Ferðalög um landið og lífið

Hekla
 
Óvanur útsýni til heimsfrægra fjalla
renni ég augum til Heklu
hinnar skapmiklu samlöndu minnar.
 
Ég kem á bæ en bóndi er að heiman
þotinn eftir hjálp við brotið drifskaft.
Ég snakka við húsfreyju um votviðri og sprettu
hún sendir yngsta krakkann með skræling í hænsnin.
 
Á hlaðinu núllar áttræður afinn
Mjólkurbílstjórinn lýgur í hann fréttum.
Niður heimkeyrsluna hugsa ég um fjallið
Brysti það þolinmæði hyldust túnin ösku
á löngum morgni.
 
Ég yrði fjarri en þættist heyja vel
í viðburðahlöðu mína. 
 
 
 
Á Skeiðarársandi
 
Kvæði barnaskólans þoldi ég verst;
ónæmur fyrir skáldskap af utanbókarromsum.
Leit hornaugum þetta rómaða ættland
sem ekki varð séð úr kjallaraglugga.
 
En líka ég fer Hringinn nú í ár.
 
Og augun drekka sig full
af níutíuogsex pósent fegurð.
 
Samt efa ég að aki þessa leið
fólk er dreymi jötuninn í núpnum
samræður eigi við blóm eða steina.
 
Bryrnar tengja þjóðleið milli söluskála
og smábílar flæða yfir sandana.
Börnin dotta í aftursætum
uns kemur að straumþungu kóki.    
 
 
Dettifoss
 
Þú dettur ennþá Dettifoss
laminn niður af sálarlausu fljóti
bíður færis að rísa upp á háspennumöstrin
og flýja til byggða.
 
Ógæfulegur ertu
myndavélin drepur tittlinga við að sjá þig.
Mig snertu önnur vatnsföll dýpra
lekur krani
draup mér fyrrum andvökum.
 
Ég skoða víðfræg fjöll og ástsæla fossa
en hugsunin rennur í farvegi upprunans
borgariðunnar
og fuglunum læt ég það eftir
að yrkja lofsöngva utan vegar.
 
 
Ísafjörður
 
Fjöllin verka ýmist á mig líkt og greip
reiðubúin til að hremma eyrina
eða lófi sem skýlir flöktandi kveik.
 
Enn standa lífsreynd hús
frá kaupmennskutíð í Neðsta og Efsta.
Marga sáu þau rata í sálarháska
áður en breiðir menntavegir komu til.
 
Ég heyri sögur um kröftugt alþýðufólk;
erfiði þess hlóð undir skólana
þar sem nöfn höfðingja eru varðveitt
og tímar átaka ætíð liðnir.
 
Afkomendurnir kannast síður við þrengingar
snúa baráttusöngnum
í róman með farsælum endi. 
 
 
Óvænt kvöldvaka
 
Undir miðnætti logar á kerti 
utan við tjald í Hrafnkelsdal.
 
Allir viðstaddir bíða átekta
himinninn
dalurinn
þú
og ég.
 
Aldrei að vita  
nema kyrrðin
hafi eitthvað að segja.
 
 
Áleiðis
 
Framundan melur
og heiðló á þúfu.
Að baki sýndur urriði 
í tærum hyl.
 
Á vinstri hönd fífan. 
Til hægri ekkert
nema víðáttan 
sjálf.
 
Uppi blámi og þytur 
hrossagauks. Undir
flóinn sem dúar
við hvert okkar skref.
 
Við reynum að ná áttum. Eitthvað 
framundan. Eitthvað að baki. 
Til vinstri. Til hægri. Uppi. Undir.
 
Hægt, hægt 
færist miðja alheimsins úr stað. 
 
Hún færist úr stað með okkur 
sem kunnum að stíga hamingjuspor
svo lengi sem við höldum áfram
án viðstöðu, án afláts 
á dýjamosanum 
án 
afláts.
 
 
Lágnætti
 
 
Hér í lundinum
fer allt loft úr krefjandi vindum.
 
Mín vegna 
mætti eilífðin helga sér þennan stað.
 
Enginn amast við náttfiðrildi 
eins og mér.
 
Puntstráin veita mér selskap
en spyrja einskis.
 
 
 
 
Í skriðunni
 
 
Ég renn til í hverju skrefi, renn.
 
Ég sem ætlaði mér bara að stunda göngur
stunda nú hreinar ógöngur.
 
Ég renn til í hverju skrefi, renn.
 
Og allar þessar ógöngur
allar mínar ógöngur
tókst mér að velja án hjálpar annarra. 
 
Ég renn til í hverju skrefi.
 
Renn.
 
Renn til í hverju skrefi, renn.
 
 
 
Aflraunir
 
 
Þeir heita gáfulegum nöfnum;
Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur.
Það er samt ekkert vit í þessu grjóti
þessum hnullungum, þessum steinum.
 
Steinn gerir afar fá mistök.
Steinn skiptir sjaldan um skoðun.
Steinn lendir aldrei í mótsögn við sjálfan sig.
 
Ég er heill og óskiptur, tuldrar steinninn.
Annars segir hann ekki margt að fyrra bragði.
 
Ef þú vilt berja hausnum við stein
og reyna að lyfta honum upp
má vera að heyrist spurt:
Hvað heldurðu að þú getir?
 
Aldrei spyr neinn óvænt: Í hverju liggur þungi?
Aldrei hugsar neinn í alvöru: Í hverju liggur styrkur?
 
Viltu þá reyna að lyfta þessum hnullungum á stall?
Eða ganga burt
með sæmd?
 
Það kemur enginn viti fyrir grjótið.
 
 
 
 
Vorganga í Dölum
 
 
Held jafnvægi á öðrum fæti
 
og stíg 
 
hinum
 
með fullum þunga 
á mis 
vel skorðaða
steinana
 
helgarnar í lífi mínu
sem standa uppúr ánni.
 
 
 
Samræður við fjall
 
 
 
Hvernig á að hefja samræður við fjall
sem maður hefur aldrei áður hitt?
 
Ekki talar maður um þungar áhyggjur 
og þær byrðar sem á manni hvíla 
við fjall sem hefur haft á sér heilan ísaldarjökul um aldir.
 
Góðan daginn. 
 
Hvað svo?
Hvað heitir þetta fjall?
Hvaða fjall er þetta eiginlega?
 
Þeir sem búa í dalnum hérna megin kunna eitt nafn. 
Þeir sem búa handan fjallsins kunna annað.
Þeir sem lásu ritvillu af korti kunna það þriðja.
 
 
 
Á Þingvöllum
 
 
 
Ég veit nákvæmlega hvar Ásgrímur stóð
þegar hann málaði Ármannsfellið.
 
Málaði hann ekki Ármannsfellið?
 
Einhver málaði Ármannsfellið.
 
Einhver stóð nákvæmlega hérna.
Ef ekki Ásgrímur 
og ef ekki Kjarval
þá stóð hérna amerískur kvikmyndaleikari, nei
stóð hérna heimsfrægur gítarleikari, nei 
stóð hérna japanskur ferðamaður
og tók mynd af fjallinu.
 
Ég stend í sporum hans.
 
 
 
 
Ódauðlegt ljóð á tindinum
 
 
Það var útsýni úr ferðabókunum heima
og það var útsýni úr frásögnum vina
sem vissu að ég stefndi á tindinn.
 
Ég taldi ekki skrefin á leiðinni upp.
Það voru mistök.
Uppi var bara þokan.
 
Þar sem ég hímdi í þokunni
datt mér ekki neitt í hug
hafði ég ekki um neitt að tala. 
 
Það var bara þokan.
 
Bara þokan 
og ekki rétta tækifærið
til að láta ferðafélaga heyra 
það sem hefði getað orðið ódauðlegt tilsvar
ljóð sem ég orti fyrirfram
innblásin orð um að víðsýni hefji jafnvel mig 
yfir svekkelsi skuggsælla daga.
 
 
 
Hveravellir
 
 
Oft hugsa ég til Hveravalla.
Þangað kom ég í ágústmánuði.
Það var á björtum degi.
 
Það var á björtum degi og ég með sólgleraugu.
Ég lagði þau frá mér á stein.
Ætlaði mér rétt sem snöggvast að taka mynd.
 
Allt í einu var ég svo staddur í sjoppu á Blönduósi.
Þá mundi ég eftir sólgleraugunum.
 
Ég man alltaf eftir Hveravöllum.
Þar gleymdi ég sólgleraugum.
 
Ég gleymi aldrei Hveravöllum.
 
 
 
 
Refurinn í Hornvík
 
 
Ég lagðist í hvönnina
lauk aftur augum
hlustaði á bjargið.
 
Þá heyrði ég þrusk
leit upp
og beint í augun á rebba.
 
Hvað ert þú að gera hér?
spurði hann.
 
Af hverju fórstu ekki með hinum?
Er lofthræðslan að drepa þig? 
 
Æ þegiðu, svaraði ég
og lagði mig aftur.
 
 
 
Rúnir
 
 
Í þessu landi snýst allt um ritstörf.
Líka í óbyggðum.
Það hef ég séð með eigin augum.
 
Hér og þar 
hafa verið ristar rúnir í klappir.
Með góðum vilja má túlka þær
lesa sögur og speki 
löngu horfinna jökla.
 
Strá sem bærast 
reynast oftar en ekki fjaðurpennar
hripandi ódauðleg ljóð í vindinn.
 
Jafnvel ólæsar ær
skrá stefnu sína 
í moldargöturnar.
 
Þær stefna alltaf í norður.
 
 

Sjö tilbrigði um Jökulsárlón

1. Jökulsárlón

Það er fjarri mér að líkja jökunum við dauðann
þar sem þeir lóna í vatninu
og bíða þess eins að bráðna.

Þeir eru miklu frekar eins og lífið
með öll sín forgengilegheit.

2. Jökulsárlón

Innan úr sterílbláum hveflingum jakanna
sem mara í lóninu
endurómar dropatal.

Þessir jakar eru aldagömul rigning
sem aftur er byrjuð að falla.

Það toppar ekkert aldagamla rigninginu
svo varla er hægt biðja um neitt meira
nema kannski snjóinn
sem féll í fyrra.

3. Jökulsárlón

Það andar köldu frá jökum
sem líða daufdumbir um lónið.
Þeir minna mig á dauðann
segir vinkona mín.

Það finnst mér skrýtið, segi ég.
Mig minna jakarnir á lífið
þeir eru að leysast upp
þeir minna á allt sem hverfur.

Þannig er einmitt dauðinn
segir vinkona mín
dauðinn
hann er einmitt lífið.

Ekkert fleira þarf að segja
við Jökulsárlón í dag.

4. Jökulsárlón

Jakarnir dreifa sér um lónið
líkt og trúðar í hringleikahúsi
sem veltast um
og hrekkja í djóki
áhorfendum til skemmtunar.

Þeir eru áþekkir þessir trúðar á lóninu
þessir jakar í hringleikahúsinu
aldrei er þó neinn
alveg eins og sá næsti.

Þetta er enginn staður fyrir börn.

Það er eins og þeir hlægi á lóninu
eins og þeir gráti á lóninu
lifandi dauðir trúðarnir
en ekkert heyrist í þeim allan daginn
fyrir yfirgnæfandi áhorfendaskaranum.

Þegar kvöldar má heyra illsku og íshjarta slá.

5. Jökulsárlón

Jakarnir silast um lónið.

Tilgangslausir
og merkingarlausir
silast jakarnir um lónið.

Líkir mér og líkir þér
silast jakarnir um lónið.

Tilgangslausir eins of lífið
merkingarlausir eins og dauðinn
silast jakarnir um lónið.

Jakarnir silast um lónið.

6. Jökulsárlón

Mér hryllir við þér nafnlausi jaki
sem nálgast mig í súldinni.

Ekki vildi ég eiga þig sem elskhuga
nema þú værir dauðinn sjálfur
kysstir einn koss og búið.

Þú ert alltof mikið eins og lífið
sendir svala fingurkossa
þar til setur að mér hroll.

7. Jökulsárlón

Ef ég er eitthvað einsog
þá er ég einsog jaki
sem lónar í lóninu.

Það er meira til af mér
en eitt erindi á yfirborðinu.

Undir niðri er ég miklu meiri.
Undir niðri er ég miklu miklu meiri.
Undir niðri er ég miklu miklu miklu meiri.

 

Lúr í vagninum
 
 
Það jafnast ekkert á við lúr í vagninum.
 
Ég grenja þegar mamma dúðar mig niður
en sofna um leið og hún vaggar af stað.
 
Mamma trillar oft vagninum inn í strætó.
Önnur mamma trillar þeim vagni um borgina.
Enn önnur mamma trillar jörðinni kringum sólina.
Mamma allra mamma trillar sólkerfi út eftir vetrarbraut.
 
Allt þetta gerist meðan ég fæ mér lúr í vagninum.
 
Á meðan ég fæ mér lúr gerist líka allt hér heima.
Fjallajeppi spólar á gangstétt.
Hundamaður setur kúk í poka.
 
Ég veit alveg hvert við erum að fara.
Ég hef komið áður.
 
Bráðum verð ég þriggja mánaða
bráðum verð ég eins árs og tólf ára
bráðum fer að styttast í tvítugt og þrítugt.
 
Allt í einu hrekk ég upp og næsta stopp er áttrætt.
 
Ég þekki þessi augu sem horfa á mig. Mamma.
 
 
 
Átthagar
 
 
Á tjaldstæði í Bæjaralandi 
hvarf labrador hollenskrar fjölskyldu en gelti 
hálfu ári síðar á tröppunum 
heima í Amsterdam.
 
Allt samkvæmt Morgunblaðinu, Reuters og 
minni mínu. Kannski var þó húsið 
í annarri borg, tjaldstæðið 
í öðru landi
og labradorinn 
sjeffer en fyrirsögnina
ættu allir að muna: 
Gekk yfir þvera Evrópu.
 
Annað eins gerist. Jafnvel 
hér um slóðir. Þið munið köttinn 
sem lokaðist inni í flutningabílnum
á Bragagötunni
og komst til Hornafjarðar
en skilaði sér heim.
 
Það er lengi von á einum.
Hér um kvöldið var einhver snuðrandi við húsið.
Ég fór niður.
Hver stendur þá ekki geltandi fyrir utan 
nema úrvinda reiði mín.
 
Aðrar tilfinningar hljóta að skila sér líka.
Af gleðinni frétti ég síðast á krá í miðbænum.
Eflaust var strætó hættur að ganga og engan leigubíl að fá.
 
 
 
Föstudagur á Miklubrautinni
 
 
Hvalur blés framundan
þar sem ég ók austur Miklubraut
eftir vinnu á föstudegi.
 
Hann maraði í yfirborði götunnar
en bílarnir tóku fram úr 
án mikilla vandræða. 
 
Á móts við innstu húsin
stakk hann sér loks í djúpið 
og sporðurinn reis yfir malbikið. 
 
 
Komur
 
Vélin lenti fyrir tíu mínútum.
 
Fólk hraðar sér inn í flugstöðina.
Það kaupir súkkulaði og vín í fríhöfninni.
Bíður við færibandið.
Fer í gegnum græna hliðið.
 
Fyrir utan bíð ég.
 
Karl í svörtum frakka með handfarangur.
Miðaldra kona með þrjár rauðar ferðatöskur.
Hjón með tvíburakerru, með koffort
með reiðhjól, með hálfa búslóðina.
 
Ég bíð þín.
 
Vélin lenti fyrir hálftíma.
Vélin lenti fyrir klukkutíma.
Síðasti farþeginn kominn út.
 
Alltaf skal ég bíða þín.
 
Vélin lenti fyrir sólarhring.
Fyrir tveimur dögum.
Fyrir viku.
Mánuði
 
 
Á fullu tungli í borginni
 
Ég sagði honum hvert ég vildi fara.
Ég þóttist vita hvert för minni væri heitið.
Leiðin getur ekki legið um þessar aðþrengdu hliðargötur.
 
Nú segi ég honum að stoppa.
Hér geri ég bílinn upp.
Héðan mætti án efa ganga.
 
Eitt augnablik birtast augu hans í speglinum.
Engin spurning. Hann fer lengri leið.
Skítt með peningana. Núna gildir annað.
 
Ég breiði úr mér í aftursætinu.
Sýni engin merki hræðslu.
Ég ítreka áfangastaðinn og minnist á breiðstrætin.
 
Hann læst ekki heyra. Hann ekur hratt.
Fer örugglega aðra leið. Á fullu tungli aðra leið og annað.
 
 
 
Heimferð
 
Um leið og komið er í áfanga
vaknar löngun eftir öðrum.
þetta veit ég.
þú hefur sagt mér það áður.
 
Ég veit að framrásin verður ekki stöðvuð.
Ég veit að við eigum bókað í framtíðinni.
 
Raunsæið var aldrei mín sterka hlið.
Ekki bíður ferjan.
Ekki hægjum við á bílnum og snúum til baka.
 
Þetta veit ég allt.
 
En ég gleymdi að læsa bakdyramegin
get ekki munað hvort ég slökkti á ofninum
minnist þess ekki að hafa skrúfað fyrir kranann
og við hefðum átt, við hefðum átt að negla fyrir glugga.

Pin It on Pinterest

Share This