LJÓÐAÞÝÐINGAR ÚR BELGÍSKU

Ljóðaþýðingar úr belgísku var bókartitill sem ruglaði ýmsa á sínum tíma og ekki bætti undirtitillinn úr skák: Anton Helgi Jónsson valdi og bjó til prentunar. Fæstir virtust átta sig á því að ekki er til neitt tungumál sem heitir belgíska og enn færri höfðu heyrt gamlan brandara um að belgíska væri töluð á Íslandi, einkum af skrílnum. Hér er því ekki um venjulegar þýðingar að ræða heldur þýðingar úr máli sem ekki er til, titillinn er „listræn“ þverstæða sem ýjar að því að verkið sé safnrit og skáldið ekki höfundur í venjulegum skilningi.  Verkið skiptist í kafla sem eru ólíkir innbyrðis hvað varða efni og aðferðir og gefa ýmist í skyn fleiri höfunda eða einn sem ekki er sjálfum sér samkvæmur. Allir heita kaflarnir fyrsti kafli þannig að aftur og aftur er byrjað upp á nýtt.

—–

FYRSTI ÞÁTTUR

LÖGREGLUMAÐUR KANNAR ÖKUSKÍRTEINI

 

 

Einræður sveitamanns

Á morgun. Ekkert veit ég fallegra en þetta loforð
þessa janúarsól, þennan geisla vonar: Á morgun!

En hef ég ekki ætlað að yrkja undir mig allan heiminn?

Væri mér kannski nær að harma tímaskort
muna allt sem ég á ógert

muna allt sem ég ætti að gera?

Einu sinni reyndi ég að líkja dögunum
við styggar skjátur
og sjálfum mér við móðan smala
með lífið bara í nösunum.

(Svona er ég nú rómantískur, aftarlega
á bókmenntamerinni eða guðmávitahvað.)

Ég á uppkastið ennþá og þetta verður ekki
eitt af mínum hálfkláruðu verkum.

Á morgun vendi ég mér í snilldarverkin, á
morgun kenni ég gömlu orði að sitja, á morgun
get ég loksins byrjað: Upp, upp!

En í dag, æ sál mín, get ég aldrei hugsað.

Í dag er alltaf kaldi og vetrarmaður gegnir skyldu sinni.
Í dag er alltaf kaldi og vetrarmaður gegnir gæfum draumum.

Ég held langar ræður
yfir mér um eigið ágæti.

Hvílík mælska.
Hvílík snilld, hvílík áhersla.

Ég álykta:
Mikið lán að heimurinn verður án þessarar mælsku.
Mikið lán að ég lenti ekki í stjórnmálum.

Hvílík snilld, hvílík mælska.
Og þó tekst mér aldrei að sannfæra sjálfan mig
nema um eitt: Á morgun. Á morgun. 

 

 

Kostgangari

Góðan daginn, Jesús, góðan daginn.
Öld hægðateppunnar er liðin, núorðið
teygir kvöldið úr sér einsog prestvígð kona
á líkamsræktarbekk, en samt er alltaf
morgunn fyrir tímann og hríðasíminn
truflar jóðlíf mitt undir sænginni. Skyldan
tekur á móti með frægum ljósmóðurhöndum
og sendir mig á lagerinn. En það er ekki versta
tilverustigið, þar verður enginn úti
í ábyrgð, þar verður bráðum pása
og þar verður bráðum kaffi. En í hádeginu
get ég fleygt mér eftir súpukjötið.
Svo er bráðum kaffi.

Súpukjöt í dag, súpukjöt á morgun — en stundum
opnar líka kostgangari munninn
til þess að vitna. Sumir kunna uppskrift að kæfu
en aðrir trúa fremur á eilífan anda
okkar sem leysum vind eftir borðhaldið.

Þeim sem lifir við alræði fulltrúanna
þykir huggun að heyra um firma
þar sem er þó hægt að ná í soninn.
Og ég leyfi mér þá að biðja
um greiða:
Frelsaðu mig ekki frá mötuneytinu.

Ég bíð og ég bíð allan daginn eftir kvöldinu.
Hvað gagnar mér að bíða lengur, bíða
heilt líf eftir því að deyja ekki og aldrei sofna?

Það verður bráðum pása
og það verður bráðum kaffi. En í hádeginu
get ég fleygt mér eftir súpukjötið.
Svo er bráðum kaffi.

 

 

Höfðingjadjarfur

Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Eitthvert kvöldið
mun ég leggjast útaf í hreinum nærbuxum
og gleyma því að trekkja upp vekjaraklukkuna.

Þegar líður á mánuðinn kemur lúmskur húseigandinn
með aukalykil og potar í skrokkinn: Hér
geturðu ekki legið rotnandi og skuldað leigu. En ég
verð þá farinn út á lífið dauða
afturgenginn til ábyrgðarleysis
og forréttinda hinnar eilífu sálar.

Hvergi verður mér meinaður aðgangur. Ósýnilegur
hvísla ég formælingum í eyru dyravarðanna, tylli mér
við frátekna borðið, fer án þess að hugsa um reikninginn.

Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Vélasalurinn
verður ekki minn höfuðverkur og verkstjórinn
má rausa að vild um ómennsku og léleg afköst.
Afturgenginn fer ég ótilkvaddur uppá teppi
og þegi. Afturgenginn mun ég líta helgidómana
í vöruhúsinu girndaraugum án þess að hræðast
afgreiðsluprestinn eða kaupskyldu mína. Og starfsemi
kirtlanna mun ekki angra mig. En fari mér að leiðast
get ég alltaf svifið inn í kvennaklefann og þefað.

Enginn skal heyra mig bera fram afsakanir
enginn skal heyra mig biðja …

Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Dagarnir
langir og nóg að gera við kuldahláturinn. Óvíst
hvort ég nenni að svara ítrekunum gjaldheimtunnar
óvíst hvort ég fylli í skattskýrsluna.

Og þegar rýtingarnir gefa orðið laust á hverfafundi
munu ekki smáatriðin vefjast fyrir mér og enginn
fær að benda á mótsagnir í ræðu minni.
En á sjálfan kosningadaginn
mun ég jafnvel skila auðu.

 

 

Digito monstrari, et dicier: Hic est

Ég öfunda. Ég öfunda ekki Ég
er hvorki stóra táin né litla táin.
Hvorki litla táin né stóra táin.

Að kvöldi göngudags þakkar yfirmaður
undirmanni dygga þjónustu.
Og nefnir Stóru Tá.
Og nefnir Litlu Tá.
En mig — 
mig ávarpar hann í fleirtölu.

Ég sýti þó ekki náðarmeðul uppanna. Titla
annarra læt ég ekki spilla ást minni
á daðri og fjölmiðlum.
Í fullri einlægni
óska ég framatánum hæfilegrar velgengni.

Og enginn skyldi væna mig um sósíalisma
þótt ég hvísli véfrétt að nafnkenndri tá.

Húfreyja veit ei hvað ég heiti.
Hæ, hæ og hó.

Ég er hvorki Litla Táin né Stóra Táin.
Ég er hvorki Fatlaða Táin né Feita Táin.

Nei, verðleikar mínir yfirstíga lýsingarorðin.
Mér hæfir annar stíll en hrokafullt lítillætið: Ég
lagði í Indlandsför á undan Alexander mikla. Ég
háði mitt sjö ára stríð einsog keisarinn Friðrik. Ég
átti minn ósigrandi flota. Og ég
fékk andann yfir mig þegar skáldið
gekk út til að blessa reykinn frá  húsinu við vatnið.

Ó, tvíbenta líf: Útlit mitt auglýsir tímaritið
aldrei á forsíðunni. Blaðamaðurinn getur mín
hvergi í skýringartexta. Ljósmyndarinn sér mig
varla meðan ég verð nafnlaus.

Og ég sem myndast þó betur en beiskjan.

 

 

Ólestur

Café Rosa Luxemburg hét þó fundarstaðurinn heima.
Sagan sjálf kom þangað daglega með brjóstið
fullt af dætrum og lenti á kjaftatörn
við lík sem bað um nýjungar. Hér
getur maður ekki einu sinni beðið um ábót.
Og ég sem er hálf svona hálf, ég sem veit ekki enn
hvort á að beygja kökur
til kaka
eða kakna.

Ég verð mér alltaf til skammar. Hér verð ég
aldrei andans maður. Mér stendur
á sama. Ég er alltaf þar sem ég hugsa
ekki. Og ávallt þegar ég mæti á kaffistofuna
hefur hún skilgreint ástina sóló, en í mínum
fornsöluhaus lenda orð hennar
á suðuprógrammi og lita útfrá sér.

Ó, varir hennar:
þessi náttúrulýrík, þessi fífilbrekka
þessi nítjánda öld
þessi dulúð
þessi kálfi sem læðist undan faldi.

Hún áminnir mig um bækurnar sem ég hef ekki lesið
bækurnar sem ég ætti að lesa, bækurnar
sem ég hef gefist upp á að lesa og bækurnar
sem ég las án þess að geta sáð í þær merkingu.

Skoðanir þínar þykja mér ekki kyssilegar.
Vina mín, ég reyni og reyni
en í umræðunum finn ég engan G-blett.

Hér verð ég aldrei andans maður. Ég man
einkum skáldið sem orti um prentverk og óskaði
þess að klisjurnar yrðu aftur málmur í fjalli. Mættu
þá bækurnar verða laufgað tré og mætti
ég sitja undir trénu með henni
spakri: Mig fýsir í annað
og meira en stundar
fróun er slungin
hönd mín læst hennar
á náðhúsi milli fyrirlestra.
Café Rosa Luxemburg hét þó fundarstaðurinn heima.

 

 

Fjárglæfradreyminn játar

Mig dreymir skít. Það er ekkert
leyndarmál. Mig dreymir skít.

Væntanlegum happdrættisvinningum
get ég óhræddur spandérað á daginn.
Flestar nætur dreymir mig tonn og aftur tonn af skít.

Hversu mikinn skít mig dreymir kemur þó engum við.
Forvitnir spyrja hvort ég sé aflögufær.
Leyfið mér að orða svarið snyrtilega:
Ég hef vonandi nægan skít fyrir mig og mína.

Tekur því þá að beygja sig eftir krónu á götunni?
Hagfræðingar mega svara fyrir sig, en ég
leyfi mér að minna á smáatriði lífsins.
Hver hefur ekki vaknað sæll
af draumi um kamar æsku sinnar?

Mig dreymir skít. Og sumar nætur verður mér
nóg um dýrðina. Ég svamla í skít. Ég drukkna í skít.

Og hver vill þá gera mig að glæpamanni?

Fjárfestingar mínar eru hreinasta skiterí.
Bankareikningarnir erlendis della.
Í rauninni á ég ekkert nema börnin.

Eldhúsið spyr: Hvernig fer með næstu afborgun?
Hvernig fer með rafmagnsreikninginn? Hvernig
fer með helgarinnkaupin og dagmömmuna?

Ég læt ekki svo auðveldlega sturta mér niður.
Í nótt gæti mig dreymt haughús.
Í nótt gæti mig dreymt sundin blá og skolpræsi borgarinnar.

Mig dreymir skít. það er ekkert
leyndarmál. Mig dreymir skít.

 

 

Uppvakningur

Hver engla hlustar? Hver heyrir mig hósta? Hver
andvarpar þegar mér skolar að ströndum
einnar óbyggðrar nætur enn? Hver
stendur yfir mér blautum af svita
og man ekki eigin hryglu
meðan biturðin blæs
í mig lífi og hatrið
hnoðar
hjartað? Hver nema Heilagur Heiftugur sjálfur?

Án þess að þjást af estetískum höfuðverk, án þess
að kvarta yfir nykraðri tilveru minni, án þess
að biðja um ábyrgðarmenn mun hann gyrða mig
kjarki, mun hann veita mér styrk til að lyfta
myndrænu sverði gegn öldurótinu, gegn
lögregluþjónum sem krefja mig um ökuskírteini
í vitund þar sem sól kemur upp, gegn nafnleysinu
þegar ég vöðla eyðublaðinu saman og byrja upp á nýtt.

Mann þyrstir í svalandi vanda
á villuráfi um auðnir
áhyggjuleysis og værðar.

En ég er ekki verður þessarar náðar, þessarar
andvöku. Auðvitað vil ég ekki síður en aðrir frelsa
eðalborið svar úr klóm sannleikans eldspúandi. Ég
mun þó ekki höggva hausinn af neinum. það vaxa
bara nýir í staðinn. Og ég var aldrei einn af þeim
sem fórnar sér svo Réttlætið eitt megi lifa þegar
fólkið verður dáið. Kannski er ég hann sem var
uppi vegna smánar í banka, kannski er ég hann
sem að óreyndu fékk ekki ljóðin sín birt.
Bráðum kemur hún af vaktinni. það birtir
en hugsun mín fellir engan skugga og sami
botninn rímar við alla mína fyrriparta: þegar
mest ég þurfti við
þá var ég sjálfur hvergi.

——

FYRSTI ÞÁTTUR

TILBRIGÐI DYRAVARÐAR

I

 

Sumarið heima


Af kistubotni lyftir hún skírnarkjólnum.
Úr öskju fær hún grafið norrænan lokk.
En gómar æsku sína hér:
Í augntóftum brúðu.
Í holum augntóftum brúðu.
 

 

Eftirstríðsár


Billegir skór af Vellinum.
Grunur um sprútt í skúrnum.

Ilmurinn, rómuð
eplin, jól.

 

Ómegð


Gamla elliheimilið kallaðist húsið
sem í öðrum plássum
hét kannski Hreppskassi
eða Bæjarblokk.

Afhverju elliheimili? spyr innipúki
uppúr skyrdisknum
og stendur á haus í skeiðinni.

Sú eldri ansar engu.
Hún leggur það yngsta á brjóstið.

 

Vegagerð

Síðasti bærinn í dalnum hét fyrsta
íslenska myndin. Verkstjórinn bendir mér
innfæddum
útlendingnum
á rúst: þarna reistu þeir kotið.

Kondu seinna.
Kondu
með glókoll
og frú til að gaspra um arf.
Uppruna sínum getur enginn neitað.

 

Lýriskir dagar

Svarthvítir dönsuðu Quinn og Bates
á dúknum í Nýja
Bíói

en hér í seiðandi flæðarmáli
velkjast upplitaðir
brúsar undan sápulegi.
 

 

Vaktaskipti við höllina

Sólskin og kalkaðir veggir. Loðinn
brjóstsykursmoli í sparibuxnavasa.
Krónan
sem töframaðurinn fann bakvið eyra mitt.

Myglan í veggfóðrinu. Hurðaskellir.
Stífur pensill
í málningardós.

Allt þetta læt ég eftir mig.
En fæðingarblettina
lét ég fjarlægja
og sippubandið var ekki mitt.

 

Nafnlaust


og með ættrækinn skilning á vörum
nálgast gigtveikt sumarið
nálgast viðtengingarháttur ótíðar.

En í septemberhuga krypplingsins
eiga stelpurnar ennþá frímínútur
og hlaupa í sjoppuna
og hlaupa framhjá í þunnri peysu
eða jakka
sem þær halda saman við naflann með nettri hendi.

Þær koma í ljós og þær hverfa og hárið gusast
um axlir og andlitin gjósa.
Og engin lítur til hægri og engin til vinstri.

Ein skal þó ávallt missa hingað augun. Ein
skal óvart missa hingað óstýrilát augun.
Og skelfast.
Og finna viðbjóðinn káfa —
finna óræðan viðbjóðinn káfa um barm.

Í portinu bergmálar síðasti hlátur vorsins

 

Liðhlaupinn

Einatt þurfa augun að venjast óreiðunni.
Vináttan, tjakkurinn, skrallið.
Ekkert af þessu var týnt.

Í verkfæraskápnum rekst ég á aðra gosflösku
sem þú hefur ekki tæmt.
Engan þyrstir í volgan sopa.

Kannski það séu bremsurnar sem sameini okkur.

Ég spegla mig snöggvast í stuðaranum.
Haustið drýpur af ryðguðu bretti.


——–
II


Úthald

Hæll af ærnum kvenskó
negldur
mitt
í landganginn.

Og sleggjan
sem haltrar upp bryggjuna heim.

 

Annar morgunn á brúnni

Einkum hrímgað
handrið
og
fingurnir sem
líkja
eftir
göngulagi
línu-
dansarans.

 

III


Og ég kom þar


Og ég kom þar sem póetin höfðu marmara
ljóð sín í frammi, fólkið

hreifst (gvuð krakkar erum við
ekki svaka heppin
að eiga svona fallegt mál
íslenzkuna) en ég

á mína vísu.

Mundi hvað ég var lítill
kall, mundi að alltaf á öllum
tímum er búið að yrkja bestu ljóðin.

En ég (ó líka ég) reyndist þá hafa hjarta
sem neitar að taka sönsum, hjarta
sem heimtar söng og ég skildi að mismæli
mitt, að vandræðaorðið
var eitthvað svo smátt
eitthvað svo líbblegt og smátt.

Hið eina hverfula
í öllum salnum
og sannlega sannlega eilíft.
 

 

Fimmtudagskvöld á þýsku

Blæs og blæs, hann blæs og
blæs. En hver? Hver blæs? Hver
athafnar sig á þakinu? Skáld

skapur, persónugervingur; við
höfum ekkert að gera frammúr.
Látum blossana stafa frá spæjara
sem farið hefur gluggavillt
með ljósmyndavél í leit að hjúskaparbroti.

Þá drynur skruggan. Og hvernig
ber að túlka hana hér

í þessum texta/veruleika? Kannski
goðsagnir séu lausnin? Ég
hef ekkert á móti því praktíska
en við lifum í heimi myndhverfinga
elskan mín og óþarfi að æða
upp á þak útaf lausri bárujárnsplötu:
það er annar úti með hamar.

Reyndu þá að yrkja blankalogn
og sól, reyndu þá að yrkja
kvenmannsbelg næst þegar á að juðast.
 

 

aðalbláber

 

gæti verið ágætis titill á ljóði!
Og þetta er þá afrek mitt í dag:
Ég hef plokkað orðið aðalbláber upp úr bók.
Ég veit það má finna bláber
í öðrum verkum. Og kannski
grunar mig líka mun handan orða
þótt ég komi hvorki fyrir mig bragði né lit.
Ekki verður aðalbláberið
aðalbláber eitt og sér.

aðalbláber. Alltaf skal mínu óviti
heppnast að slíta orðin úr samhengi.
En hver eru vensl mín við þetta?
Gegnum hana mömmu?
Já, gegnum hana mömmu.

Stundum á haustin tíndi hún berin fyrir vestan.
það er freistandi að skrifa: hún las, en
hún tíndi berin á æskustöðvunum fyrir vestan.

Aðalbláber náttúrunnar spruttu
eflaust í öðrum landshlutum
og þau vekja ekki áhuga minn.
Enda hef ég fátt að gera við heiminn
þarna úti. Og minna við samheiti.
En dugar aðalbláber sem líking
í sambandi okkar mæðgina?
Var ég aðalbláberið hennar?

Nei, ég mun aldrei framar yrkja ljóð.
Mér líður ekki einsog.
Nú reyni ég að einbeita
mér að lestrinum, nei, ég les ekki meir.
 

 

Bólstraský
                                               
 they weren’t good poets
                                                 they weren’t bad poets
                                                 but, oh my god, they were poets
                                                                           gilbert & george

 

Í gær tók ég með mér veðurfræði
Markúsar Á. Einarssonar (já
af öllum bókum hefur einmitt þessi
fylgt mér) og fletti upp á skýjamyndunum.
Veistu hvað? María situr bólstraský. En ég
er engu nær um fegurðina.

Og hafi ég ætlað mér að skilja
guðdóminn koma vísindin að litlu
haldi segja strákarnir.
þeir hafa lesið um gamla spekinga
sem endalaust þráttuðu um kynferði
engla. En varla þeirra sem eru í myndinni
því hún var máluð síðar.

Hvað á ég að gera við líf mitt?

Encyclopédie morale.
Aftur dreymdi mig fornbókasalann.
Aftur tók hann fram doðrantinn.
Starfsævi okkar skýjaglópa er stutt
en kannski er ekki of seint að læra frönsku.
Ég verð bara verð ég verð að komast til Parísar.

Hvað ef hann er í Quebec?

Morgunkonan grándar mig og hlær.

 

Poste restante

Vinur. Bréfum
þínum seinkar og ég
hugleiði stundum að senda þér ljóðið
um stúlkuna sem tregar
elskhuga sinn og bróður. En þú
myndir kannski öfundast útí
frumlegheitin og leggjast í þunglyndi.
Ég læt vera að yrkja. Enda
þarf ég hvorki að bregða mér í kjól
né aðskornar líkingar til að viðurkenna
opinskátt og edrú að ég sakna þín. Verst
hvað ég er mikið skáld. Verst hvað ég
skammast mín fyrir orðin. Verst hvað
ég óttast lágkúruna sem gæti vakið
grunsemdir um að mér sé alvara.

—-

FYRSTI ÞÁTTUR

BISKUP VÍSITERAR FÁVITAHÆLIÐ

 

heimakominn

ekki spyr ég að gleðskapnum, enn
blaktir á kerti mínu hér í stofu

talandi um eirðarleysi, yfir
vokir stimamjúkur skuggi

vill ganga frá, en mætti
mætti treinir sér, treinir

 

 

á erfiðum tímum í evrópu

á erfiðum tímum í evrópu
hrepptu fangar kartöfluskræling
en í asíu
fengu hænsni hýði af hrísgrjónum

semsagt
allt við það sama hjá siðmenningunni
óvart fjörgar hún lítils virta
meðan úrvalsliðið veslast upp

 

lífstíð

tungumálið hlaut
ég að ósekju
og afplána enn

 

biskup vísiterar fávitahælið

öll erum við börn
í vissum skilningi

það má nú segja

og þessir minnstu bræður
holdfrekir
kaffisjúkir
mislyndir
ja —
samasem ég einsog skrifað stendur

en hvað sem annars mætti um þá segja
skyldu þeir gera sér hugmyndir líka

og hingað er ég kominn
opinberunina
hefur maður jú umfram dýr

skyldu þeir gera sér hugmyndir líka

 

 

steinn þvær hendur sínar í moskvu

rautt er
rautt og rautt
er örugglega rautt

úr þessum krana rennur þó ekki heita vatnið

og ég sem hef reynt
að koma litum í orð

 

 

stúdentsveisla

héðan af
verða minningarnar á breiðtjaldi
örfoka unglingsárin
reynast glaðvær borg

dillandi hlátrar
berast úr hverju húsi
og auðga tilveruna

einungis framtíðar er saknað

 

 

komische oper

sætavísan beinir spotti sínu
á mig og heimtar miða

fagnandi gægist skattgreiðandinn
yfir öxl
yfir einkennisbúning

 

 

hurð í húsi heimspekideildar

fyrrum enduðu allir hugsjónamenn ævina
í óþekktri blindgötu
nú heitir svo að við búum í rólegum botnlanga

og enn stendur
það sem til stóð

 

 

herod the baptist

þú ein
ég lofa aldrei þú ein

sjálfur er ég að minnsta kosti tveir
sjálfur hef ég að minnsta kosti tvö höfuð

svona svona

höfuð færðu á silfurfati
ef þú dansar
stúlkurinn mín dansar

 

 

dale carnegie milli funda

það sem einum getur dottið í hug
á veggnum hangir tíkallasími á
borðinu liggur minnisbók ugla
sat á kvisti æ það sem einum getur
dottið í hug nei hikstandi sjálfsalinn
er varla rétti stíllinn röddin sem
hrópar upp kjúkling slæmur
bakgrunnur ekkert mál það má
eiga leið framhjá hringja bjöllu
dingla hvað ef hnappur við útidyr
leiðir hugann að takkanum sem startar
atómstríði þá er að velja gömlu aðferðina
banka knýja dyra bánk bánk nei kemur
þá ekki bara frelsari í gættina
hæ það sem einum getur dottið í hug
æ það sem einum getur dottið í hug

 

 

síðbúin doris day

                                  I certainly wouldn’t want to join
                                 any organization that would be willing
                                 to have me as a member.
                                                                                 Marx

spegill spegill er ekkert inní músík
samt fullur efasemda vegna tónleikanna
della: hún snýr út úr
skellir eftir sér hurðinni.
og tiplar hvellum hlátri
niður stíginn að hlutlausum taxa

nei kannski bjóðast engin tækifæri úr þessu
þá verður í öllu falli huggun
að hvarvetna leiðir miðlungsfólkið sönginn

síst gerir betra ein frábitin heima
ævinlega skal ákveðin elska í bakröddunum
hafa merkilegri tón en stjarnan

spegill spegill er ekkert inní músík

 

 

sveitafólk

ein
hleypur
með áttavita í hendi

gæti fundið rétta sporið
gæti líka ýmislegt
fyrir
hitt
í þreifandi diskótekinu

einhleypur
í villu
grunlaus um sæluhús
bunulækirnir renna uppímóti

 

 

reykjavík by night

ástin mín í hitasvækjunni
ó veittu mér straum
þú sem hefur innstunguna

veittu mér straum
og þér mun standa opið
frystihólf í brjósti mínu

hér í mo—mo—mollunni
úldna spakmæli á vörum
leggur rotnunardaun af samræðum

veittu mér straum
trúðu mér fyrir orðum þínum
safaríkum ástarorðum

ég varðveiti þau í hjartanu
ég varðveiti þau í frystihólfinu

 

 

úrmangari

kondu úr
kondu elsku úrið mitt
hreyfðu sundur vísana

kondu úr
leyfðu mér að trekkja þig
það trekkir svo að trekkja

kondu úr
kondu elsku úrið mitt
vertu tíu í tvö
vertu kortér í þrjú

 

 

rauðanótt másarans

ekki skella á, ekki
halda að nú ætli ég að stynja upp einhverjum ljóðhrokanum
ekki halda að nú vilji enn einn narkissos mæta á staðinn
til að spegla sig í augum þínum
fjallavötnunum — nei
olíubrákin á þessum pollum þínum er staðreynd og
ekkert við því að segja
aðrir mega hneykslast
aðrir mega rífa úr sér glyrnurnar
gera þindarlausan móral nostalgíunnar að blindrahundi
en mig heillar litrófið
og mér geðjast að sífelldum hamförum þínum

trúðu mér
barbamama
ég vil finna þig undir spottinu á broadway
ég vil finna þig undir borðum í velferðarríkinu
vil finna þig undir fjögur
undir fjögur hvarflandi augu
finna þig
ofurseldur eigin yfirburðum, já
hlustaðu á þennan sæla farísea
þráhyggja píslarvottanna höfðar ekki til mín
ég nam aldrei latínu mýrisnípunnar
sýni þó umburðarlyndi
lesi ég kveðskap grasafræðinganna í tímaritinu
en ég er óviti
varla farinn að spá
í arfinn
bogart í casablanca
er minn skarphéðinn í brennunni
og mínir jónasar fóru á grasafjall í mexico

trúðu mér
barbamama
engan veginn geng ég sem fyrirmynd í barnabók
kennsluhæf fyrirmynd með séríslenska spurn á vör
og raunsæja vanmáttarkennd pedagóga á bakinu
ég er fjölþjóðlegur óviti
veikur fyrir brellum
held að með réttum stíl
geti jafnvel stelpan sem kynnir sjónvarpsdagskrána
öðlast líf fyrir neðan mitti, veit
að siðferðið er annað
veit að lífeyrissjóður vanans er gjaldþrota
og hlustaðu nú
hlustaðu nú á þinn fjölþjóðlega óvita
leggðu frá þér hjemmet
leggðu frá þér familie journalen
og kondu
barbamama kondu

ekki, nei ekki
segja að ég þræti fyrir hlutdeild
ekki segja að ég þræti fyrir ábyrgð
á friðsamlegri sambúð
og vandanum samfara
þú veist að ég hef enga afsökun
þú veist að ég hef enga fjarvistarsönnun
veist að ég er ekki svo heppinn að vera kona
og hafa aldrei viljað stríð
svona er lífið
barbamama, svona
er ég og talandi um hlutdeild
auðvitað nenni ég ekki að hlaupa til
þótt heimalningurinn freisti útgöngu
komplexinn helgi njálsson
dulbúinn sem ungfrú svíþjóð
ég þegi
fylgist með ævintýrunum
þau gera alltaf lukku

enn vilja prinsarnir reyna fyrir sér sem svínahirðar
þeir vappa um þinghúsið
í einlægri leit að kjölsvíni þjóðarskútunnar

trúðu mér
barbamama
ég er fjölþjóðlegur óviti
og MÉR
langar í eitthvað annað

ekki hika, ekki
alltaf spyrja hvaða augum ég líti silfrið
hégómlegt vandamálasilfrið
barbapapa í byltingunni er augasteinninn minn
barbapapa í blaðamennskunni er augasteinninn minn
barbapapa í borgarstjórninni er augasteinninn minn
og hættu svo að spyrja
og hættu svo að draga mig í efa
ég er fullur af lifandi mótsögnum

trúðu mér, barbamama
ljóðið mitt er síst að öllu ljóð
það er tærasti sultardropinn í ár
það leggur sitt af mörkum við að hola steininn

ekki, nei ekki leika
ekki leika strandarkirkju þegar svona stendur á
ekki pressa útúr mér loforð
kraftaverk eða ekki
barbamama ég bíð
ég bíð þess sem koma skal, ég
bíð og bráðum klárast sígaretturnar

trúðu mér
barbamama
bráðum klárast hún líka
þolinmæðin …

 

 

bæn í umsetnu húsi

óvart hefur einhver læst að utanverðu
engan grunar í hvaða ástandi þú ert staddur
hvað áttu að gera hér?
syngja
eða snúa þér upp í horn og breiða óttann yfir höfuð?

þögnin lýsir upp herbergið: ekkert

úr bókinni manstu plottið
veist að ástleitin illskan sleppur innfyrir

til orða skalt þú aftur hverfa
vinur
einverunnar

sama
hvaða veruleiki verður kistulagður í þér
með tíð og tíma iðar allt af lífi

komi
komi komi
komi nótt
komi morðingi
komi góður morðingi og nótt
komi komi, kom

 

 

milliþinganefndin skilar áliti

ég vaki mig dreymir
þig dómkirkja
ég er drukkinn og læst vera drukkinn
ég er ungur og ær af elli
er á sunnan
og meðan þú spyrð mig einskis veit ég allt

ég heyri þig hvísla
þessi angist var ekki þín
þessi angist var engin angist

nei, þetta var ljóð mitt
og þetta er mín játning

ef ekki væri ísland ættirðu ást mína ein

hér færðu tíu hnébeygjur
hér færðu allar mínar ónotuðu bolvindur

hlauptu dómkirkja hlauptu

módernísk nóttin hinkrar í rigningunni
götur borgarinnar bíða þín hálar

 

 

tíðasöngur

segðu mér ekki frá ljóta
andarunganum í kvöld
engin dæmi um þann sem finnur
sig-sér-sín
ekkert snakk um eðli, takk
ekki í kvöld

heilög marilyn
ég hef leitað, hef
leitað og ekki fundið sjálfan mig

og líka ég er þreyttur á að vorkenna sjálfum mér
og ekki heldur ég nenni að spyrja hver ég sé
né hvað ég eigi að vera

annan rúnt, annan
áfram, annan
það gæti verið séns

en það er alltaf of seint
og það er alltaf of snemma
og allt er allt er fjarverandi

heilög marilyn
gef mér að drekka
ég er ekki þyrstur

nú er komið að mér
ég er sannarlega ekki ábyrgur orða minna

en ég trúi á orðið, marilyn
allra kvikinda líki
trúi

heilög marilyn
hvað er einnmeyjarsonur hjá mér
barni þínu
barni óbyrjunnar

mun ég
eða mun ég ekki frelsa heiminn

heilög marilyn
ég er áhorfandi
ég breyti heiminum og breyti

breyti selskapsdömunni í norn, ó marilyn

inni er úti
kroppurinn er sálin
og ég á ekkert nema minn græna vilja

ég hef leitað, hef
leitað og ekki fundið sjálfan mig
nú er að skapa úr engu

marilyn
fáðu mér maskarann, marilyn

 

 

arbeit macht frei (3)

 

i. góðkunningi

enn á ný ertu staðinn að lífi, kjáninn
með sönnunargagnið innan klæða
innan holds
ekkert þurfa menn samt að óttast:
enn á ný er krafist útúrsnúninga

ii. vínarkvöld

spennandi dansleikur. segðu
á tólfslagi
taka þau svipina niður

iii. torgseti

og sjá: það hleypur
úr einum banka í annan
það hleypur
það hleypur
úr einu ráðuneyti í annað
það hleypur
hleypur
úr einni skoðun í aðra
hleypur
og sjá: það hleypur

iv. einmuna tíð

ekki rignir, ekki
rignir peningum í dag
ekki rignir peningum
og rignir ekki í dag
rignir ekki, rignir
ekki peningum í dag

v. sálmur í vesturbænum

englarnir vaka ennþá frameftir
úrþví óvissan bara magnast vaka þeir
það máttu bóka
með geislabauga undir augum vaka englarnir
pabbi á fjarstýringunni, pabbi
alltaf á fjarstýringunni

vi. uppgötvun á þjóðskjalasafninu

sem ég
er lifandi:
það réði
til sín fyrstu
persónu
fleirtölu
það réði til sín böðulinn Við

vii. gamalt viðlag

gekk yfir sjó og land
gekk yfir gamlan mann
ég á heima á rugglandi
rugglandi
ruglandi
ég á heima á rugglandi
ruglandinu góða

viii. erfisdrykkja

gengur hún þá ekki tinandi milli
borða og heilsar slektinu:
mamma gamla Ísland sem börnin hugðust syrgja

ix. kóngamóðir

hittu mig, elska
í heimskunni
gefist þér gefist þér tóm

x. tvær kviður fornar

sorrí leiðangursmenn
ef, hefði, mundi og ég?
amundsen náði suðurskautinu
amundsen náði meyjarskautinu
og víst er ég víst er ég skott
rófa, stertur, dindill, hali, stýri…

xi. pústað út á eigninni sjálfri

skál fyrir húseiganda
á eigninni sjálfri, skál
skál fyrir vorinu, bílskúrnum
og púströrinu, skál
skál fyrir framkvæmdamanni
fyrir húseiganda, skál

xii. orð dagsins

og ef drottinn gleymir teningunum heima
tekur ekkert okkar ákvörðun í staðinn

xiii. húskveðja

engin rauðvínshöll
þessi skrokkur
þetta hæli
þó vöktu hér sumir frameftir
hér fékk maður inni
fyrir órana
hér stóð fávitahæli
hér stóð hús handa sjúkum

—-

FYRSTI ÞÁTTUR

TOLLARI LEITAR MERKINGAR

 

Íslands minni

eftir dúk og disk [svo] kemur heiðursgesturinn
– kemur vorið
með alla sína heimtufrekju 

 

 

Drög að aldamótaljóði

sigur handboltalandsliðsins á útivelli
bókmenntaverðlaun nóbels
og heilög rigningin á þingvöllum

bandaríkjaforseti í göngutúr án öryggisvarða
íslenska lagið á breska vinsældalistanum
og heilög rigningin á þingvöllum

útlendingurinn sem lét myrða sig í þjóðgarðinum
lömbin á vorin, ó lömbin
og heilög rigningin á þingvöllum

 

 

ávarp til eftirlifandi

á eftir þessari setningu kemur.

engar athugasemdir um það hvort
.inn tilheyri setningunni eða ekki

og sakið mig ekki um
ósamkvæmni, myndugleikinn
skapar einkum mótsagnir komma
óttinn við óttann spámenn
sem aldrei koma því einstaka í orð

og ég en ekki ég heldur ég
mun enn einu sinni sýna í verki
að það má taka mark á orðum mínum
það kemur fram sem ég segi og skrifa

á eftir þessari setningu kemur annar. 

 

 

fjórða grafhýsi leníns: vígsluljóð

og hví skyldi maður yrkja um aðrar?

ég fer að dæmi hinna strákanna, líki
brjóstum þínum við líparítfjöll
eða rauðhóla en aldrei loðnar þúfur

og skapahárin skulu vera
birkikjarr, nei
skjólbelti (það stuðlar) kringum akur

síðan sái ég osfrv.

en í miðju sáðlátinu
ákalla ég föðurland
mitt ó mamma

 

 

aldarhvöt

 

brennið
þið

we’ll be back to you with more after this
message: Ljóð þetta má eigi flytja með
neinum hætti, svo sem utanbókar
lærdóm í barnaskóla, ástarjátningu
á bjórkrá, eggjun við jarðarför, eða
á annan sambærilegan hátt, að
hluta til eða í heild, án skriflegs
leyfis höfundar (Anton Helgi Jónsson)
og útgefanda. Óheimilt er einnig að
túlka ljóðið á nokkurt þann hátt
sem brýtur í bága við ætlun
höfundar (Anton Helgi Jónsson)
og komi viðurlög fyrir.
Lesandi sem í ógáti hefur rennt
augum yfir ljóðið án þess að hafa
greitt fyrir eintak sendi kr. 50
til Rithöfundasjóðs Íslands
Hvefisgötu 5, 101 Reykjvík, ICELAND
— munkar

 

 
 
 

fossaniður

 

 því reynslusagan í barnablaðinu heitir trúlega hundur bjargar manni sem er auðvitað ágætis heilræði og eflaust birta þau dönsku ennþá storkinn sem kemur með krakka í bleyju nema það sé efnabomba núna svo þá er skárri þessi foss sem minnir á þann ég sá í gærkvöldi þegar dagskránni lauk og ég hugsaði náttúran væri ágætis hugmynd en verður fossinn áfram foss í klakaböndum þótt auðvitað megi spyrja hvað sé fyndið við vatnsfall sem fyllir út í sjónvarpsskerm og streymir þaðan út á stofugólf ungra hjóna í innlendu blaði sem liggur frammi hér á lækna-miðstöðinni nei ég heiti ekki halldór ég heiti anton ég

 

 alþing í nýjum ljóðahætti

 bandvanur draumur og

tannburstarnir gjóta
dansandi kenningum

sem þokurnar ræða

en broddgöltur gleymir

sér við afstæð andvörp

meyrar sekúndur
sárfætt ský

andstuttur sigur

brunnin þögn
einn rennandi draumur og

 þing

hús
flugunnar

 

 Tvö tækifærisljóð

 

1. Afmælisdiktur til HKL

 bækur jón að réttum telja

uppteknir
reykdalín

 íslenskar

skýra uppúr
menn
aðra rifja
hér útirauðsmýri snemma
upphátt mikill

 

2. Bréf til Láru

blóðmörskeppur ritlist ég forklárast
titrandi innblæstri lyftingu
ljómar átölur raust umturnunar

blásteinslegi réttlætisins ég frammi
til illa lambsins
loks ánægt ræður umbótamannsins

blessun ríð ég fyrir
tvíhendi innanmeini leiðinlegur
leiðslu á rómantískri undir

 

Ættargripur

þú
hvernig
hvernig þú
æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ hvernig þú getur
æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ hvernig þú getur látið
æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ hvernig þú getur
hvernig þú
hvernig
þú

 

Njósnari í þykjustunni

( Á þessari blaðsíðu gæti frómum lesara vitrast ljóðið Njósnari í þykjustunni. Ef að líkum lætur er það skráð með ósýnilegri skrift og verður lífsreynsla hverjum þeim sem í góðri trú rennir volgu straujárni yfir síðuna. En þeir sem afneita skáldskapnum og æskja fremur hinnar meintu orðsendingar skyldu varast að láta heit augu hvíla of lengi við pappír og snúinn bókstaf. ahj. apríl ’86 )

 

Þrjú frumort ljóð úr ófullgerðu skáldverki

 1. fráhvarfseinkenni í forstofuherbergi

þú elskar mig í annarri persónu
ég reifst
ég fór
frá

þér og hafði ekkert með mér suður
nema orðið drusla
en í sjöundu línu hef ég fyrirgefið allt

og ana beint út á stóra játningabrettið, segðu allt
                                                        nema nema amen amen
                                                  hví
                                            hika
                                         ég
                                       æ
                                   ég
                          verð
                 smár
          svo
smár

annað hvort hringi

ég eða

 2. rauðu ástarsögurnar

 ég

virði hlátur þinn en leyfðu
mér samt að útskýra
málið frá sjónarhorni mínu

þú

 

hús í borginni

látum standa opið út á svalir
enn um stund
gardínan bærist sjáðu myndarinnar vegna

það var betra, kondu
hingað yfir í sófann

handköld, frá og undir-
förul þei: flugvöllurinn

lítil rella æfir aðflug í logninu
núna skefur skefur skefur

ég geng frá ljóðinu til prentunar

ég veit hvorki út né inn í þennan heim

ég man eitthvert hrafl úr epískum kossum hennar

búið

 

Hugsandi munnur

 Hér stendur

orð.
Dregur nokkur spekina í efa?

Er ég
í
orðinu? Er
ég
orðið?

Vei, ó vei.

Hlustið, helgar
kýr og rollur
takið nótis af eftirfarandi:

Reynið hvorki að finna skáldið
bakvið orðið né manninn
bakvið skáldið í þessum línum.

Rödd úr salnum: En konuna þá?

 

elskhuginn

taktu þér ferð á hendur
kondu, sjáðu með
eigin augum
hversu búsældarlegt er um að litast
í hjarta mínu [les: ríki þínu]

kondu, katrín

mín önnur
sjáðu með eigin augum

 

úr Bréfi til ungra skálda

svarið aldrei með Halló
Já eða þess
háttar, svarið
ætíð
þannig að sá er hringir viti
samstundis hvort
hann hafi fengið rétt
sam

(Etv. mætti gera meira
úr hugmyndinni:
þetta er sjálfvirkur ljóðsvari.
Skáldið er ekki við í textanum.)

         bandsrof látið
ætíð þann er hringt hefur hringja
upp
aftur

 

Sjálfsmynd I

hæpur. loðsilungur. gol-
mögóttur. óhæfi. raftur.
flétta. hjá. sókn. fingur-
bjargarblóm.

 

Sjálfsmynd II

Ég hugðist yrkja ljóð; lokaði
augunum og blaðaði um stund í orðabók
Menningarsjóðs. þegar minnst varði
sló ég vísifingri hægri handar niður
á eina síðuna, opnaði augun og
aðgætti hvort nokkur læsi yfir öxl mér.
Engan sá ég og ákvað því að orðið
sem fingurinn benti á væri skáldinu ætlað.
Ég punktaði það hjá mér. Hélt svo áfram
þar sem frá var horfið. Níu sinnum
lét ég andann koma yfir mig. Níu orð
punktaði ég niður. Síðan las ég í gegnum
handritið og gaf verkinu nafn.

 

stand in

(skáldið flutti
ljóðið

yfir á næstu síðu
og skrapp á klóið

merkingin ein
bíður)

 

frinn frinn

frinn frinn um eilífð frinn
hvernig get ég skilið
frinn frinn um eilífð frinn

herbergið er óbreytt í myrkrinu
inní mér virtist ekkert týnt
hljóðin úr mér hin sömu og í morgun

svo kveiki ég ljósið og gríp í tómt: frinn frinn

illir vinirnir eru mér góðir
illir vinirnir vilju mér hjúlpo
enginn kemur þó í þinn stöð

illt er breytt
forgefins inni ég eftir merkingu

skynsemin segir: reyndu nýtt stufróf
lúttu þér lyndo nýtt stufróf
kondu reglu ú nýtt stufróf

frinn frinn um eilífð frinn
hvernig get ég skilið
frinn frinn um eilífð frinn

 

óbirt ljóð eftir ezra pound

óbirt ljóð eftir ezra pound
það yrði viðburður: ungur
íslendingur í miðilssambandi
við erkibiskup atómskálda

ég lofa engu
leyni engu
renndu samt yfir mig augum

í dagblaðinu væri ég frétt
á ljósastaurnum auglýsing
ég er textinn hér á síðunni: lesandi
nær sambandi við ungan íslending

skáld!

ungan íslending, skáld
dulspeki yðar er einkar athyglisverð
hvað álítið þér um hugsun
fyrir og eftir orðin? nú, spörningin er einföld
þú skrefar þeg í heiminn
og högsar: svo þetta er þá þessi ég sem allir eru að tala um
síðan mætti nefna guðdóm og túsund ára ríki orða
bara nokkur varnaðarorð: ykkur
ber að geta ábyrgðarmanns
einhverjum gæti dottið í hug að höfða mál

ég er textinn hér á síðunni
farðu gleymdu kondu
aldrei aftur
flettu

 

skreiðarlest

(eftir Hugo Ball; lauslega þýtt og staðfært)

jolifanto bambla ó falli bambla
grossgiga mpfa habla horem
egiga goramen
higo blojko russula huju
hollaka hollala
anlogo bung
blago bung blago bung
bosso fataka
uí uíuí uí
sjampa vulla vussa olobo
hei tatta gorem
esjíke súnbada
vulubu ssubudu uluvu ssubudu
tunba ba-umf
kusa gáma
ba-umf

FYRSTI ÞÁTTUR

SÉRLEYFISHAFI TREGAR

 

Helgidagar

Í gluggakistunni liggur upplitaður eldspýtustokkur.
Ég væti tvíböku í heitu kaffi.
Vonandi rignir hann ekki allan mánuðinn.

Gömlu vikublöðin verða betri með hverju sumri.
Óperusöngkonan er rík
en ánægð og Danir
hafa loksins
fundið handritið að þýðingu
H.C. Andersen á La Nouvelle Justine.

Afhverju fæddist ég ekki í Kaliforníu?
þakið væri löngu málað og klárt.

Og kannski hefði ég þá orðið forseti Bandaríkjanna.
Á Íslandi eru fyrirheitin önnur:
Bróðir þinn gæti þekkt mann sem þekkir ráðherra.

Velgengnin er hvergi glæpur nema hér.
Heildsalann kann ég bráðum utanað.

Ég ætti að skaffa nýrri blöð í bústaðinn.
Lesa um fjársvikin.
þegar rignir jafnast ekkert á við fjársvik.

 

Samband óskast

Liðlega þrítugt skáld
óskar eftir sambandi við
lesanda sem skilur
einkalega reynslu.
Börnin engin hindrun.

Þeir sem hafa áhuga rétti upp hönd.

 

Svissneska úrið

Hann álpaðist einn inná óupplýsta
tungu sem hvorki
svaraði orðalista
fararstjórans né ensku.

En sjálfur skildi hann að pilturinn
bauð honum svissneskt úr
ósvikið og ekta svissneskt úr á slikk.

Það hefði ekki enst mér upp á hótel.

þegar hann fór út fyrir efnið
árið sem ég sat eftir
var niðurstaðan hin sama og eflaust
heyrðu seinni árgangar söguna óbreytta.

Síðar gerðist ég hagvanur á kennarastofunni.
Og viti menn: Svissneska úrið er vorboði ljúfi.

Péturskirkjan, Colosseum, Via del Corso?
Engu okkar gagnar að spyrja
ferðalanginn til vegar:
Álengdar stendur yngismaður
með opið niður á bringu og býður svissneskt úrið.

 

sunnudagsfeðgar

dugar öskjuhlíðin sem ísland
og náttúra? ég spyr. sjáðu
fuglinn, segi ég upphátt við drenginn

sem lítur á mig með hvað? á vör.

gláptu ekki hingað, þú ert
barn og enginn hvolpur
átt hvorki að vakta puttann
né kvíslgreina stöðugt
vísifingursorðin.

það er lóa, manstu
í vísnabókinni, lóa!

og lóan hún söng dirrindí
hjá skáldinu, en sumir
hallast að öfugum tvílið.

margur daninn gisti hér lengi
án þess að læra íslensku
og um kjörlendi kana þarf ég ekki að fjölyrða.

spurðu því ekki hvaðan
þessi sumargestur komi eða hverjir
fyllist heimþrá
þegar hann syngur.

við getum hampað bæði vísnabók og tungu
eignað okkur hlíð og söng og fugl.

 

Bastarður

Fisksalinn vefur dagblaði utanum ýsuna. Friðrik Nietzsche hét þýskur heimspekingur. Í kaffitímanum skiptast piltarnir á bitaboxum. Tré-klossunum var ætlað að minna þráin og Sæunni á sumaleyfi þeirra í Hollandi. Óviðkomandi bannaður aðgangur. Ef skólastjórinn hefði mælt með mér væri ég orðinn yfirkennari. Sestu ekki í sinnepstólinn. Hefndin hvolfdist yfir kerskna ættingjana. Játaðu glæpinn svo engan fari að gruna þig. Ég er boðflennkan á skáldabekknum, sagði eyfirski hagyrðingurinn. Í hvaða setningu er ég staddur? Enn vill illgresið heita hveiti. þjónustustúlkan brigslar ungum Norðmanni um óheiðarleika.

 

Ráðstefnumaður

Hvar liggur silfur
Egils grafið?
Í sögu?
Í ljóði? Í logandi mel?

Engin flugleið
er nógu löng fyrir stóru málin.

Þökk sé fyrir koníak
og kjaftforan
sessunaut sem kímir:

Hreinskilinn geng ég að hliði
með orð
mín og eðaldrauma.

 

Einn á hvítum

Sumar í garði og sumar
í kjól, til dæmis
ein ljóshærð
sem kælir
tærnar við gosbrunn.

Sú skal vera prinsessan mín í álögum.

Hún skellir uppúr.
Hvers vegna?
Hvers vegna ekki?

Í mínum skáldskap er leyfilegt að hlæja.
Við hlæjum bæði:
Við tvímennum heim á íspinna mínum.

 

Í Kaupmannahöfn

Þegar ég kem til Kaupmannahafnar
horfi ég á þökin.
þau eru fyrir löngu orðin græn.

Heima voru þökin líka græn.
En þá voru þessi ný.

Koparþök eða þekjur. Hver hefur sína
sérvisku. Nema allt sé háð duttlungum
og tísku í kortagerð.

Hjá sendiherra tala menn fjálglega um Evrópu.
Sumir minna þó á þýska varnarliðið
og traffíkina við landamæri Póllands
í september ’39.
Guði sé lof fyrir hernám Breta
Kanann og Flugstöðina.

En eitthvað hefur gerst: Mér er sagt að ég
lifi sögulega tíma
ekki síður en skáldið
sem orti um tannlaus orðin
og matjurtarækt Bandaríkjamanna í Japan.

Hvað segja skáld? Hafa líkingarnar
eitthvað að gera í pólitík?

Ef þetta væri ljóðið mitt um ástandið í heiminum
gæti ég látið Palestínumann
róa með sinn hvítbláa út á höfnina. Hnattstaða
einstaklingsins er alltaf jafn hernaðarlega mikilvæg.
En með ástandið í Evrópu og sérhagsmuni
Íslendinga í huga rekst ég
á Hólmfast Guðmundsson
af Vatnsleysustönd í Höfn.

Ég ætla mér ekki í framboð fyrr en á morgun
og þetta er mitt prívat og persónulega ljóð:
Auðvitað spyr Hólmfastur um leiðina til Brussel.

Ég bendi honum á þökin.

 

Langförull

Á hvaða máli galar haninn?
Í svefnrofunum lét hann kunnuglega.
Verst að fá ekki erindið á prenti.

Stúrinn felli ég tjaldið og pakka saman.
Hef á honum gætur.
Áræði loks að nikka til hans á íslensku.

Ekkert svar.

Það var þá sem mig grunaði: Landi
hér í miðri Evrópu.

 

Ný ljóð

1. Skáldmenni í Höfn

Bakpokann og ferðaritvél
geymdi ég í læstu hólfi á brautarstöðinni

hljóp síðan frá mér út í borgina:
Hvar?
Ó hvar svifi þreytt önd skáldsins?

Ha?

Í kjöllurunum
                   fann ég
                              svosem
                                          á mér.

Og þegar ég sneri til baka
hafði annar sett örk í ritvélina.

 

2. Heimarík jól í útlöndum

Maður frá Eritreu
fylgdi vinum af stúdentagarðinum
til okkar Íslendinganna
á aðfangadag jóla.

Í og með urðum við nýstárlega feimin
vinguðumst sisona spyrjandi
og sannreyndum að svartir
geta verið þrúgandi
ekki síður en fatlaðir eða hvítir.

Af blátt áfram hugsunarleysi
var það þó ekki fyrr en við hugðumst
bera grísinn fram að hann reyndist
til allrar hamingju kristinn.

 

3. Moderna museet

Þessar brosandi drottningar eru aðfluttar
enda var ég aldrei varaður við þeim.
Enginn drungi
nei, enginn drungi.

Annað stendur heima
og það getur varla talist til útlanda
þetta helvíti:
sterki bjórinn utan seilingar.

En ungfrú Martinsson er ósvikin
bíður mér á prómenad
kvíðin morgundeginum
vinnunni á sjúkrahúsinu
þar sem hún róar dauðvona gamalmenni
frá níu til fimm.

 

4. Bændaför til Noregs
 

Við brottförina frá Osló
er ég á fleiri áttum.

Andríkur landi
vindur sér að páfanum víðförla
og spyr
um veðrið
heima.
Ó guð vors land. Fyrirgef oss
vorar hugrenningarsyndir.

Vér
munum
knéfalla
í Keflavík.
Og minnast við asfaltið.
Og minnast við asfaltið.

 

5. Fyrsti maí

Nú er búið að segja vetrinum upp
og kröfuspjöldin mættu fá standpínu:
Stelpurnar
liggi berbrjósta
á bekkjunum inni í Laugardal.

Niðri í Lækjargötu
fer gangan alltaf í lakið
og þarmeð stoppa langanirnar.

Sjálfur er ég í ofsa stuði
skipti um sokka í vor
svo ekki ættu gellurnar að setja það fyrir sig.

 

Uppfærsla í plássi

Bekkirnir auðir
í sýningarlok
á leikþætti
mínum: Sá einhverfi
brýtur
saman kort.

Stjarnan ein
blínir eftir kvöldrútunni
út aðalgötu.

Andlit flissandi
telpna límd á rúðu.

 

Saltstólpi í dýragarðinum

Skepnan treður hausnum út
milli rifjanna
og
sleikir hönd mína.

Viðlag:
Ég er vísast kominn til fyrirheitna landsins:
Hér aumka mig jafnvel framandi naut.

 

Heimferð

Um leið og komið er í áfanga
vaknar löngun eftir öðrum.
þetta veit ég.
þú hefur sagt mér það áður.

Ég veit að framrásin verður ekki stöðvuð.
Ég veit að við eigum bókað í framtíðinni.

Raunsæið var aldrei mín sterka hlið.
Ekki bíður ferjan.
Ekki hægjum við á bílnum og snúum til baka.

þetta veit ég allt.

En ég gleymdi að læsa bakdyramegin
get ekki munað hvort ég slökkti á ofninum
minnist þess ekki að hafa skrúfað fyrir kranann
og við hefðum átt, við hefðum átt að negla fyrir glugga.

 

FYRSTI ÞÁTTUR
EFTIRHERMA ÆFIR NÝJA RÖDD

 

Umrenningur

Hægan, hjarta mitt, hægan.
Engan æsing þótt manneskjan bjóði mér gistingu.

Hjarta mitt, hægan.
þú skalt ekki lenda hjá vandalausum.

Sjálfur man ég alla okkar viðskilnaði.
Og færi aldrei án þín, hjarta
mitt, aldrei án þín.

 

1984 VII 4

pukrast a gulnandi matsolustad umber
aleitna feiti eiturhressan kokk stop

elska pig enn og sit hryggbrotinn yfir
kassu flatur lofinn a botn stutfullrar
tomatsosuflosku stop

skamma pig i huganum hlustandi a
upporvandi kokkinn utlista frettirnar
ma pola samanburd vid mannkynid og heyra
ad pvi lanist engu betur stop stop

 

endurfundir

það rignir, manstu
nú rignir þannig


rignir enn

og
árviss boðflennan ágúst-
nóttin mætt
æ
ekki nennum við út

aftur í glasið kannski


hann rignir enn

 

Hetja og vængir

Þú spyrð
um væntingar mínar og óskir
og um það sem er.

Dúfan mín
allt grípur þetta
hvað inn í annað.

En þessa hlekki
leggur maður á sig.

 

sérlega mildur og kraftmikill

ein og önnur græn
baun
í uppþvottavatninu

það er nú það

fer erótíkin í vaskinn með árunum?

heyri ég laxinn stökkva í rödd þinni
eða yrki ég eftir tólf ára hjónaband
á máli félagsvísindadeildar
háskólans?

þú birtist mér í eldhúsinu
klædd gulum hlátri
hvort á ég að líkja þér við dís eða norn?

ég á bara pottana eftir

bíddu mín við fyrsta kossinn
snuðaðu mig ekki um óskirnar
veittu mér ástríður
láttu mig elska hata
og anda að mér holdi þínu, anda

Tvö póstkort

I.

sundhöllin eftir lokun

þráhyggja mín: allt
þetta kyrra vatn, öll
þessi eilífð
og hún

sem kemur úr djúpi
teygir upp hálsinn
eitt augnablik

nefertítí

sundhöllin eftir lokun
hugur minn
allt þetta kyrra vatn

II.

sérleyfishafi tregar

borgirnar aftur á landakortinu

þú í bréfunum

ég að hugsun minni

faðmlag okkar meðal óskilamuna
á umferðarmiðstöð í kannski

 

brúðkaupsafmælið

                  jazz is not dead
                  it just smells funny

                          frank zappa

dansi hvar er blái
kjóllinn, ó hvar?

dansi er í aldrinum
dansi er í ha ha

kondu þá í útsölunni, dansi
ég mun ávallt skilja þig
frá öðrum dansi dansi

ástin er og, ó

stundum eða, dansi
aldrei en, ó dansi

við eigum saman eigum við
dansi, dansi dansi…

 

kvöldljóð

varir varir, komið
varir, verið

varir babba
varir mömmu

komið varir verið
blóm blóm blóm

varir varir, komið
varið

 

FYRSTI ÞÁTTUR

ÞJÓNN FER AÐ DÆMI LJÓÐS OG VEITIR ÁBÓT

Anton Helgi Jónsson:

NÍU LJÓÐ

Dæmisaga að sunnan

Í gær fann ég rétt
eða rangt á stíg við tjörnina.

Ég leit í dagblað en enginn
lýsti eftir réttu
eða röngu og hvergi
var neinum fundarlaunum heitið.

Þar með var draumurinn búinn.
Ég fleygði góssinu óskilgreindu í ruslið.

Það er lítið vit í hálfu pari.
Þar um vitna ég sjálfur
í einstæðingsskapnum og ósætti mínu öllu.

Í dag fann ég annað rétt
eða rangt á stígnum við tjörnina.

 

Eftir ballið

Hér lafi ég þá —
ein og sér í fatageymslu.
Lafi.

Hún sem afgreiðir, blessunin
er þó áfram til staðar og spyr: Hvaða
ástríða, hvaða
hugsjón kom í þessari yfirhöfn?

Engin gefur sig fram.
Engin nálgast og fyllir mig lífi.
Engin ber mig úti í napurri borginni.

 

Morgunljóð óbyrju

Dauðinn ektar okkur allar.
Hvílíkt grín! Við breiðum

úr okkur á púðum og hægindum
í sælu kvennabúri. Við geispum

okkur inní smáerjur eða snakk
og ástríðulaust daður, en kvörtum

þess á milli undan Tíma, geldingnum
sem þó leiðir okkur héðan

út og fram til soldáns.

 

Andaskrift

(Fernando Pessoa)

Skáldið er þessi sem þykist.
Hann þykist svo gjörsamlega
að hann jafnvel þykist þjást
af þjáningu sinni og trega.

Og þeir sem ljóðin hans lesa
við lesturinn kenna það böl
sem hvorki er þjáningaþófið
né þeirra eigin kvöl.

Og áfram skjögrar og skröltir
til skemmtunar höfðinu smarta
upptrekkta leikfangalestin
sem löngum kallast hjarta.

 

Sambrýnda konan

Segjum brúnirnar hennar dökku:
Örninn í uppstreymi ennis.

En hvaða mófugl hefur þá orpið þessum augum?

 

Erfisdrykkja

Gengur hún þá ekki tinandi milli
borða og heilsar slektinu:
Mamma gamla Ísland sem börnin hugðust syrgja.

 

Hulda

 Það er svefnborgarnótt

hvergi ljós í glugga
óratími
síðan þjónninn á tuttugu kom heim.

Mín fer að dæmi allra hinna
hefur slökkt
hefur auga úti.

 

Skip á höfninni

Ávítun fóstru minnar hef ég ekki gleymt:
Aldrei að benda á skip.

Við sáum síldarbátana stíma inn fjörðinn.

Hér sigla önnur fley inná höfn og lygna undrun.
Vináttuheimsókn, ítreka blöðin.
Ég lóna á kajanum og bendi, bendi.

Andóf mitt gegn herveldum…

Blaður kvenna, barnaskapur, hjátrú.
þusar hann sem allt veit betur.

Og strákarnir í heiðursverðinum brosa.

Engan styggja bendingar mínar í dag.
Á morgun: kylfurnar.

 

Samhengið í jólakortum

Öldungurinn reynir að muna samherjana.
Hann fer aftur í gegnum kortin frá síðustu jólum.

Þeir senda sem lifa. Og þeim
skal sent. Hann fær ekki betur
séð en allir hafi skilað sér

allir — og þó gengur aldrei upp
einn bannsettur engill
bréfspjald eitt án undirskriftar.

Öldungurinn reynir að muna samherjana.
Hann fer aftur í gegnum kortin frá síðustu jólum.

––––
Anton Helgi Jónsson fæddist í Hafnarfirði árið 1955. Árið 1979 kvaddi hann sér hljóðs með bókinni Dropi úr síðustu skúr, sem Mál og menning gaf út, en á undanförnum árum hefur Anton birt ljóð sín og ljóðaþýðingar í ýmsum tímaritum.

 

 

FYRSTI ÞÁTTUR

PÓSTURINN RIFJAR UPP NAFN SITT
OG HEIMILISFANG

 

Þorpari

Aftur eru minningarnar breima: Við
lútum báðir yfir telpuna, en einn
heyri ég orðin: þú mátt
ekki mátt
ekki…

og hrópa til unglingsins:
Hættu!
Hrópa héðan frá eldhúsborðinu.

Hann lítur upp, ég lít
upp, úti hvasst og snúra
slæst í hvíta
flaggstöng.

Friðleysið hrekur mig úr húsi.

Ég næ ekki til mín gegnum hvininn og árin.
Heyri ekki til mín gegnum hvininn og árin.

Grannkona hinkrar með rusl hjá tunnu.
Við heilsumst.
En af augnaráðinu sé ég að hún greinir ekki á milli.

Á eyrinni sami gustur af austri.

 

Bláu hanskarnir

Tíminn situr á sér í borðkróknum.
Aftur hefur ráðskonuna dreymt.

Þú kemur inn í gegnum vaskahúsið.
Ekkert viltu þiggja. þú geispar
og hallar þér útaf á bekknum.

Mér finnst sem þú sért með bláa hanska.

Ég sem aldrei nota hanska.
Og bláa. Voru þeir bláir?

Hraðsuðuketillinn rýfur strauminn.
þú erfir ekki bláa hanska.

Tíminn situr á sér í borðkróknum.
Dreymdi þig nokkuð á bekknum?

 

Telefunken

Mamma greinir að nýju frá brunanum.

Hún rankaði við sér í alelda herbergi
og hugsaði: út. Og hljóp. Út. Hljóp.
það eina sem hún fékk með sér, gat
fengið með sér var útvarpstæki, Telefunken.

En hvar var ég, spyr drengurinn hennar.

Þá tekst henni að fela endurminninguna í brosi.
Þú varst ekki fæddur.
Þetta var fyrir þína tíð.

Hún kemur eftir mér inn í logana.
Hún kemur eftir mér inn í logana.

Ég vakna, vakna. Einn. Spyrjandi, einn.

 

Riddarakross

Rómverskur riddari rændi og ruplaði.
Lát manndóm þinn hljóma.
Rómverskur riddari rændi og ruplaði.

Og hetjunni skal búin veisla.
Við sæmum hana landi.
Við sæmum hana þjóð og tungu.

Ég bala vil ekki. þú getur ekki.
Ég bala get ekki. þú vilt ekki.

Með æfingunni öðlast þú kjólfötin.
Enginn mun benda: Útlendingur.
Óðal mitt, óðal þitt.
Segðu: Rómverskur riddari…

Ó, allt sem ég fæ ekki sagt.

 

Nafnagrímur

 
Pósturinn rifjar upp nafn sitt


og heimilisfang.

Skyldi ég vera heima?
Hann lætur jeppann ganga í hlutlausum.
Hann veit að hér var honum aldrei boðið inn.

Lopapeysa, svipur, rómur og nafn.
Allt tilheyrir einkennisbúningnum.

Hann er þó aldrei viss.
mann sem reynist annar
og hermir eftir bændum
sem enginn hefur áður heyrt né séð.

En mest er hlegið þegar ég hermi eftir mér sjálfum.

Aftur kannast pósturinn við nafn sitt á dyrum.

Og eftirherman æfir nýja rödd.

 

Lampaglös og börn

Það gildir að skapa sér fortíð.

Hann sem var ég lærði heiminn utanað:
apríldaginn, garðshliðið, eftirvæntinguna.

Hverju á ég að trúa? Ég ímynda mér
endurminningar, læt orðin muna
sögu og sakna
þeirrar æsku sem þau rekja. Enn
vænti ég þjóðsagnapersónunnar sem aldrei kom.

Hann fixar allt nema lampaglös og börn.

Er þetta gerðin sem ég sagði öðrum áður?
Ég rumska í hálfnaðri setningu.

Ég man að ég minntist
en man ekki hvers.

 

Heimsóknartíminn

Gömlu stefin láta mann aldrei ósnortinn:
Afhverju getur þú
ekki verið eins og hann?

Ég hnupla mér nýjum degi
og í leit minni að glæp
sem hæfi sektinni
vitja ég þín aftur í hinsta sinn.

Ég segi: Svo þú ert þá bara með sjónvarp.
Ég segi: Djöfulli var ég timbraður í gær.
Ég segi: Og hvenær kemurðu heim?

En kannski var það ekkert af þessu
sem olli vonleysi þínu
og óvæntri gremju.
Kannski vissir þú meira en ég.
Kannski leituðu spurningarnar á þig.

Lifi ég í huga hans? Í huga hins?

Sjálfur veit ég ekki
í huga hvers
eða hverra
né hvernig ég lifi.
Gömlu stefin láta mann aldrei ósnortinn.

Einasta huggun mín er minningin um daginn
þegar ég mun koma
inn í stofuna og sjá þig heilan á fótum.

 

Eðli listarinnar

Frásögn konunnar tvístraði ættinni.
Skyndilega hafði birt fyrir augum
hennar og skórnir svifið í loftinu
hægrifótar drengjaskór
vinstrifótar telpnaskór.

Þú málar þetta fyrir mig, góði.

Núna stunda ég önnur jólaboð og gestirnir
spyrja hvað ég ætlist fyrir með list minni.

Áður vildi ég sýna frammá klofstígvél föður míns.
Ég veit ekki lengur hverju skal trúa.

Á kaffistofunni eru mér trakteruð deilumál.
Hvað angraði listamanninn
sem málaði verk af skófatnaði sveitavargsins?

Þar fengum við þó klossa til umhugsunar.

Var kannski annar af honum sjálfum
og hinn af fjarskyldum ættingja
sem óvænt kom í heimsókn?

Til einskis hugleiði ég áferð og eðli listarinnar.
Aldrei tekst mér að eiga síðasta orðið.
En suma daga svífa tvíræðir fætur mínir, svífa.

 

Regnhlífar

Hringdu fyrir mig, bað hún. þér
gerir það ekkert að hringja.

Ég hlífði mér um stund með lærdómi.
Svo mundi ég víti hennar: Ef
barn spennir upp regnhlíf
innandyra
þá missir það móður sína.

Og hvað sem leið öðrum vilja mínum
hringdi ég til konunnar
sem var í sambandi við huldulækninn.

Seinna fréttist af bænheitum rukkara
fyrir norðan og fötluðum
dreng sem þótti góður til áheita.

Allir spenna upp regnhlíf innandyra.
Ekkert dugði á veikindi móður minnar.

Allir spenna upp regnhlíf innandyra.
Sumir hlífa sér með efanum.
Sumir hlífa sér með trúnni.

 

Innihald ljóðsins

Þetta er innihald ljóðsins:
Varir í rauðu.
Prufuþrykk á munnþurrku.

Enn eitt listaverk apans
eða djúpstæð tjáning sálar?

Don’t make me laugh.

Þú sagðist ætla út með stelpunum.
Það var í morgun.
Ég kem efins heim og leita
skilaboða, leita tákna og merkingar.

Hvað veit ég um þessa konu?
Hvað á ég að halda?
Hvaða verk er vert að ramma inn?

 

Niðursetningur

Húðin vill annað en háleitan dauða.
Húðin vill bjartar strokur.
Í dag þigg ég kaffi hjá henni
sem saumar út engil
og viðutan gemling á gamalli brú.

Hún sér í bolla mannlaus orð.
En orðlausan mann og hvekktan sér hún hvergi.

Minnsta blekking verður afglapanum örvun.

Náttlangt hefur ugla rökstutt hugsanlegt hrun.
Ég skil ekki fræðin, ég fresta vitinu, fresta.

Og í dag mun ég ekki stúdera göfuga bölsýni.
Ég vil ekki þroskast.
Í dag er ég þreyttur á raunsæju fólki með reynslu.

Ég sauma mig út í ódýran stramma og einföld orð.
Morgunstund. Hnotskógur. Áfangi. Von.

Minnsta blekking verður afglapanum engill.

 

—-

FYRSTI ÞÁTTUR

DRAUMFARIR ÚTFARARSTJÓRANS

 

Aðfaranótt

Og aftur er sírena hljóðnuð. Og aftur
borg. Og nótt. Púlsinn
blár og hraður slær á andlitum vitna.

Það var gengið um forstofudyrnar. En það
var ekki gengið um forstofudyrnar.

Hann hlustar, hlustar. Hann bíður

í kólnandi vatni. Ég
einn hef lykil núna. Var
hlaupið upp? Var hlaupið niður
stigann?

En einn ertu
aldrei einn
ert marg-
einn, aldrei
samur, aldrei.
Nú vitjar þín annar.
Með fregnir að utan?
Með fregnir að innan?
þú
vitjar þín annar.

Og þú vitjaðir þeirrar sem ennþá lifði. Já manstu?
Hún bauð þér til stofu
og fann hvergi handa þér sæti.
það er gestkvæmt hjá ykkur, þeim skyggnu.
þú brostir.
En vissir þó ekki í hvorn
heiminn þú áttir að stíga.

Ó allt þetta fólk og allir þessir heimar.
Ó allt þetta fólk.

Og allt þetta fólk sem þekkti áður óðamála
læki og hláturmild tungl. það
man síst þrálát regnský og
sérvitran gust. þú hlust-
ar en minnist sjálfur elliáranna
lítur fram til bernskunnar, lætur
ósinn
finna sér nýja uppsprettu.
Meðan kolgrænn logi stígur burt frá reyknum.

Burt.
þú vilt burt. En hvaðan?
Og hvurt? Er spurt.

Staðir vegprestarnir benda eitthvert framávið. Nú
er að bíta á jaxl og velktar tuggur:
Það liggur engin leið til baka.
Það liggur engin leið til baka.
Þá veistu allt; þarft ekkert að misskilja lengur.

Þú bíður, þú hlustar. Og vatnið er kólnað, kólnað.
Það var gengið um forstofudyrnar. Þú fylgir
þér sjálfum. Þú vitjar þín enn með fregnir.

Og aftur er sírena hljóðnuð. Og aftur
borg. Og nótt. Púlsinn
blár og hraður slær á andlitum vitna. En þig
og heima þína dagar uppi í ljóði.

 

Pin It on Pinterest

Share This