni
tilviljun. Og það sem heldur mér við efnið, heldur mér lifandi
er heift mín vegna ónógrar mannúðar í þessum heimi,
þar sem ég trúi ekki á neinn annan, og myndi í öðrum
bara vilja þennan. En ef ég einhvern daginn gleymi öllu,
þá eldist ég vonandi
við kaffidrykkju á Krít
með Mínotárusi
undir augnaráði ósvífinna guða.
II
Mínotárus mun skilja mig.
Hann hefur horn, einsog vitringar allir og óvinir lífsins.
Hann er hálfur naut og hálfur maður, einsog allar mannskepnur.
Nauðgaði og slafraði í sig ungmennum, einsog allar óvættir.
Sonur Pasífæju og bróðir erindis eftir Racine
sem Valéry, fávitinn, taldi með þeim fegurstu í hinni mætu „langue“.
Einnig bróðir Aríöðnu og hann flæktist í hnykli sem varð honum að falli.
Þeseifur, hetjan, sem líktog allar grískar hetjur var sonur skækju
hló upp í ginið mikils virta.
Mínotárus mun skilja mig, hann mun drekka með mér kaffi, meðan
sólin sest í kyrrð og ró við hafsbrún, og skuggarnir
mettaðir dísum og atvinnulausum sveinum
hverfa undursætir í bollana
líkt sykrinum sem við hrærum upp með skítugum putta
snjáðum af gramsi eftir uppruna lífsins.
III
Og einmitt þar vil ég endurheimta sjálfan mig, eftir
skilnað við líf á dreif um heiminn, einsog sagði gjarnan
blessuð ræfilstuskan sem Mínotárus aldrei les, því hann
kann ekki portúgölsku fremur en aðrir.
Ekki kann ég heldur grísku, samkvæmt áreiðanlegum heimildum.
Við ræðumst þá við á volapük, þar
sem hvorugur okkar kann það. Mínotárus
talaði ekki grísku, var ekki grikki, uppi fyrir tíma Grikklands
og hinnar lærðu drullu, sem hefur útatað okkur um aldir,
sem þrælar okkar skitu, ellegar þá við
sem þrælar annarra. Yfir kaffinu
rekjum við meinin hvor fyrir öðrum.
IV
Með löndum feðra erum við keypt, erum við seld, vegna
skorts á nægilega verðmætum löndum, sem skammarlegt væri
að tilheyra ekki. Hvorki ég né Mínotárus
mun eiga neitt föðurland. Einungis kaffi,
ilmandi og afar sterkt, ekki frá Arabíu eða Brasilíu
Fedecam eða Angólu eða neinum öðrum heimshluta. En kaffi
samt sem áður, og með sonaraugum
mun ég sjá það drjúpa frá skolti nautsins
niður á hné mannsins, hans, sem ekki veit
frá hvoru, föðurnum eða móðurinni
hann hefur erft snúin hornin sem prýða
göfugt ennið, enni eldra Aþenu, og hver veit, eldra
Palestínu og öðrum ferðamannastöðum
tengdum ákafri föðurlandsást.
V
Á Krít, með Mínotárusi
án lífs og án ljóða
án föðurlands og án andlegheita
án alls og allra
nema skítuga puttans
ber mér að drekka í næði mitt kaffi.
Jorge de Sena
Fimmtugur
Fimmtugur er ég ruglaður maður
ekki á sama hátt og ég var við tvítugt, þrítugt eða fertugt
heldur út í gegn ruglaður. Ég veit ekki
hvort ég elska lífið eða fyrirlít það. Hvort ég vil
halda áfram að lifa eða ekki.
Hvort ég elska eða elska ekki þá sem ég elska
hvort ég hata eða hata ekki þá sem ég hata.
Hvort ég vil vera patríarki, fjölskyldufaðir, sem ég hef þó orðið að lokum
eða hvort ég vil vera frjáls á götum næturinnar
sem ég endurfann sífellt
þau ár sem ég gekk um þær fram og til baka, í leit
varla að ást fremur að líkömum, líkömum, líkömum.
Er ég frá Evrópu eða Ameríku? Frá Portúgal
eða Brasilíu? Er það ósk mín að allt mannkynið
verði hamingjusamt á sinn hátt eða að það deyji
í hinu marglofaða og mögulega atómstíði?
Ég veit það ekki. Ég veit hreint ekki.
Heldur þú að ég liggi á rósarbeði?
– spurði Cuauhtemoc kvalara sinn undir pyntingunum.
En jafnvel þegar hann var fallin frá völdum, fanginn og pyntaður
var hann Valdhafinn, ættingi guðanna.
Ég kem ekki frá guðunum. Skrokkinn verkjar
undan ellinni. Lund minni verkjar af líkamlegri þreytu.
Útlínur sálarinnar, hverjar svosem þær eru, vekja ekki áhuga minn lengur.
Eftir stendur ljóðlistin, sem fer í taugarnar á mér hjá öðrum
ef þeir tilheyra ekki þeim liðnu, sem nú eru hreinir frá dauninum
af hafa lifað. Ég lifði svo mikið
að mér finnst það svo lítið. Og ég mun deyja
í vafa um hvort ég hafi lifað. Fimmtugum
hjálpar mér ekki lengur reiði annara
við að halda listinni og þolinmæðinni að lifa.
Aðrir mega gera sínar tilraunir, uppgötvanir,
hvað þeir segja eða ekki segja skiptir mig engu.