ÉG HUGSA MIG

Nokkur ljóðaljóð og sagnir 

Haustið 2024 fagnar Anton Helgi Jónsson hálfrar aldrar höfundarafmæli og sendir af því tilefni frá sér bók með áður óbirtum ljóðabálki; Ég hugsa mig, nokkur ljóðaljóð og sagnir. Sossa myndskreytir bókina sem einkennist af leikgleði og litríkum hugleiðingum.

 Ljóðabálkinn má túlka sem sjálfsævisögulegt verk en atburðir eru þó hvorki raktir í réttri tímaröð né settir fram af sagnfræðilegri nákvæmni. Ein og sama manneskjan virðist tala allan tímann og rekja minningar sínar en stundum er þó engu líkara en aðrir einstaklingar og jafnvel hópar samferðafólks tali í gegnum hana. Í heild verður bálkurinn eins konar afmælisfagnaður þar sem gestir tala hver upp í annan og grípa hver fram í fyrir öðrum.

 Bálkurinn samanstendur af stuttum frásögnum sem skáldið byggir frjálslega á eigin reynslu og annarra. Vinir og ættingar skáldsins munu eflaust þekkja sig á stöku stað í tilsvörum og kostulegum atvikum en almennir lesendur geta einnig haft gaman af því að finna sig í leik með ævisöguformið.

 Ég hugsa mig er margradda bók með vangaveltum varðandi sambönd, sambandsleysi og þrá eftir því að tilheyra. Glens og orðaleikir eru áberandi en undir niðri býr alvara þar sem alls konar frásagnir litast af endurtekningum og bið með ýmsum tilbrigðum.

Ég hugsa mig er ellefta frumsamda ljóðabók Antons Helga Jónssonar. Hann gaf út sína fyrstu bók 1974, þá 19 ára en fyrstu bókina undir merki Máls og menningar árið 1979. Á undanförnum árum hefur Anton Helgi einkum birt ljóð á ýmsum samfélagsmiðlum en eldri verk hans má lesa á vefnum anton.is sem hefur einnig að geyma margvíslegt óprentað efni.

Myndirnar í nýju bókinni gerði Sossa sérstaklega fyrir þessa útgáfu en hún og skáldið hafa unnið saman að ýmsum verkefnum þar sem ljóð og myndlist mætast.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Pin It on Pinterest

Share This