Dropi úr síðustu skúr

Dropi úr síðustu skúr kom út haustið 1979, trúlega 24. október. Ljóðin í bókinni eru af ýmsum toga og einkennast af þeim leikhús og revíuanda sem skáldið hefur stundum reynt að fanga.  Aftan við bókatextann hér á síðunni  er ljóðasyrpa sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1978 og  átti kannski að vera með í bókinni og gaf henni hugsanlega nafn en rataði einhverra hluta vegna ekki  inn í endanlegt handrit.

 

______

 

Hugstæð er mér kýrin
sem ágæt þótti
af öðru meir en bauli.

Það yrði hamingjan mesta
ef þess gætti í óðnum mínum
að hugsun frjó er afurð nýtra handa.

Gefið hljóð
nú opna ég fjósið
læt þanka mína út
í glórulaust vorið.

Huppa frá Kluftum blessuð nytjaskepnan
á básinn þinn kemst aldrei vængjað hross.
Ó skáldkýrin snjalla
já þú skalt vera skáldkýrin mín snjalla.

 

 

HEIMSLYSTARSÁLMAR

I

Hver átti hlýrra föðurland…
Það spottaði þorragjóstinn
og kærleiksríka leit hans
eftir nöktum kálfum mínum.

Ó dagar
þegar ég var í landinu
og landið var í mér.
Veður skertu ekki lífsþróttinn
en allt mátti hafa að leik.

Ég villtist síðar í tískuhríðum
í manndrápstískuhríðum
þeirra sem auðinn elska.
Skartaði erlendum tildurklæðum
sem vissulega skópu mig:
Kuldabolans þræl.
Allra átta vindar
ruddu áhrifaleiðir
uppundir buxnaskálmar mínar.

Enginn blessar íslending
sem afskrifar föðurlandið.
Ekkert hef ég ferðast
samt verið útlendingur.

En nóg hafa tennurnar glamrað
án þess að geta bitið.
Til heimferðar vil ég búast.

Föðurlandið kalda harða
og föðurlandið hlýja mjúka
huga minn seiða löngum.

Huga minn seiða löngum.

II

Viðsjárverðir eru þessir tímar
og hver nótt hin seinasta
aðeins sá lati
áræðir að nefna morgundag.

Aðhafist ekki
letin er dyggð.
Háspennuvírarnir slakna í þíðviðri
stáltaugar mannanna
við ástundun dyggðarinnar.

Lítt er raupað um framtak eða dugnað
meðal ræðaranna á galeiðum auðvaldsins.

Hreinir eru draumar sem klukkur raska
spakar samræður sem verkstjórar slíta
göfugar hugrenningar sem stritið kæfir.

Laun dyggðarinnar:
Tími þinn allur
nútíðin óskipt.
Hóglega bera sig latir eftir björginni
hæglega verða óhófssamir bjargarþurfi.

Sannlega segi ég yður
auðveldara er ríkum manni
að þræða guðhræddan fjöldann í nálar sínar
en lötum að dásama hannyrðirnar sem iðjusemi

Og sannlega sannlega segi ég yður
meðan ekki er siglt vegna hugsmuna ræðaranna
er letin
er letin letin dyggð.

III

Ég vil yrkja nafn þitt
og mitt og plús á milli
á biðskýli öll
og símaklefa í bænum.

Ó þú veist hvað ég meina.
Ó þú
veist hvað ég meina
slærð á þráð til mín
og í mér er svarað.
Númerið þekkir þú ein.

Vagninn okkar er aldrei nýfarinn
aldrei ókominn.
Tvö á sama miða ferðumst við
með hjörtun að leiðabókum.

Ég vil yrkja nafn þitt…
Og gagnrýnendur munu kanna fortíð mína
fræðimenn gegnumlýsa biðskýlin
skólabörn þylja nöfn okkar utanað.

Engum hlotnast þó leyndardómurinn.

Ég vil yrkja nafn þitt
og mitt og plús á milli
það verður besta ljóðið
skilið til fulls og skynjað
af einni þér.

Aðra mun tæplega gruna
til hvers er vísað.

 

FARSÆLDA FRÓN

1. Hekla

Óvanur útsýni til heimsfrægra fjalla
renni ég augum til Heklu
hinnar skapmiklu samlöndu minnar.

Ég kem á bæ en bóndi er að heiman
þotinn eftir hjálp við brotið drifskaft.
Ég snakka við húsfreyju um votviðri og sprettu
hún sendir yngsta krakkann með skræling í hænsnin.

Á hlaðinu núllar áttræður afinn
Mjólkurbílstjórinn lýgur í hann fréttum.
Niður heimkeyrsluna hugsa ég um fjallið
Brysti það þolinmæði hyldust túnin ösku
á löngum morgni.

Ég yrði fjarri en þættist heyja vel
í viðburðahlöðu mína.

2. Á Skeiðarársandi

Kvæði barnaskólans þoldi ég verst;
ónæmur fyrir skáldskap af utanbókarromsum.
Leit hornaugum þetta rómaða ættland
sem ekki varð séð úr kjallaraglugga.

En líka ég fer Hringinn nú í ár.

Og augun drekka sig full
af níutíuogsex pósent fegurð.

Samt efa ég að aki þessa leið
fólk er dreymi jötuninn í núpnum
samræður eigi við blóm eða steina.

Bryrnar tengja þjóðleið milli söluskála
og smábílar flæða yfir sandana.
Börnin dotta í aftursætum
uns kemur að straumþungu kóki.

3. Djúpivogur

Bakvið gluggatjöldin leynast augu
þetta pláss er sem önnur með forvitin tillit.
Allt virðist leika á meginásum lífsins
kaupfélagi, fiski.

Á hótelinu eru einhleypir karlar í fæði.
Aðrir kvænast innan við tvítugt
framleiða síðan á eigin kostnað
verðandi sjómenn og dætur.

Ef þokunni léttir sést píramídi
Búlandstindur
minnisvarði norræna konungakynsins.

Hér um slóðir má lesa úr hörundslitnum
að menn af ýmsu þjóðerni
vörðu stofninn gegn úrkynjun.

4. Hádegi á Þórshöfn

Fiskifluga suðar við eldhúsgluggann
en í útvarpinu sveltur Indland.
Togarinn Júní seldi í Cuxhaven.
Tóbak og brennivín hækkar.

Brátt má hún í stígvélin og hlaupa
slekkur undir hömsunum og lagar kappann.
Strákarnir ekki komnir í mat.

Annað kvöld spilar Amon Ra á balli.
Síðast var hljómsveit að vestan
og eilítið masgefinn vopnfirðingur laminn.

Drengirnir halda sig í fjörunni
leita að smásteinum og fleyta kerlingar.

Á lygnu daglegra anna skoppar hver og einn
til fjarlægari stranda spyrjast engar gárur.

5. Dettifoss

Þú dettur ennþá Dettifoss
laminn niður af sálarlausu fljóti
bíður færis að rísa upp á háspennumöstrin
og flýja til byggða.

Ógæfulegur ertu
myndavélin drepur tittlinga við að sjá þig.
Mig snertu önnur vatnsföll dýpra
lekur krani
draup mér fyrrum andvökum.

Ég skoða víðfræg fjöll og ástsæla fossa
en hugsunin rennur í farvegi upprunans
borgariðunnar
og fuglunum læt ég það eftir
að yrkja lofsöngva utan vegar.

6. Á Siglufirði

Hér var aldrei skógur milli fjalls og fjöru
en í landlegum síldaráranna
þöktu siglutré fjörðinn.

Þá var eyðingin hvergi nálæg
gróskan ekki hlaupin í endurminningarnar.

Þegar reika um plönin
vinirnir Söknuður og Fúi
er vitanað í stóru köstin
munað
hvernig óðu torfur af röskum mannskap.

Smábær í herpinót skyndigróðans
úr brúnni stjórnuðu hverfulir peningamenn.
Síðan hefur lóðað á einni spurningu:
Var það örugglega síldin sem brást?

7. Ísafjörður

Fjöllin verka ýmist á mig líkt og greip
reiðubúin til að hremma eyrina
eða lófi sem skýlir flöktandi kveik.

Enn standa lífsreynd hús
frá kaupmennskutíð í Neðsta og Efsta.
Marga sáu þau rata í sálarháska
áður en breiðir menntavegir komu til.

Ég heyri sögur um kröftugt alþýðufólk;
erfiði þess hlóð undir skólana
þar sem nöfn höfðingja eru varðveitt
og tímar átaka ætíð liðnir.

Afkomendurnir kannast síður við þrengingar
snúa baráttusöngnum
í róman með farsælum endi.

8. Við Patreksfjörð

Í dag hef ég hugleitt
gildi minnar vinnu og fólksins.
Tæplega rekast á ljóð mín
aðrir en kjölfróðir vinir.

Hingað kem ég gestur
þekki engin handtök við fiskinn
hef spurnir af fólki sem skapar auð
og hóglífi öðrum en sér.

Hver fiskar þreyttur eftir skáldskap
meðan léttilega verða dregnar ýsur
á grynningum sjónvarps og blaða?

Hér ýtti Jón úr vör og réri á ókunn mið.
Seinna rak á fjörur bók um þorpið
eftir það var skáldið talið af.

9. Ólafsvíkurrútan

Kraftur jökulsins orkar ekki á bílinn.
Ég stoppa og tek bensín
þá verður fyrir mér Ólafsvíkurrútan.

Hæ, þarna er Stína spaugsömust allra
horfin frá námi en síst frá menntun.
Hennar bíður að draga orm úr þorski.

Flunkunýr kærastinn glottir hægt
í farangri hans eru sjópoki og stígvél
en camelpakki hjúfrar sig í þykkri hendi.

Sjómannsekkjan móðir hennar er líka með
nýkomin af Landspítalanum æðahnútalaus.

Og traustlegi bílstjórinn ekur þeim vestur
en hvorki er hans né þeirra að svara
hvar að lokum endastöðin veðrur.

10. Ljóðið um Akranes

Yfir bæinn gnæfir hinn mikli skorsteinn
og glöggir lesa úr reykmerkjunum véfrétt:
Sement er gullfótur íslendinga.

Nýjar byggingar spretta upp á grundunum
standa ólíkt betur en kartöflugrösin
en mennirnir bregðast sem fyrr til beggja vona.

Hjá Haraldi er unnið fram á kvöld
fangamarkið á útveggjunum afdráttarlaust;
miskunnsami samverjinn skapar fólkinu velsæld.

Minning útgerðarmannsins lifir
brjóstmyndin verður eflaust séð úr flugvél
og Bíóhöllin kynnir laxerandi filmur.

Í logninu stefnir svartbakur á Akrafjall.
Við tvílyft hús hanga bleiur á snúru.

11. Hvalfjörður

Með ugg í brjósti einatt lít ég Hvalfjörð.
Þar vafra draugar um hálsa
í tjörnum leynast skrímsl.
Tíðum eru skipakomur bendlaðar við dauðann
og hvergi var dyggilegar ort um eymd og písl.

Geigvænlegur er vegurinn
eilifðarlangur og holum settur.
Á því verður margur yndissnauður
að krækja fyrir botninn.

Í þyrpingu húka braggarnir
á litlum sandi
fyrirsögn nýrrar Íslandssögu.

Siðferðisástandi þeirra sem reistu
ber stíllinn ennþá vitni.

12. 17di júní í Reykjavík

Á Stjórnarráðinu blaktir þrílit pjatla við hún
lævís auglýsing á ullarvörum
ætluð bjórvana túristum
snýtuklútur vinda
sem elska erlenda reykháfa.

Nýkomið úr verkfalli
ráfar spariklætt fólk um bæinn
telur sig sömu þjóðar og viðsemjendur.

En milli herðibreiðra steinhúsa gægist Esjan
öðrum fjöllum pólitískari.

17di júní og Lækjargata
hjá ykkur hjónum er sopinn alltaf góður
og andstæðingar gleyma dægurþrasi
fyrir áhrif þjóðhátíðavakningar.

13. Í Straumsvík

Verksmiðjan liggur sem tröll útí hrauni;
ásjónan grá af styrkleik og elju
svipurinn hafnar hjali um fegurð
voli máttlausra skrúðgarðsjurta.

Þetta er frumburður veiklykdrar gálu
efldist til dáða af kjarngóðu rafmagni
gefur með föður sem þvælist um heiminn.

Eftir þurrum æðum verksmiðjuskrokksins
dæla stimpilklukkur fersku blóði
það er lífsvökvinn
upprunninn úr Firðinum og Breiðholtinu.

Svo er nótt og svo er dagur.
Handan blárrar móðu leynist íslensk sól
en tröllið í hrauninu virðist ekki breytast.

14. Í Keflavík

Frá Keflavík er að vísu lítil fjallasýn
en bærinn hefur ómetanlega kosti
ég leyfi mér að nefna fótboltavöllinn.

Eitt sinn sá ég hér ráðast úrslit í deildinni;
áhorfendur þóttu mér besta liðið.
Ég fylgdist ungur lítið með knattspyrnu.
Ekkert með framlengdum leik á annars konar velli.

Ég var krakki og mig hefði síst grunað
að fullorðnir sníktu flöskur
undir landsleik
þar sem framtíð íslendinga ræðst.

Fótboltavöllurinn er hérna enn.
Í dag er ekki leikur
en spengileg er styttan af Ólafi Thors.

 

 

MÁNUDAGAR

I

Innundir draumhitaða sæng
læðir morgunninn frostbólgnum höndum
hremmir sveittan kropp.

Óþreyjufullur
bíður vinnugalli innyfla
jafnvægisstangar og þyngdarpunkts.

Upp dagmálabrautina
ráfa sygjaðar mínútur
móti óvígum her mánudaga.

II

Yfir ábyrgðarlaust gjaldkeraborð
siglir naumlega hlaðið launaumslag
landar í gisið veski.

Umkomulaus
híma trygglynd verkfærin
í svölu áhaldahúsi.

Handan við stimpilklukkuna
gína stórverslanir yfir æti
meltingarvegurinn greiðfær.

 

 

ÚR FJÖLLEIKAHÚSINU

1. Armstrong á ellefta glasi 

Þið vitið ekkert um tunglið
en á það steig ég
Kristófer Kólumbus Armstrong
fyrstur siðaðra manna.

Ekkert bar til tíðinda á leiðinni
en í lendingunni gerðist eitthvað.

Þarna
í endalausum tunglgrámanum
grillti í mannverur;
svarta stelpu úr Harlem
bónda frá Víetnam.

Svæðið varð að ryðja
áður en sjónvarpsvélarnar yrðu gangsettar
og fáninn stolti reistur.

Nei þið vitið ekkert
en ég hef jafnvel stigið á tunglið.
Fyrir mér urðu mannverur
blessuð sé minning þeirra.

2. Illa feðraður drengur

Ég var viðstaddur
þegar söngur ómaði í gripahúsinu
þegar hirðarnir reiddu fram lamb
og vitringar krupu við blessaða jötuna.

Þeir krupu ekki nýfæddu barni
heldur gamalli tálvon
um frelsara heims

en trúið mér
ég var viðstaddur líka
drengurinn lifandi fæddur.

Enginn hefur fæðst til að bera synd
Það er draumsjón ykkar
misvitra fólk.

Aldrei aldrei
skal ég veita neinum fyrirgefningu
hana á hver við sig.

En eigi ég að boða fögnuð
er hann þessi:
Það kemur ekkert guðsríki
það kemur ekkert guðsríki.

Von er um bjartari daga
verði þörfin fyrir guði sigruð
og börnin sem fæðast og gráta
frelsarar heimsins.

Seinni fjallræða spámannsins: Um kaffi

Ein streymir elfa
í blómskrýdda postulínsbolla
sem óbreyttar krúsir
ætíð með þýðum niði.

Móeygðar spákonur
líkfölir spekingar
óvæntir gestir og erfiðismenn …
vitna um sannleikann:

Reimleikum að morgni
veldur áfengið
og gosdrykkir fleipra
búkhljóðum leiðum.

En kaffi fær lof
í botni sem við brún.

Kaffi kveikir morgun.
Kaffi litar kvöldvöku.
Kaffi
lífgar vinnudag og umræður um kjaramál.

Kaffi.
Aðeins ólundin hefur slæmt af kaffi.

Textar úr veruleiknum
West Side Story

I

Illt er að vera berfættur
meðan þeir lifa hæst
sem á flestum geta troðið.

Ó, þjóðlegi borgari
blár og marinn þráðir þú eitt:
Að komast réttumegin við sólann.

Fátt virðist einhlítt.

Þú losnaðir undan klossunum dönsku
en síðan ertu leppur
í amerískum herraskóm.

II

Jörðin öll er afréttur
sem stórbændur skipta milli sín
senda heri í göngur
láta smala heilar álfur.

Sláturtíðin er samfelld
þjóðir jarma í dilkum
og einhver verður skotin.

Bóndanum í Vestra
þjóna íslensku fjárhundarnir
þeir éta blóðmörinn sæla
þeir éta lýðræðisblóðmörinn sæla.

III

Allir út að ýta
allir út að ýta, stétt með stétt
Allir út að ýta
nema Geiri, hann stýrir.
Allir út að ýta
nema Ragga, hún er pilsklædd.
Allir út að ýta
nema Berti, hann á pening.
Allir út að ýta
nema verkalýðsforinginn
hann ýtti síðast.

Verkamanninn út að ýta
verkamanninn út að ýta
stétt með stétt.

IV

Í gullnu hliðunum á Miðnesheiði
talar Sankti Pétur ensku:
Ó Key, Ó Key.
Sálartuðruna inn.

Keflavík airport
snertiflötur við útlönd möguleikanna.
Bakkabræður fljúga með húfur sínar
í sólina á Spánarströndum.

Öllu er óhætt á meðan
í frelsisskessunni af New York
slær hjarta Íslands dollara.

Flugbrautin stækkar og hringvegurinn þráir steypu.
Ó Keflavík airport
þú reynist heimalnings auðvaldi
nesti og sjömílnaskór.

Já, í gullnu hliðunum á Miðnesheiði
talar Sankti Pétur ensku.
Englarnir jórtra tyggjó
Gagnteknir af yfirþyrmandi friði.

Bygginganefndin á fundi  

Enn komum við saman
til að sýna yfirburði mannsins
yfir umhverfinu.

Og sjá:
Í samanburði við okkur
verður steypan hlýleg
verður steypan mjúk.

 

 

ÓSKABÖRN

1. Í höll þyrnirósar

Nú heimta ég orðið
ég sem ánauðug þjónaði höfðingjaslekti
og fékk ævintýrið gegn mér
að launum.

Fárra kosta átti ég völ
mátti stýfa úr hnefa
meðan drottningin taldi gulldiska sína.

Ég stóð að jafnaði við spunann
en starfi minn var hvergi lofaður
ætíð skyldi vegsamað
iðjuleysi kóngsdótturinnar.

En svo mættumst við yfir snældunni
fulltrúi vinnandi lýðs
og óskabarn hrörnandi ríkis …

Hlustið á mig
látið kóngsdótturina sofa
látið hana um eilífð sofa
og vorkennið henni ekki.

Freisti þess prinsinn að vekja hana
taki þá smiðirnir hann í læri.
Sveinsstykkið verði rammgerð kista.

Látið kóngsdótturina sofa
en komið sjálf úr afkimunum og vakið.

2. Bak við fjöllin sjö

Í okkar húsi skorti ekki traust;
nú uppskerum við efann.
Hún sem naut stuðnings
er sest að veislu og völdum.

Fyrrum heyrðist deilt
á miskunnarleysið í höllinni.
Er við komum þreyttir heim úr námunum
fengum við jafnan nýjustu tíðindi
af klækjum drottningar mót falsleysinu.

Við héldumst í stöðugri spennu
grétum
þegar uppáhaldinu var meinað að tala.

En fegurð okkar komst aldrei á dagskrá
hins vegar var dylgjað með gáfnafarið
og sannarlega höfðum við einfaldan kost.

Við gröfum áfram málma úr jörð
þótt ævintýrið þegi um hver hagnist.
Og miskunnarleysið ríkir í höllinni.

Hún sem naut áður stuðnings
er sest að veislu og völdum
og þú veiðimaður
verður aftur sendur út í skóg.

En varastu töfrana
sú næsta verður líka alþýðleg.
Búðu hennar síðustu för
og snúðu til hallar með rýtinginn hvesstan.

Látum endinn vera óbreyttu fólki í vil
látum upphafsorðin rætast:
Einu sinni var…

 

ÞJÓÐVÍSUR

Nýstefnuskáldið og kisa

Kisa er alltaf að gjóta
en nýstefnuskáldið yrkir og yrkir.

Kisu fylgir engin ættartala
sem réttlætt geti tilveru hennar.
Þar eru þau lík
bæði af hurðarbakskyni.

En hún hefur djúpar rætur
bundin hrynjandi náttúrunnar
nærist á eðlislægri ástríðu
blíð sem rósir
trú sem árstíð landi.

Nýstefnuskáldið er rótlaus karl.
Eins og leiðsögumaður
sem þeysir um frægar borgir
og skýrir frá merkum atburðum
en er aldrei þátttakandi sjálfur.

Kisa er alltaf að gjóta
en þarf ekki heimspeki
bréfaskóla né umferðareglur
til að segja sér
hvernig lífssafinn skuli streyma um æðar.

Nýstefnuskáldið er rótlaus karl
utangarðs við lífsundrin
leitar uppbótar í skáldskap.
fær hríðir af öfund
þegar kisa er alltaf að gjóta.

Aðrir skola innblástrunum í vaskinn
dusta þá úr teppum
eða skeina þá af krökkum.

Jafet í föðurleit

I

Huldukona var nágranni mömmu
vitjaði hennar í draumum
og leit eftir systur minni
gegn því að álfhóllinn væri friðaður.

Ég hneygist til að ætla álfabyggðum stað
einungis í landi hugans
þó heimsótti mömmu huldumaður
nógu raunverulegur til að geta mig.

Einhversstaðar
lifði hann lífi sem ég sá ekki
vitjaði mín í dagdraumum
og stundum brá honum fyrir
með áþreifanlegar gjafir.

Ég leitaði hans
ég leitaði hans í hverjum jóni.

II

Í vídd sem er fullorðnum týnd
deildi ég ríki við leikbræður mína.
Við flengriðum prikum um hverfið
fjóreini
speglar hvers annars.

Allt var með góðum ráðum
barist í taumlausum galsa
og spjótin flugu á milli
án þess að særa.

En grunurinn
um að þeir ættu pabba sína í bakhöndinni
var mistilteinninn sem hæfði mig.

III

Kvikt sem dautt
virtist snúast gegn mér og unglingabólunum.

Vopnaður önuglyndi
varðist ég merkingu orðanna pabbi og mamma.

Hið fyrra
var aldrei þjált í munni
en ég hugði systkinin norðanlands
hafa eðlilegan framburð á báðum.

Þá fann ég til hroka
líkt og gagnvart dónalegu málfari
sömuleiðis til efa
vanmáttar tæpitungunnar
andspænis þrótti hversdagsmálsins.

IV

Nokkrir kunningjanna þóttu óheppnir
af karlmennskutrjám þeirra spruttu ávextir.
Einhver borgaði jafnvel með tveim.

Hugsanir mínar
jöðruðu við heitstrengingar;
ekki skyldi sama henda mig
engu barni sköpuð óvissa
bætt fyrir mína.

En óljóst var orðið hvers ég leitaði.
Ég saknaði söngs og fugl var í skógi
meðan annar
sat þögull í hendi.

V

Enn hefur öxi mín
litla reynslu af kinnskógi.
Ég er sem landið
trúr yfir fáum hríslum.

Sæði mitt festir þó rætur
í nótt er ég titlaður faðir.

Móðirin leggur kapal.
Ég stokka spilin við annað borð
og ekki verður spáð
fyrir örlögum barnsins.

En leitin er á enda ég hef hlaupið apríl
fundið huldumanninn
í mér sjálfum.

Þrítugasti maí

Nú er sumarið komið á vakt;
og ljósastaurarnir hanga aðgerðalausir.
Skemmtiferðaskip
flatmagar á ytri höfninni
en farfuglar tjalda í Laugardal.

Inn eftir Hverfisgötunni
kjagar malbikunarvél með ungahóp
og stoppar umferð bifreiðanna.

Sjálfur ek ég mína leið í þýðum draumi.
Skipti um alla hjólbarða í vor
vil síður fara á grófa munstrið aftur.

Engan veginn reynist mögulegt að vita
hvers konar gata tekur við.
Í staðinn þrái ég trygga birtu.

Sumarnóttin hefur takmarkað dvalarleyfi
fer utan í ágúst
og þá kvikna augu ljósastauranna.

Með öðrum hætti lifa augu þín.
Þau ljóma í kapp við árstíðina
og ekki trúi ég
að birta þeirra minnki í haust.

Að sjálfsögðu
veltur það nokkuð á mér.

 

______

Viðbótarljóð:

 

Smáspekiljóð

I

Miklu ráða tilviljanir
skýin mettast hvað eftir annað
og sáðfrumur falla til jarðar

en nákvæmlega einn
af öllum regndropum vætusumars
hitti oní hálsmálið

það varst þú.

II

Fátt veistu
um líf og dauða fólksins.

Milljónir milljónir fæðast
og milljónir deyja
margföldun og frádráttur
reiknað með háum tölum.

Óskiljanleg er þér úrkoman
og það
hvað dæmið mannkynið mínus þú
breytir henni lítið.

III

Þú ert til
eða svo segir þjóðskráin
en staðfestingar
leitar þú í viðbrögðum annarra

þó ertu saumnálin í heysátunni
og fæstir koma auga á hana.

IV

Eftir forskrift
lærðir þú að rita bókstafina
sjálfur ertu í öðru stafrófi
og þér var skotiö inn í ókláraða setningu.

Þar máttu finna samhengi lífsins
öðlast merkingu
með þeim sem standa umhverfis.

og yfir þér er enginn kennari
til að veita stjörnu.

V

Einhvern daginn
rennirðu þér síðustu ferðina á magasleðanum
og förin eftir meiðana sjást
meðan snjórinn helst í brekkunni

þá skilurðu
að gamanið fólst í andartakinu
á leiðinni niöur

alveg eins og í lífinu.

 

 

Pin It on Pinterest

Share This