Augnablik án titils
Syngjandi vakna
óskabörnin sem einlægt
sofna syngjandi.
Kötturinn eltir
svartþröstinn kringum runnann.
Ég elti köttinn.
Lesarinn ungi
setur nýja tímareim
í gamla ljóðið.
Óvænt kom vorið
í grænmetisdeildina.
Aspas frá Spáni.
Jafnvel baðviktin
virðist gera lítið úr
áhyggjum mínum.
Í stað úsynnings
nýt ég frískandi vinda
úr hárblásara.
Um miðjan apríl
laug hann að mér vorinu
grallaraspóinn.
Huldukonunni
finnst gaman að vera til
í þykjustunni.
Kettirnir mættir
og skíta í sandkassann
á leikvellinum.
Snjórinn er kominn
að kveða burt lóuna.
Hún pípir á það.
Kvótalaus dreg ég
lúðuna uppúr djúpi
frystikistunnar.
Ég snýst um jörðina.
Jörðin snýst um sólina.
Sólin snýst um mig.
Suðrið færir mér
vorið kátt með fjaðraþyt
hrossasælugauks.
Aldan eltir mig
upp i fjöruna og snýr
aldrei söm aftur.
Alltaf í logni
flýgur hann yfir örninn
ósýnilegi.
Fyrirvaralaust
reis upp tré í garðinum.
Ég er að eldast.
Um mig verður sagt:
Hann tók sín fyrstu saumspor
í Njálfurefil.
Í fjarska jökull.
Óstöðvandi sólarlag.
Við stöndum saman.
Vorboðinn rita
er sest upp í bjarginu.
Býður í kaffi.
Að viljinn sé frjáls
sannar hár sem rís upp eitt
á vinstri augnbrún.
Vörubílstjóri
með enga hönd á stýri
reykir og smessar.
Viskutré orða
vex upp úr mér sem ungur
gleypti eplastein.
Hugsun mín um þig
er asni þungbúið ský.
Hvenær rofar til?
Á herbergi sjö
liggur enginn og hlær
í hinu rúminu.
Má þetta? spyr ég.
Amor spennir bogann sinn
í friðlandinu.
Í eyrun berst krí.
Söngvakeppni evrópskra
varpstöðva hafin.
Gaman að sjá þig
aftur mín kæra tunga!
umlar snípurinn.
Í vatnsfötunni
speglast ský en himinninn
róar mig heiðskír.
Eitthvað ótrúlegt
tyllir sér á öxl mína.
Guðsfuglinn syngur.
Sumarlitunum
skartaði snjótittlingur.
Sólskríkjan kýs grátt.
Hvergi ský að sjá
og ekkert skýrir dropann
sem féll á ennið.
Sumarsmellurinn
hljómar nú þegar vínið
rennur í glasið.
Alltaf jafn óvænt
fýkur Máríuerla
í blankalogni.
Hvað er ást? spyrð þú.
Ást er og. Stundum eða.
Ást er aldrei en.
Andvarinn vefst mér
eins og silkimjúk slæða
um herðar og háls.
Frelsarann trompar
flórgoðapar sem taktvisst
dansar á vatni.
Árfarvegurinn
uppþornaður eins og jól
á miðju sumri.
Leitandi að kyrrð
hrek ég óvart snípuna
af hreiðri sínu.
Á heiðinni býðst
eintóm ímynduð fæða
spælegg á steinum.
Þrjátíu ungar
í það minnsta, elta tvær
leikskólakollur.
Blessum skrúðgarðinn.
Þar krækjast saman litlir
vináttufingur.
Með stutt geislasverð
göngum við feti framar.
Jöklarnir hopa.
Grafskrif í lokin:
Það vissu þetta allir.
Enginn sagði neitt.
Sandkorn faldi sig
en litlafingursnöglin
leitar í augnkrók.
Ég verð alltaf með.
Ég er fimmti bítillinn.
Sjötti stónsarinn.
Hvatningarsöngur
berst um kartöflugarðinn:
Lifi jarðeplin.
Heppna fiðrildið
flögrar um engið og sest
á rétta stráið.
Hálfa söguna
segir bleikt krakkareiðhjól
í miðjum læknum.
Mjúkar varirnar
hringast um vin sem fagnar
standandi hissa.
Uppi á toppnum
held ég áfram að spyrja:
Fór ég rétta leið?
Fjallið Skaldbreiður
má vera þar sem það er.
Ég fer ekki fet.
Um óbyggðirnar
lóðsa ég túristana.
Heima villist ég.
Óþörf ferðalög
mannanna ræðir mosinn
við lofthjúp jarðar.
Ég klæðist engu
nema fínofnum blænum
og náttleysunni.
Sjóðheit borgarstétt
lætur mig aldrei gleyma
svalanum heima.
Fátt segir af mér
en áðan sá ég plómu
detta af trénu.
Á maga þínum
vekja leitandi fingur
gamalt kitl til lífs.
Súla í kasti.
Ég á mínum daglegu
hugmyndaveiðum.
Flugvélin hristist
og skelfur á leið sinni
um holótt loftið.
Konuna sem sest
hrellir eftirliggjandi
dropi á setu.
Glitrandi perlur
úr festi sem slitnaði
skoppa um gólfið.
Þunglyndar buxur
og áhyggjufullir skór
á biðstofunni.
Ég handlék pennann
í hugsunarleysi, domm.
Nú leita ég gorms.
Á Ítalíu
gladdi það mig að haninn
gól á íslensku.
Í útlendri bók
grét himinnn án afláts.
Hér rignir bara.
Fljúgi margæsin
upp af voginum þráir
hafmeyjan vængi.
Ég hími heima.
Haustið lætur mig banka
ofnana í gang.
Ertu með lykla?
Ertu með allt sem þú þarft?
Ertu með? Ertu?
Vindinum býður
örlátt kirsuberjatréð
gullnu laufin sín.
Þú hringdir um nótt.
Ætlaðir að hengja þig.
Næst hringdi konan.
Jafnvel þótt rigni
mætir haustið í skóginn
og kyndir sitt bál.
Ljóshærðum hnokka
strauk eitt sinn hönd sem gramsar
í rusladalli.
Úti má rigna
ef ég get verið inni
og innan um þig.
Þögull lambhrútur
jarmaði til mín í dag
úr kjötborðinu.
Það frysti í nótt!
Nú prýðir lífsvökina
sundfögur álftin.
Hreina framrúðan
sem vekur gleði okkar
boðar ferðalok.
Enginn ábót býðst.
Þaulsætna hetjan drekkur
loft úr bollanum.
Gulnað dagblaðið
sem fannst undir súðinni
boðar heimsendi.
Með rótarhöndum
heldur tréð í jörðina
sem annars fyki.
Silfurskotturnar
hrella mig eins og mínar
ljósfælnu kenndir.
Í máli vindsins
heyrast þungar áherslur.
Ég skil ekki orð.
Poppið að klárast
en niðri á botninum
finn ég salt lífsins.
Ekki slær hjartað
en mjúka kveðju blæs það
í tregahornið.
Nóvembersólin
bankar á svaladyrnar
og tælir mig út.
Við sköfum að vild
svo lengi sem framrúðan
samþykkir kortin.
Hart eldhúsgólfið
dregur einatt í efa
óbrjótandi glas.
Enn krunkar Krummi.
Hann krunkar einn á skjánum.
Hvar er hún Rannveig?
Inní þokunni
á minn óljósi grunur
sitt lögheimili.
Hvítar froststillur.
Hrollvekjandi veturinn.
berar tennurnar.
Yfir húsþökin
dreifir hreinskilinn morgunn
gagnsæu logni.
Verkur í hnénu
Marrandi gólf og hurðir.
Lægð á leiðinni.
Á næturhimni
býðst mér hann fullþroskaður
osturinn hvíti.
Þegar við mætumst
ert þú með háu ljósin.
Ég blikka þig, beib.
Á morgunhimni
heilsar mér stjarnan bjarta
ein og þó margræð.
Einn vetrarmorgun
nem ég bara lóusöng
starrans í trénu.
Mér líður svo vel.
Loksins þögn á Íslandi.
Áramótaskaup.
Himininn stundi
lengi eftir að loka-
flugeldurinn sprakk.
Flúraði ramminn
á hvíta stofuveggnum
gerir allan mun.
Þegar lengir dag
fyrir norðan vaknar flugþrá
á suðurhveli.
Hamingjan sanna!
stjörnur á himni og við
á leið útí pott.
Arineldurinn
brennur hægt og hlýjar mér
á sjónvarpsskjánum.
Yfir þrúgandi
skýrslur um hlýnun jarðar
fellur hvít lygin.
Grimmur morguninn
gefur mér eina stjörnu
fyrir viðleitni.
Ég á þetta land!
Það vottar fasteignaskrá
skólaljóðanna.
Síminn hringir út.
Leyninúmer hrella mig.
Þau minna á Guð.
Jarðvegsframkvæmdir
í kartöflumúsinni
tefja málsverðinn.
Ég opna augun
en villist samt um hugann
og sé ekki út.
Styrkur minn skelfir
þegar ég finn hann óvænt
í fangi þínu.
Á tungu þinni
léku gælandi orðin
og snertu við mér.
Allan kraft og kapp
dregur unaðsmínútan
úr mér og hverfur.
Snjór yfir öllu
og ekki létt að eygja
hvítu hrafnana.
Skáldsagan líkist
frænda í jólaboði
sem hættir aldrei.
Oft spyr fjörufugl:
Sérðu húfuna mína –
hún er silkibleik?
Nú er sem vori
þegar janúarsnjórinn
brumar á greinum.
Jaxlarnir mínir
þóttu mestu hörkutól.
Samt lifi ég þá.
Syngjandi sofna
óskabörnin sem einlægt
vakna syngjandi.