Alls konar utanbókarljóð
Ljóð sem af ýmsum ástæðum hafa ekki ratað í bækur má lesa hér. Þetta eru alls konar ljóð um allt og ekki neitt, sum eru örstutt og önnur langar þulur. Elstu ljóðin eru frá því fyrir 1974 en þau yngstu frá 2022. Hægt er að ferðast aftur í tímann með því að skruna niður síðuna en nokkrar skáletraðar millifyrirsagnir á leiðinni gefa vísbendingar um það hvenær ljóðin voru ort. Fleiri óbirt ljóð má lesa undir flipanum Ljóð og ljóðasyrpur, meðal annars hækur og samtíning bæði af glettnum og alvarlegum ljóðum.
Stök ljóð frá seinni árum
Andað
Sólin skín á lygnan bjór og tónleika í porti.
Ég hef ekkert betra að gera en sitja hér og anda.
Anda inn um fingurna og anda út um eyrun
anda inn um iljarnar og anda út um augun.
Ég er snerillinn í settinu hjá Einari Scheving.
Ég er bassatromma, páka.
Ég er symbali sem andar sei-sei-sei.
Láttu kjuðana og kitlurnar leika um mig, Einar.
Ég er symbali sem þarf að anda
þarf smávegis að anda í dag
ég elska þessa stund
þennan unað að anda, þetta líf.
Einhvern veginn alla daga skal ég elska þetta líf.
Síðasti söngurinn
Einmitt þegar berst til mín söngur sem ég vildi nema
heyrðist óvænt annað hljóð, vélarhljóð skipsins, mér
brá, ég synti til hliðar, veltist og snérist
reyndi að láta mig hverfa, kafa
kafaði uns ég kom upp
til að játa:
Ég þarf að anda, anda, anda.
Þá finn ég skutulinn stinga sér hlakkandi inn í hold mitt.
Það gargar hver einasta taug þegar skutullinn hlær
af sársauka gargar hver einasta taug
einmitt þegar berst til mín söngur sem ég vildi nema.
Eitt augnablik hugsa ég um fjölskyldu mína. Ég hugsa.
Reyni aftur að kafa, hugsa.
Þá springur skutullinn inní mér, springur.
Einmitt þegar berst til mín söngur sem ég vildi nema.
Ávarp fjallkonunnar
á Austurvelli 17. júní 2021
Ein vil ég mæla fyrir okkur öll. Setjum grið.
Virðum tifandi mosann
mosabreiðuna
mosalagið sem hjúpar jörð og nærir líf.
Setjum grið á öllum stöðum
nefndum og ónefndum
milli okkar og mosans. Setjum grið
í móum. Setjum grið í mýrum. Í tjörnum.
Í glitrandi lækjum og lindum.
Á hraunbungum
og í snjódældum.
Á þurrum melakollum og í votlendi.
Setjum grið á brunahrauni
og í botni skógar
þar sem söngvarinn ljúfi tyllir sér á grein.
Hægt, hægt vex undramjúkur mosinn
vex dúandi mosinn sem fæstir kunnu áður að nefna
viðkvæmur mosinn sem margur vild’ ei neitt af vita
glóandi mosinn sem breiddi úr sér
fyrir augum allra án þess að sjást.
Engin mannskepna skal fara með óþarfa traðki út á mosann
enginn málmdreki ógna honum með eiturgufum
og ekki skal ógætileg framrás beittra klaufa
skera í mosann sár
sem óheftir vindar vilja ýfa upp.
Setjum grið á láglendi
setjum grið á hálendi.
alin og óborin,
getin og ógetin,
nefnd og ónefnd
veitum tryggðir og ævitryggðir
mætar tryggðir og megintryggðir
sem skulu haldast meðan mosi og manneskjur lifa.
Allt það líf sem enginn minntist á fyrrum kalla ég fram.
Komið þið silfurhnokki, snúinskeggi, kelduskæna!
Komið dýjahnappur, lindaskart, rauðburi, móabrúskur.
Komið tildurmosi og hraungambri
komið og breiðið úr ykkur til allra átta.
Verum sátt hvert við annað, við jörðina, við gróskuna
við umhverfið sæla, við fjölbreytnina.
Setjum grið, verum ólík en sátt
nemum kyrrð, nemum þolinmæði mosans
sem breiðir lifandi mýkt yfir harðneskju hraunsins.
Ég mæli fyrir mig, fyrir okkur öll. Setjum grið.
Við mælum öll sem ein og setjum grið.
Fræin tifa
Djúpt í hvelfingum bergsins tifa fræin
aflokuð á eyjunni Svalbarða tifa þau
fræ jurtanna, trjánna
sem fljótvirkir menn höggva niður, brenna
ryðja burt af jörð sem þeir óhikað kalla sína.
Djúpt í hvelfingum tifa fræin og bíða framtíðar
þar sem mennirnir eiga að vitja þeirra sárir
eftir ólukku stríð
eða hörmungar allra hörmunga.
Við skulum taka það rólega, elskan mín
við skulum samt ekki bíða
við skulum óhikað opna aðrar hvelfingar.
Innst í fylgsnum hugans, í djúpum hjartans
leynast fræ vonarinnar
þau tifa enn
og þeirra framtíð er núna. Núna.
Ljóð til Vilborgar
Það stóð hús í hjarta borgarinnar
í Vonarstræti
alveg við Tjörnina
með Alþingishúsið í bakgarðinum.
Þar í risinu bjuggu Vilborg og Þorgeir
og synirnir tveir.
Í kjallaranum var þvottahús.
Einn daginn var Vilborg í kjallaranum
með yngri soninn. Allt í einu
verður henni litið upp frá suðupottinum
og sér að drengurinn var hlaupinn út.
Allt vill út í heiminn
Börn vilja sleppa út í heiminn.
Hugsanir vilja sleppa út í heiminn.
Ljóð vilja sleppa út í heiminn.
Vilborg elti soninn.
Sá hann hverfa fyrir hornið á Alþingishúsinu.
Hún hljóp á eftir drengnum fyrir hornið
og þá mætir hún hópi virðulegra karla
hersingu ráðherra
með forsetann í broddi fylkingar.
Hún mætir þeim ein
í klassískum klæðnaði kvenna
sem stunda þvotta í kjallara.
Eitt hikandi augnablik —
uns forsetinn heilsar
einkar mektuglega
og tekur ofan
og fyrst forsetinn heilsaði
tóku þeir allir ofan, herrarnir.
Allir höfðingjar taka á endandum ofan
fyrir skáldinu
fyrir móðurinni
fyrir þvottakonunni
Vilborgu
skáldi í Vonarstræti.
Ítrekuð leit
(Hugsað til Þorsteins frá Hamri)
Enn og aftur byrja ég að leita, fletti
ritsafninu, skima frumútgáfur
einstakar bækur, man ekki
titil en sérstök áhrif, eitt
ljóð og umgjörð þess
sé fyrir mér bókstafi, orð
síðuna þar sem ég þóttist standa hann að verki.
Ég stóð hann að verki
í ljóði sem virðist horfið.
Núna leggur efinn mér orð í munn og spyr:
Var það örugglega skáldið sem gægðist
hálf skömmustulega
yfir öxl þessa ljóðs sem þú ætlar hvergi að finna?
Hvers vegna þessi ítrekaða leit mín?
Hver ætti glæpurinn að hafa verið
annar en þrá
eftir merkingu og lífi?
Ég held áfram að fletta, kem enn
og aftur að sömu síðu, finn
aldrei sama ljóðið, finn
nýja vísbendingu
teikn sem ég sá ekki áður.
Þannig sinni ég minni köllun
leit að hverju því
sem ekki er hægt að finna.
Lina Dardonah
Hún fetar sig um laskað hús
með bangsa í fanginu, lítil stúlka.
Í fjarlægum stjórnklefa
situr ungur karl
með krullur niður vangana
maulandi súkkulaði og snakk.
Deyi fólk þá getur það sjálfu sér um kennt.
Íbúum er alltaf ráðlagt að yfirgefa húsin.
Þeir segja mér ekkert fyrir verkum
möglaði faðir úti á stétt
en þegar árásirnar hófust
var þó enginn eftir innandyra
nema kannski bangsi með ofsalega rauð eyru.
Herveldið tortryggir ásýnd vanmáttarins
fjölbýlishús gæti verið bækistöð skæruliða
leikskólabarn gæti verið dulbúinn vígamaður.
Eftir aðgerðir dagsins hófst leit í rústum
og tólf ára stúlka, Lina Dardonah
náðist á mynd
þar sem hún stígur varfærin
yfir mulning úr hrundum veggjum:
Hún heldur á bangsa með ofsalega rauð eyru.
Herveldin ætla sér víst aldrei að drepa börn.
Hvar ert þú núna, Lina?
Þú sem fannst huggara í rústunum. Lifir þú?
Lina Dardonah
lítil stúlka
með bangsa í fanginu
með ógnvekjandi bangsa í fanginu.
Ljóð til minningar um Nika Begades
Ég hendi mér í fossinn, sagði Sigríður í Brattholti.
Um leið og þið farið að virkja í þágu gróðans
þá hendi ég mér í fossinn.
Ég vil ekki lifa ef allt á að snúast um auðinn.
Ég vil ekki lifa ef trú mín á landið brestur.
Hver á þennan foss? Hver á þetta land?
Hver hefur réttinn til vonar?
Hver ræður því hvar ég á heima?
Rífum niður girðingar, sagði Sigríður í Brattholti.
Látum fossana fossa
látum árnar flæða.
Land úr landi fer Sigríður í Brattholti
í ungum líkama
og fer í fossinn
hendir sér í fossinn.
Sigríður í Brattholti hendir sér í fossinn.
Þverstæða á vígvellinum
Bara þverstæður blómstra á vígvellinum.
Þegar vondi foringinn heimtar framsókn
fjölgar sífellt liðhlaupum
uns herinn þurrkast út.
Þegar góði foringinn heimtar framsókn
vilja fleiri ganga í herinn
og stríðið heldur áfram.
Er vondi foringinn þá góður?
Er góði foringinn þá vondur?
Tvístígandi vor
Nú eru liðnir þrír dagar
síðan fréttastofan talaði við hagfræðing.
Tekst mér að lifa sumarið af?
Sjö tilbrigði um Jökulsárlón
1. Jökulsárlón
Það er fjarri mér að líkja jökunum við dauðann
þar sem þeir lóna í vatninu
og bíða þess eins að bráðna.
Þeir eru miklu frekar eins og lífið
með öll sín forgengilegheit.
2. Jökulsárlón
Innan úr sterílbláum hveflingum jakanna
sem mara í lóninu
endurómar dropatal.
Þessir jakar eru aldagömul rigning
sem aftur er byrjuð að falla.
Það toppar ekkert aldagamla rigninginu
svo varla er hægt biðja um neitt meira
nema kannski snjóinn
sem féll í fyrra.
3. Jökulsárlón
Það andar köldu frá jökum
sem líða daufdumbir um lónið.
Þeir minna mig á dauðann
segir vinkona mín.
Það finnst mér skrýtið, segi ég.
Mig minna jakarnir á lífið
þeir eru að leysast upp
þeir minna á allt sem hverfur.
Þannig er einmitt dauðinn
segir vinkona mín
dauðinn
hann er einmitt lífið.
Ekkert fleira þarf að segja
við Jökulsárlón í dag.
4. Jökulsárlón
Jakarnir dreifa sér um lónið
líkt og trúðar í hringleikahúsi
sem veltast um
og hrekkja í djóki
áhorfendum til skemmtunar.
Þeir eru áþekkir þessir trúðar á lóninu
þessir jakar í hringleikahúsinu
aldrei er þó neinn
alveg eins og sá næsti.
Þetta er enginn staður fyrir börn.
Það er eins og þeir hlæi á lóninu
eins og þeir gráti á lóninu
lifandi dauðir trúðarnir
en ekkert heyrist í þeim allan daginn
fyrir yfirgnæfandi áhorfendaskaranum.
Þegar kvöldar má heyra illsku og íshjarta slá.
5. Jökulsárlón
Jakarnir silast um lónið.
Tilgangslausir
og merkingarlausir
silast jakarnir um lónið.
Líkir mér og líkir þér
silast jakarnir um lónið.
Tilgangslausir eins of lífið
merkingarlausir eins og dauðinn
silast jakarnir um lónið.
Jakarnir silast um lónið.
6. Jökulsárlón
Mér hryllir við þér nafnlausi jaki
sem nálgast mig í súldinni.
Ekki vildi ég eiga þig sem elskhuga
nema þú værir dauðinn sjálfur
kysstir einn koss og búið.
Þú ert alltof mikið eins og lífið
sendir svala fingurkossa
þar til setur að mér hroll.
7. Jökulsárlón
Ef ég er eitthvað einsog
þá er ég einsog jaki
sem lónar í lóninu.
Það er meira til af mér
en eitt erindi á yfirborðinu.
Undir niðri er ég miklu meiri.
Undir niðri er ég miklu miklu meiri.
Undir niðri er ég miklu miklu miklu meiri.
Eitt oggolítið ljóð
Mínar þungu brúnir
hélt ég að væru
óhagganlegar
uns hið óvænta gerðist í dag
eins og ekkert væri
lyfti þeim upp
eitt oggolítið barn.
Ómálga kennir barnið mér lexíu dagsins.
Ekki þarf mikið og margt
til að lyfta mér upp
alvöruna gerir léttvæga
eitt oggolítð barn
sem horfir á heiminn með spékoppa.
Ýmsar þulur 2009 – 2019
Sálumessa yfir skotmanni
Ég bið ekki neinn um að miskunna mér
og alls ekki þig
sem ef til vill hlustar
ég veit ekki hvort þú ert til
ég bið hvorki þig né aðra að miskunna mér eða honum.
Ég veigra mér við að nefna nafn hans.
Ég verð samt að nefna nafn hans.
Hann skal ekki taka nafnið með sér í dauðann.
Ég þekki Ómar sem reiðist stundum.
Ég þekki líka Ómar sem brosir og hlær.
Ég þekki enn annan Ómar sem grætur og kvíðir.
Margir skulu áfram heita Ómar.
Margir elskulegir menn skulu heita Ómar.
Ómar sem drap er dáinn og búinn að vera
hann er ekki lifandi, þarf ekki hvíld
hann þarf enga miskunn, hann þarf enga náð.
Það er fátt hægt að segja um líf hans og störf.
Hann hefði getað drepið fleiri.
Hann hefði getað drepið færri.
Hann hefði getað skúrað gólfið
eða starað á vegginn í átta tíma á dag
og reynt að lesa merkingu úr graffinu.
Hann hefði getað feisað tilgangleysið en valdi að skjóta fólk.
Hann hefði getað skúrað gólfið en valdi að skjóta fólk.
Ræfilstuska. Aumingi. Ógæfumaður.
Skotmaður. Morðingi. Terroristi.
Það vantar ekki titlana sem honum geta hlotnast dauðum.
Þú
þarft ekki að hefja hann upp.
Hann skaut, hann drap, hann myrti.
Sumir segja, drap til að komast í himnaríki.
Aðrir segja, drap og þá fer hann til helvítis.
Sorrí, segi ég. Hann er dauður og fer ekki neitt.
Það er ekkert himnaríki nema þetta jarðlíf
og það er ekkert helvíti nema þetta jarðlíf
þar sem við nuddumst hvert utan í annað og þurfum að skúra gólf.
Sál hans fer aldrei á flakk. Hann kemur aldrei aftur.
Það kemur annar.
Það koma aðrir.
Það hermir alltaf einhver eftir öðrum.
Það veist þú sem ef til vill hlustar.
Allt þetta veist þú sem ef til vill hlustar og fylgist með.
Ég man eftir fréttum af þeim sem kom sér fyrir í turni
og skaut á fólk sem gekk um háskólalóðina.
Hann var fallisti, fugl sem engin skildi
eða allir höfðu gleymt
en skáldin túlkuðu gjörðir hans:
Hvert skot var spurning: Er ég, er ég til?
Hver og einn sem dó þann dag gaf ekkert svar
en síðan hafa skotmennirnir verið svo margir
að enginn nennir að gefa verkum þeirra skáldlega merkingu.
1986 skaut og drap starfsmaður póstsins í Oklahoma 14 manns á vinnustaðnum.
1987 skaut annar maður 16 manns til bana á litlu markaðstorgi í Englandi.
1989 skaut maður í tækniskólanum í Montreal níu manns og sjálfan sig að auki.
1999 mættu tveir í skólann sinn í Colorado og skutu 12 og drápu og sjálfa sig á efir.
2002 mætti einn í skólann sinn í Þýskalandi og skaut 12 kennara og tvo nemendur.
2007 skaut einn og drap átta í finnskum framhaldsskóla.
Það var varla liðið ár þegar annar í sama landi skaut tíu manns í verkmenntaskóla.
Ári síðar skaut maður sem vann hjá olíufélagi í Azerbaijan tólf vinnufélaga.
Skot hafa enga skáldlega merkingu.
Skot hafa enga trúarlega merkingu.
Skot hafa enga pólitíska merkingu.
Gleymum ekki þeim sem drap og gat ekki drepist sjálfur.
Þeim sem skaut og drap 69 unglinga úti á eyju.
Ég annast hann alla daga.
Ég færi honum matinn.
Ég heyri hann kvarta.
Það er mitt líf.
Ég skúra gólfið og annast hann alla daga
stari á vegginn í átta tíma á dag og reyni að lesa merkingu úr graffinu.
Bara tilgangsleysið réttlætir tilveru skotmannsins.
Hann hefði getað drepið fleiri.
Hann hefði getað drepið færri.
Ég veit ekki hvort þú hlustar.
Ég veit ekki hvort þú býrð
í næsta eða þarnæsta húsi
veit ekki hvort þú vilt leika guð og skjóta.
Ég veit ekki hvort þú ert til en hræðist þig samt
þess vegna verð ég að tala
en ég bið þig ekki um miskunn
og hann sem drap þarf enga miskunn, hann þarf enga náð.
Hann gat ekki feisað tilgangsleysið og valdi að skjóta fólk.
Við sjáum bara tilgangsleysið en gætum reynt að skúra gólf.
Við sjáum bara tilgangsleysið en gætum reynt að skúra gólf.
Við sjáum bara tilgangsleysið en gætum reynt að skúra gólf.
Andvökusenna
(Þula fyrir tvær hendur og höfuð manns )
Segðu mér söguna aftur
þá sem þú sagðir í gær
um kvíðafullu veruna
með undarlega höfuðið og hendurnar tvær.
Það var einu sinni vera sem átti sér athvarf í kompu
innan í kúlu sem þeyttist um geiminn
hún lá undir sæng, undir þykku teppi
lá undir feldi og gat hvorki vaknað né sofnað.
Veran var maður og maðurinn var ég, en samt ekki ég
ég er leikari sem leikur þennan mann, trúður að segja sögu.
Þetta er saga um veru sem vissi ekki hvað hún átti af sér að gera
veru sem hafði einkum höfuð og hendur til að skemmta sér við.
Uppúr leiðindum hrópaði veran: Hægri hönd, hægri hönd, hvar ert þú?
Í myrkinu tautaði veran: Vinstri hönd, vinstri hönd, hvar ert þú?
Síðan hlúði hún með höndunum að viðkvæmum gróðri.
Hún mótaði með þeim leirker, hlóð með þeim hús og smíðaði tæki.
Þegar maðurinn lék við hvern sinn fingur var gaman í kompunni hans.
Þumalputti, þumalputti, hvað finnst þér um ástand og horfur?
Langatöng, langatöng, hvernig líka þér straumar og stefnur?
Þá kom lilli putti spilleman með stríðni og spurði: Hver var að prumpa?
Oft fer dagurinn út í hreina vitleysu svo höfuð og hendur hlæja.
Enginn hlær samt þegar kemur að skrýtnasta ævintýri dagsins.
Það var einu sinni slys sem var ekki neinum að kenna.
Það var einu sinni mannshönd sem startaði vél.
Síðan startaði mannshöndin hundrað þúsund milljón vélum.
Þetta var ég, en samt ekki ég.
Það var gaman að lifa og vélarnar gátu endalaust unnið.
Þær fengu fæðu sem gaf þeim kraft
en fæðan olli vindgangi líka
svo vélarnar þurftu að prumpa.
Þegar vélar prumpa verður lyktin svo vond.
Þegar vélarnar prumpa verður loftið þyngra
leggst yfir allt og alla eins og þykkasta teppi
undir teppinu magnast svækja og hiti uns varla er hægt að anda.
Loft. Loft, hrópaði maðurinn inni í kúlunni
hrópaði maðurinn undir feldinum. Gefið lífsanda loft.
Hvað er hægt að gera? spurði höfuð mannsins
Vélarnar verða að prumpa minna.
Gefum vélunum annað að borða svo þær prumpi minna.
Höggvum færri tré og ræktum fleiri svo lyktin batni.
Lyktin af blöðunum grænu gerir loftið betra.
Þumalinn tautaði: Ég hlusta ekki á neina vitleysu.
Langatöng baulaði: Hér er sko allt í þessu fínasta lagi.
Baugfingur þusaði: Það er best að hver treysti á sjálfan sig.
Þegi þú, þumall, sem aldrei lest á umbúðir.
Þegi þú, langatöng, sem snattast um á bensínháknum.
Þegi þú, baugfingur, sem aldrei vilt borða lífrænt ræktað.
Hægri hönd, hægri hönd, hvar ert þú?
Vinstri hönd, vinstri hönd, hvar ert þú?
Það var einu sinni par sem lá í grasinu
andaði að sér fersku sumri
og kysstist í sólinni.
Það flaug þröstur hjá og settist á grein.
Það var einu sinni skógur.
Það var einu sinni tré.
Þar söng einu sinni þröstur og aldrei meir.
Það var einu sinni mannshönd sem gróðursetti tré.
Það var einu sinni mannshönd sem hjó niður tré.
Þetta var ég, en samt ekki ég.
Það var einu sinni hönd sem lék mannshönd og hjó niður tré.
Síðan felldu margar hendur hundrað þúsund milljón tré.
Þegi þú, trúður, ég leik ekki mannshönd
ég vil vera hönd sem leikur kúfskel.
Ég var til á undan öllum vélum.
Ég hef lifað í þrjú hundruð ár.
Ég gæti vel lifað annað eins.
Ég gref mig í botninn og lifi hægt.
Segðu mér höfuð, þú sem veist allt:
Á athvarf mitt eftir að endast svo lengi?
Vonandi gerist ekkert næstu árin, sagði höfuð mannsins.
Vonandi ekkert meðan við erum á lífi, sögðu fingurnir allir.
Ég get ekki sofið. Ég get ekki andað.
Ég þarf loft.
Ég þarf von, kæri trúður.
Segðu mér söguna aftur.
Það segir enginn söguna aftur.
Einu sinni var og aldrei meir.
Allt var einu sinni og aldrei meir.
Það var einu sinni dúdúfugl.
Það var einu sinni úruxi.
Einu sinni geirfugl og aldrei meir.
Einu sinni tígrisdýr og einu sinni górilla.
Það var einu sinni nashyrningur og aldrei meir.
Það var einu sinni margt.
Það var einu sinni ég.
Það var einu sinni við.
Það var einu sinni mannvera og aldrei meir.
Kæri trúður, ekki þetta; segðu mér aðra sögu
sögu mannverunnar sem lifði hægt
segðu mér hvernig hún verður
segðu mér söguna aftur, segðu hana upp á nýtt.
Endurfæðing óvina
( Tilbrigði við ljóðið Hinn örláti óvinur eftir Jorge Luis Borges.
Í samvinnu við Juan Camilo Román Estrada.)
Á miðju sviði situr afkomandi víkinga í þægilegum stól.
Aðkomumaður nálgast og ávarpar hann.
Buenas noches. Salam Alaikumi. Sat nam. Zdravo. Kaixo. Ciao. Kaabo. Sawubona. Salve. Salut.
Afkomandi víkinga svarar þegar hann kannast við einhvern hljóm.
Sæll. Já, komdu sæll. Heill og sæll. Komdu blessaður og sæll. Komdu sæll,
komdu sæll.
Afkomandi víkinga stendur upp meðan hann heilsar aðkomumanni.
Aðkomumaður fær sér sæti.
Afkomandi víkinga reynir að bera kennsl á hann.
Hver ert þú annars? Þú ert ekki héðan?
Sjálfur á ég heima hér.
Ég er Íslendingur.
Ég er afkomandi víkinga.
Ég get rakið ættir mínar til Jóns Loftssonar. Þóra var móðir hans.
Hennar faðir var Magnús berfætti, sjálfur víkingakonungurinn.
Mér finnst ég kannast svo mikið við þig.
Hefurðu komið hingað áður?
Sá ég þig kannski á Þjóðhátíð í Eyjum?
We were two branches in the tree of life.
Varstu að vinna á Kárahnjúkum?
We were two flints in the cave of man.
Hitti ég þig í Ungverjalandi1956?
You were the shoes and I was the floor in the fandango.
Hitti ég þig í Póllandi 1939?
I was the whale in your hunt.
Varstu kannski í Eþíópíu 1895?
We were in Mexico when Cortéz burned the ships.
Varstu á San Salvador 1492?
I was the leopard Amour, and the Laúd turtle, and the gorilla of the mountains, the black rhino, the orangután and the elephant of Sumatra and the Lemúr of Bambú and the saolá and the Siberian tiger. All of them will be extint today.
Hittumst við kannski á Írlandi 1102?
Já, við hittumst á Írlandi 1102 …
Aðkomumaður rís á fætur.
Mannstu, Borges geymdi minninguna …
“Magnus Bardfor, en el año 1102, emprendió la conquista general de los reinos de Irlanda;
Árið 1102 réðst Magnús berfætti á Írland til að yfirtaka landið;
… se dice que la víspera de su muerte recibió este saludo de Muirchertach, rey en Dublin:
… sagt er að kvöldið fyrir andlát sitt hafi hann fengið skilaboð frá Mýrkjartan, konungi í Dyflini.
Que en tus ejércitos militen el oro y la tempestad, Magnus Barfod.
Megi gull og gnýrinn berjast við hlið þér í hernum Magnús berfætti.
Que mañana, en los campos de mi reino, sea feliz tu batalla.
Megi bardagi á mínu landi færa þér sigur að morgni.
Que tus manos de rey tejan terribles la tela de la espada.
Megi konunglegar hendur þínar vefjast með ógn um sverðið.
Que sean alimento del cisne rojo ellos que se oponen a tu espada.
Megi þeir sem rísa upp gegn sverði þínu verða brytjaðir í hrafnana.
Que te sacien de gloria tus muchos dioses, que te sacien de sangre.
Megi hinir fjölmörgu guðir þínir veita þér mikla sæmd og mikið blóð.
Que seas victorioso en la aurora rey que pisas a Irlanda.
Megi þú standa uppi sigurvegari að morgni, konungur á Írlandi.
Que de tus muchos días ninguno brille como el día de mañana.
Megi enginn ævidaga þinna skína jafn heiður og ljós og hinn komandi,
Porque ese día será el último. Te lo juro, rey Magnus.
… því sá dagur verður þinn síðasti skal ég lofa þér, Magnús konungur.
Porque antes que se borre su luz, te venceré y te borraré, Magnus Barfod.
… því áður en dagsljós dvín mun ég gersigra þig og afmá vald þitt, Magnús berfætti.
Áður en dagsljós dvín mun ég gersigra þig og afmá vald þitt, Magnús berfætti.”
Hvað ert þú að gera hérna?
Ég kem í friði.
Þú settist í stólinn minn.
Ég kom til að leita að friði.
Í víkingalandi?
Ég kom til að leita að friði í víkingalandi, ég er svo þreyttur á þessu brjálæði sem hefur yfirtekið heiminn, alls staðar eru menn í stríði. Ég er þyrstur en það er hvergi hægt að fá vatn án ofbeldis. Ég er svo þyrstur, ég þarf að drekka friðsælt vatn, anda að mér hollu lofti, og hlusta á þögn uppi á fjöllum. Má ég dvelja hérna í þínu landi, gamli óvinur?
Ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég væri til, en ég veit ekki hvað aðrir segja.
Þarf ég að uppfylla einhver skilyrði til að geta búið hérna?
Það er ekki svo auðvelt að vera Íslendingur.
Hvaða þraut þarf ég að leysa?
Þú verður að geta unnið.
Ég get unnið.
Þú verður að geta unnið mikið.
Þú verður að geta unnið mikið án þess að taka þér hvíld.
Þú verður að geta verið til sjós í brjáluðu veðri.
Þú verður að geta étið hákarl og drukkið brennivín með.
Þú verður að redda hlutunum.
Þú verður að kunna Íslensku.
Þú verður að kunna hana svo vel að enginn heyri að þú sért ekki héðan.
Prófaðu að segja: Suðaustan kaldi og stormur.
Suðaustan kaldi og stormur.
Helvítis fokking fokk.
Helvítis fokking fokk.
Segðu: Nú andar suðrið sæla …
“Nú andar suðrið sæla vindum þýðum
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum …”
Heim! Já, heim. Velkominn heim! Hér áttu heima.
Heima. Hvað er heima?
Heima er staðurinn þar sem farfuglinn lendir.
Heima er stund þegar hjartað brosir.
Heima er staðurinn þar sem ég finn fyrir öryggi.
Heima er stund þegar augu mættast óttalaus.
Heima er staðurinn þar sem vonir mínar búa.
Heima er stund þegar áskorun verður tækifæri til að blómstra.
Heima er staðurinn þar sem hægt er að vera ósammála en elska samt.
Heima er stund þegar skilningur fæðist af ýmsum tungumálum.
Heima er staðurinn þar sem kærleikurinn umvefur alla veikleika.
Heima er stund þegar við óskum ekki neins nema þess að vera hér og nú.
Heima er staðurinn þar sem …
Heima er stund þegar …
Endir.
Rappið mitt í flugstöðinni
Við komumst ekki heim fyrir jólin.
Við erum stökk. Við erum föst.
Við komumst ekki neitt. Við
komumst ekkert heim þessi jólin.
Það er enginn á staðnum
sem veitir okkur upplýsingar.
Það talar enginn við okkur.
Það veit enginn neitt.
Áðan dúkkaði upp önug
kona í einkennisbúningi.
Hún úthlutaði miðum
svo við gætum fengið okkur að borða.
Smábörn gráta.
Unglingar geispa.
Gamalmenni segja ha.
Allt í kringum okkur eru gluggaveggir
en við höfum ekkert útsýni
það er myrkur fyrir utan
og við sjáum ekkert út um rúðurnar
horfum bara á okkur sjálf
þar sem við speglumst í glerinu.
Þarna stendur kona sem segir í sífellu
að hún skilji ekki neitt í neinu.
Þarna situr dama sem bólgnar út
af öllu sem hún keypti á útsölu.
Þarna húkir piltur yfir spjaldtölvu og hlær upphátt eins og fífl.
Þarna skálmar skáld milli sætanna
og hrækir frá sér djöfla.
Þarna flettir móðir upp peysunni
og gefur barni brjóst.
Þarna sefur bílstjóri s
em nauðgaði konu í Þórsmörk.
Þarna situr viðutan dulspekingur
og borar í nefið.
Þarna situr dólgur
sem á heimsmet í bjartsýni.
Þarna sit ég og horfi á alla hina.
Ég er bjartsýnasti maður í heimi
borða þunglyndislyf í morgunmat
þunglyndislyf í hádeginu
þunglyndislyf á kvöldin.
Ég hef samt mína veikleika:
Milli mála narta ég í kleinuhringi og slátur.
Ef ég kemst heim
þá fer ég í ræktina eftir áramótin.
Margra klukkustunda töf
og enginn veit neitt.
Margra daga töf og enginn veit neitt.
Margra ára töf og enginn veit neitt.
Alltaf öðru hvoru stendur einhver upp
og hrækir á næsta mann.
Þú er glæpamaður.
Þú ert dóni. Þú ert nauðgari.
Þarf ég virkilega að vistast undir sama þaki og þessi maður?
Nei. Við komumst ekkert heim þessi jólin.
Skúringamaður nálgast með vagn sinn.
Þekki ég þennan mann?
Viltu halda jól með mér, bakvið heiminn?
Ég er stökk og kemst ekki neitt
stökk í þessari flugstöð,
í þessari von,
í þessu vonleysi öllu.
Á miðju gólfi trónir sextugur bangsi
með vinalega ístru
og hlær sínum föðurlega hlátri
lætur ekkert koma sér úr jafnvægi
uns hann tryllist og missir alla stjórn
þegar fermingarstelpa
tiplar framhjá með beran nafla.
Um salinn gengur flandrari
sem starfar við að heilsa.
Hann þráir að deyja í embætti
og nýtur þess að skipuleggja útför sína.
Með handabandi
tryggir hann enn eitt nafn á gestalistann.
Í gangveginum stendur jakkamaður sem bað aldrei um já,
aldrei um nei.
Allir halda að þessi maður eigi peninga svo hann fær allt frítt.
Það er minkur í sálarlífinu.
Það er minkur í æðunum.
Gosdrykkurinn tilbiður guð sinn og deyr.
Ef ég kemst heim skal ég rökræða við storminn um öll mín hjartans mál.
Ekki vera neikvæður
eða segja neitt biturt og ljótt.
Ekki hlusta á annað en vandað
og vel orðað tuð.
Ekki segja að maðurinn í jakkanum
hafi lamið mig í æsku.
Ekki segja að maðurinn sem heilsar
andi oní hálsmálið á mér.
Skúringamaðurinn kemur aftur með vagninn sinn.
Siturðu hérna ennþá?
Sama hvað ég streða
þá fæ ég aldrei jafn mikið og þú.
Sama hvað ég hef það skítt
þá skal einhver hafa það verra.
Við eigum þetta land,
tónar maðurinn í jakkanum.
Við eigum þessa flugstöð,
tónar maðurinn sem heilsar.
Ég telst aldrei með þegar þeir segja við.
Ég telst aldrei með þegar þeir segja við.
Við.
Við erum rík en ekki ég sem safna dósum
Við eigum fiskinn í sjónum en ekki ég.
Við kaupum dýra bíla en ekki ég.
Við sjáum framtíðina brosa en ekki ég.
Við komumst ekki heim.
Við komumst ekki út.
Ég elska þessa flugstöð.
Ég hata þessa flugstöð.
Þessa flugstöð þar sem við erum föst.
Þessa flugstöð þar sem ég er stökk.
Það er ekkert við
þessi jólin.
Það er bara ég
ekkert við, bara ég, bara ég.
Draumurinn sem átti að sækja okkur kemst ekki í loftið.
Hugsjónin sem skipulagði ferðina er löngu orðin gjaldþrota.
Við komumst ekki heim fyrir jólin. Við erum stökk. Við erum föst.
Við komumst ekki neitt. Við
komumst ekkert heim þessi jólin.
Ég og allt mitt fólk
Prologus
Ég heiti Takashi Matsumoto.
My name is Mary Pinkoski.
Ég heiti Elisa Sampedrín.
My name is Rosemary Chartrand.
Ég heiti Usniie Ganiieva.
My name is Gerald McCaughey.
Ég heiti Zinho Rordrigues.
My name is Sheldon Currie.
1.
Ég heiti Anton Helgi Jónsson.
Mér leiðist þetta myrkur, ég vil burt.
Í allan dag hef ég hugsað um langömmu mína
hún megnaði að fara burt
hún megnaði að koma sér burt, hún fór til Kanada.
Það hljóma inní mér margar raddir.
Ég heiti Anton Helgi, ég er skáld.
Ég heiti Karlotta Þorsteinsdóttir.
Ég er móðir Antons Helga.
Ég fæddist fyrir vestan
en flutti svo hingað suður.
Ég heiti Þorsteinn Matthíasson.
Ég er faðir Karlottu.
Ég var bóndi og formaður á Snæfellsnesi.
Það var móðir mín sem flutti til Kanada.
Mamma flutti til Kanada.
Hún yfirgaf þetta land.
Hún yfirgaf allt sitt fólk.
2.
Ég heiti Þórunn Þórðardóttir.
Ég fór eftir að ég varð ekkja.
Ég fór og kom aldrei aftur.
Ég átti tíu börn
það yngsta tók ég með mér til Kanada.
Ég yfirgaf þetta land.
Ég átti ekki þetta land
og þetta land,
það átti ekki mig.
3.
Í þrjátíu ár bjó ég á Skerðingsstöðum í Eyrarsveit.
Einu sinni kom þangað hópur útlendra manna
og með þeim var leiðsögumaður.
Góðan dag: Ég heiti Eiríkur Magnússon
Getum við fengið að tjalda hér?
Þeir reistu tjöld sín í túninu.
Þeir reistu tjöld sín á þura blettinum.
Þeir reistu tjöld sín þar sem var ekki mýri.
Síðan kom annar og fyllti út í eldhúsið hjá mér.
My name is William Morris.
I would like to make a soup in your kitchen.
Það var enginn gluggi
en í loftinu var ljóri, lítið op
þar seitlaði ljósið inn.
Ég stóð í gættinni og fylgdist með honum.
Hann var sveittur, úfinn
og fráhrindandi
en hann var í góðum skóm.
Hann var í fallegum skóm,
það sá ég í skímunni frá ljóranum.
Ég heiti Þórunn Þórðardóttir.
Ég átti tíu börn.
Mig langaði alltaf í skó.
Mig langaði alltaf í góða skó.
4.
Ég heiti Þórunn Þórðardóttir
ég fór burt
56 ára gömul ekkja
ein með yngsta barnið
Allt í einu stóð ég á nýjum stað
í nýju landi.
Ég átti ekki þetta land
þetta land, það átti ekki mig
en þarna var þó allt mitt fólk.
My name is Þórunn Þórðardóttir.
My name is Patrick O’Brien.
My name is Sofia Alberti.
My name is Johann Lindberg.
My name is Erling Fredriksson.
My name is Gunilla Hansen.
My name is Olga Kournikova.
My name is Vladimir Akimenkov.
My name is Wislawa Bakowski.
Þetta er mín jörð
og þetta er jörðin mín.
Ég vil ganga um þessa jörð í nýjum skóm.
5.
Ég heiti Þórunn Þórðardóttir
Ég er komin aftur og stend hér á sviði í Reykjavík.
Hér stend ég aftur í nýju landi
hér stend ég í gömlu landi
hérna er mitt fólk
hérna er allt mitt fólk
Ég heiti Þórunn Þórðardóttir.
Ég heiti Raif Badawi.
Ég heiti Aidah Asaba.
Ég heiti Muhammad Khandaker.
Ég heiti Pham Dang Doan.
Ég heiti Salman Bakri.
Ég heiti Mahmoud Darwish.
Ég heiti Malika Said.
Ég heiti Yasmin Ashrawi.
Ég heiti Farah Yassin.
Ég heiti Mosope Bello.
Ég heiti Musa Myan.
Ég heiti Nagesrow Adar.
Ég á ekki þetta land, þetta land á ekki mig
en hérna er mín jörð
og hérna er jörðin mín.
Ég heiti Þórunn Þórðardóttir.
Ég heiti Þorsteinn Matthíasson.
Ég heiti Karlotta Þorsteinsdóttir.
Þetta er allt mitt fólk.
Ég heiti Anton Helgi Jónsson.
My name is Mary Pinkoski.
Ég heiti Elías Portela.
Fleiri þulur 2009-2019
Íslandsþula
Eldgos.
Andskotans eldgos.
Andskotans eldgos alltaf hreint.
Eldgos.
Djöfulsins eldgos.
Djöfulsins eldgos alltaf hreint.
Andskotans djöfulsins eldgos alltaf hreint.
Eldgos.
Helvítis eldgos.
Helvítis eldgos alltaf hreint.
Andskotans djöfulsins helvítis eldgos alltaf hreint.
Eldgos.
Dévítans eldgos.
Dévítans eldgos alltaf hreint.
Andskotans djöfulsins helvítis dévítans eldgos alltaf hreint.
Andskotans djöfulsins helvítis dévítans — alltaf hreint.
spámaður á mölinni
ég kem aldrei af fjöllum
ég kem af mölinni, ég
boða ljósið, lýsið
lýsið sem nærir
lýsið sem smyr
lýsi
lýsi lýsi
lýsi menn konur börn
lýsi þeim orðin
lýsi þeim vonin
hér uppi í heimskautanóttinni
burt með þurrar oblátur og svikið mjöl
burt með andskotans blóðið
prestar, biskupar
gefið fólkinu lýsi
ljós norðursins
hinn eina sanna krist eyjaskeggja
Tittlingadrápa
Komið nú, tittlingar
komið, langir tittlingar
stuttir tittlingar
mjóir, feitir
sléttir tittlingar
krumpaðir tittlingar
komið hér tittlingar
það er orðuveiting í kvöld.
Sinnaðir tittlingar
hneigðir tittlingar
kitlandi tittlingar
bitlingatittlingar
þrammið upp í pontuna, tittlingar, tittlingar.
Alls konar tittlingar
algerir tittlingar
hálfpartinn tittlingar
hálsbindatittlingar
lopapeysutittlingar
þakkið nú pakkinu, allskonar tittlingar.
Hangandi tittlingar
gangandi tittlingar
sprangandi tittlingar
umfram allt eitthvað svo langandi tittlingar.
Fjólubláir tittlingar
fölgrænir tittlingar
litlir tittlingar
stórir tittlingar
klingjandi tittlingar, syngjandi tittlingar.
Hádegisrapp úr viðskiptalífinu
Þegar japanskar dömur kúka
í vinnunni
heyrist aldrei neitt
það heyrist aldrei neitt
sem minnir á fallandi kukk.
Það heyrist aldrei plask.
Það heyrist aldrei plupp.
Það heyrist hvorki plask né plupp.
Það er fátítt að dama kúki.
Það gerir uppeldið.
Það gerir aldagömul hefðin.
Þetta má lesa í viðskiptablaðinu
sem útlistar vandræði bossanna
og óþarfa notkun á vatni.
Þær japönsku fara saman á klóið
þær hlæja og brosa og láta sem ekkert sé
en fjandinn verður laus þegar ein kemst inn í klefa
og læsir að sér:
hún sturtar
og sturtar
og sturtar viðstöðulaust.
Og þetta gera þær allar:
Þær sturta við hvern kukk.
Þær kukka. Þær sturta.
Þær kukka. Þær sturta.
Og aldrei heyrist plask.
Og aldrei heyrist plupp.
Það heyrist hvorki plask né plupp.
Það heyrist aldrei neitt af kukknum.
Það heyrist aldrei neitt
af einmana kukk.
Aldrei heyrist neitt af einmana kukk.
Barnagæla frá nýju Íslandi
Fjárfestar hafa áhyggjur.
Fjárfestar óttast.
Ástandið veldur áhyggjum og fjárfestar óttast.
Það rignir á blómin. Og fjárfestar óttast.
Krakkarnir syngja. Og fjárfestar óttast.
Það er gaman í bíó. Og fjárfestar óttast.
Loksins er Sigríður ólétt. Og fjárfestar óttast.
Þeir óttast að gjaldmiðlar veikist.
Þeir óttast að gjaldmiðlar styrkist.
Það er fiðringur í loftinu. Og fjárfestar óttast.
Strákur kyssir stelpu og stelpa kyssir strák.
Stelpa kyssir stelpu og strákur kyssir strák.
Allir kyssa einhvern og einhver kyssir alla.
Fólk kyssist og kyssist.
Og fjárfestar óttast.
Öndum nú inn. Og fjárfestar óttast.
Öndunm nú út. Og fjárfestar óttast.
Fjárfestar óttast.
Þeir óttast.
Þeir óttast.
Búðarþula
Það fæst ekki hér.
Það er búið.
Það er uppselt.
Það fæst ekki lengur.
Þú færð ekki neina stóriðjuhneigð.
Hún er búin.
Búin, segi ég, búin.
Hér fæst ekki niðursoðin einstaklingshyggja.
Við bjóðum ekki hráan samtakamátt.
Frændsemin er uppseld.
Kunningjatengslin þrotin.
Flokkadrættirnir kláruðust í gær.
Ekki koma og biðja um meðvirkni og þögn.
Ekki koma og spyrja um augu sem líta undan.
Þetta dót er allt búið.
Það er búið og hillurnar tómar.
Hér fæst ekki heimagerð þrælslund.
Hún fæst ekki lengur.
Hún er ekki til.
Þetta gamla dót er allt búið.
Það vill þetta enginn lengur.
Við ætlum að loka.
Þetta er búið.
Þetta er búið.
Álitsgjafi
Ég vakna um nætur og dríf mig á lappir.
Ég fæ mér eitthvað.
Geispa.
Glápi út í nóttina og tómið.
Svo fer ég að hringja.
Ég hringi mest í vinnufélaga.
Leyfi þeim að geispa.
Ég byrja rólega: Þú ert fífl. Ég þoli þig ekki.
Stundum skella þeir á um leið.
Þá hringi ég strax aftur.
Ég þoli ekki svona rakkarapakk eins og þig.
Ég þoli ekki svona kellingar eins og þig.
Ég þoli ekki svona kalla eins og þig.
Ég tek þá fyrir einn af öðrum.
Nótt eftir nótt.
Hringi og flyt þeim þulur mínar og ljóð.
Held áfram svo lengi sem einhver hlustar á mig.
Ég man ekki neitt.
Svona hlýtur þetta að vera.
Einhvern veginn svona hlýtur þetta að vera.
Ég mæti alltaf á réttum tíma.
Það talar enginn við mig.
Allir líta mig hornauga.
Ég man ekki neitt.
Augnablik sannleikans
Sími farþegans hringir í upphafi fyrirlestrar
um gatnamót
og verkamenn sem fara í helgarfrí frá hálfnuðu verki.
Leigubílstjórinn hefur útvarpið stillt á spjallþátt
þar sem einhver úthúðar ástandinu
úthúðar ríkisstjórninni
úthúðar borgarstjórninni
úthúðar kvenfólkinu
úthúðar verkalýðshreyfingunni
úthúðar samkynhneigðum og prestum.
Undir þetta tekur leigubílstjórinn
hann verður æstari eftir því sem líður á upptalninguna
lemur í stýrið
lemur í mælaborðið til áherslu.
Sjáðu bara ástandið, orgar hann loks:
Starfsmenn borgarinnar farnir í helgarfrí
og ekki búið að ganga frá gatnamótunum.
Einmitt þá hringir sími farþegans
einmitt þá hringir sími sem kæfir rödd sannleikans
það er sími prestanna
sími samkynhneigðra
sími verkalýðshreyfingarinnar
sími kvenfólksins
sími borgarstjórnarinnar
sími ríkisstjórnarinnar.
Þegar sími farþegans hringir
þagnar rödd sannleikans.
Vortónleikar karlakórsins
Það eru tuttugu þúsund ljón á veginum.
Og ég sem var á leið inn í framtíðarlandið.
Ég hefði svo sannarlega þegið smávegis hjálp.
Þá birtist mér enginn annar en Þrándur í Götu.
Ekki segja mér frá vandræðum þínum.
Ég hélt ég væri á beinni braut.
Það eru tuttugu þúsund ljón á veginum.
Lengi lengi hef ég verið að byggja mig upp.
Ég átti bara lokasprettinn eftir.
Þá birtist mér enginn annar en Þrándur í Götu.
Hver segir að ég þurfi bara að hrista af mér slenið?
Hver segir að ég mikli fyrir mér ástandið?
Það eru tuttugu þúsund ljón á veginum.
Ég veit ekki hvað hægt er að gera í stöðunni.
En ég lærði loksins að kyngja stoltinu og biðja um hjálp.
Þá birtist mér enginn annar en Þrándur í Götu.
Ég þarf ekki á þessum tilbrigðum að halda.
Það eru erfiðir tímar en mér leggst eitthvað til.
Það eru tuttugu þúsund ljón á veginum.
Þá birtist mér enginn annar en Þrándur í Götu.
Borg í fréttum
Ég kann ekki við þetta. Allt í einu
heyrir maður um einhverja borg. Einhverja borg
sem maður hefur aldrei heyrt nefnda áður.
Bara allt í einu. Maður heyrir um einhverja borg.
Sem er svo kannski ekki nein borg. Frekar þorp
með fimmtíu þúsund íbúa. Sem er nú þónokkuð samt
og þess virði að það sé nefnt. En hvers vegna
kemur nafn borgarinnar eða þorpsins eða
hvað við eigum að kalla það allt í einu í fréttunum?
Jú. Þar var einhver drepinn. Þar var konu nauðgað.
Þar var barni rænt. En helst var þó einhver drepinn.
Og ekki bara einn, heldur tveir, eða þrír eða fleiri.
Það kemur engin frétt nema einhver sé drepinn.
Afhverju eru aldrei fréttir af fólki sem kyssist?
Maður og kona í bænum Bulgan í Mongólíu
ákváðu að geta barn. Þau hófu verkið í nótt sem leið.
Fréttastofa Mongólska ríkisútvarpsins hafði útsendara sinn
á staðnum og að sögn konunnar var nóttin góð og
væntir konan þess að árangur náist. Þetta er frétt.
Það er frétt þegar fólk elskast.
Flytjum fréttir af ástinni
af ástinni ástinni
af ástinni
flytjum fréttir af ástinni.
Nokkur ljóð frá 1999-2009
Á kafbátaslóðum
Ég var staddur á horni Lokastígs og Baldursgötu
þegar mér datt í hug að rölta niður á höfn til að skoða kafbáta.
Annað eins hafa menn látið sér detta í hug, annað eins
hafa menn látið eftir sér
þótt þeir þykist eiga annað erindi í þessu lífi.
Ég staðnæmdist hugsi á horninu. Sá sem hyggst
fara og skoða kafbáta við miðbakkann getur valið
um nokkrar leiðir. Ein væri niður Lokastíginn.
Önnur út á Skólavörðustíg. Þriðja að snúa við
og taka Þórsgötuna. Það væri líka
hægt að taka hring. Fara upp á holtið og beygja
til vinstri að Skuggahverfinu eða ganga
vestan megin við Hallgrímskirkjuna, stefna
niður Mímisveginn og þaðan inn á Fjölnisveg.
Trítla síðan óséður í átt að höfninni.
Nú eru bara nokkrir möguleikar nefndir en maður
með hernaðaráætlun gengi sjálfsagt upp í Hlíðar
og þaðan suður Kringlumýrarbraut
gegnum Kópavoginn og yfir Vatnsendahæðina
upp í Heiðmörk og skemmstu leið í Árbæ.
Þá væri auðvelt að komast með stöndinni norðan megin.
Möguleikarnir eru óteljandi þegar maður hugleiðir leiðir um líf og borg.
Annar maður en ég æðir hugsunarlaust af stað.
Hann styttir sér leið til að skoða kafbáta. Hann segir:
Vissulega eru margir möguleikar í lífinu
en þar með er ekki sagt að maður þurfi að prufa þá alla.
Hvaða aðferð er best? Hvaða hugsun er rétt?
Oft hef ég staðið á horni Lokastígs
og Baldursgötu og reynt að velja leið um lífið.
Fundarboð
Nágrannakonan leiðbeindi um garðvinnuna
kom óumbeðin með sláttuvél
þegar þörf var á slíku tæki
var alltaf til staðar
Unga ekkjan stendur í þakkarskuld
það skilur hún núna
þegar nágrannakonan kemur að hekkinu:
Hún sagðist vera með skilaboð.
Hann hafi komið fram á fundi.
Hann langi svo mikið til að ná af henni tali.
Hann hafði óskaði eftir því að hún kæmi á fund.
Þarna standa þær þegjandi við hekkið
og hvorug veit
hvað hin er að hugsa.
Sígildur kaffitími
Gráhærður bangsi hallar hann sér fram á borðið:
Ég sótti um nýja stöðu.
Ég hef ekkert heyrt ennþá.
Ég fæ ekkert svar.
Ekki einu sinni staðfestingu á því að umsókn hafi borist.
Það eru ár og dagar
síðan ég sendi inn umsóknina.
Það var reyndar óskað eftir ungum manni
og ég er vissulega farinn að eldast
en er ég ekki ennþá ég?
Ég hef bara þroskast
svo núna er ég miklu betur undir starfið búinn.
Það hlýtur að koma að þessu.
Langþráð vinnufrí
Loksins er maður þá kominn í frí.
Búinn að vera í fimm vikna törn.
Dag og nótt.
Mann er farið að langa til að slappa af.
Allan daginn að sinna einhverju kvabbi
frá konunni
og kökkunum.
Og ættinni.
Ekki má ég gleyma henni.
Þegar liðið eltir mann upp í sumarbústað
þá fyrst þarf maður að taka á honum stóra sínum.
Nei. Það er gott að vera kominn í frí.
Ég þarf sannarlega á því að halda að slaka á
og í vinnunni bíða mín ótal skemmtileg verkefni.
Vetrardagur
Þetta var bara einn af þessum dögum.
Neðst í brekkunni stóð amerískur kaggi.
Framhjá þutu krakkar á sleðum og snjóþotum.
Í hverjum leik missir einn alltaf tökin.
Einn strákanna missti tökin.
Á sleðanum.
Á sjálfum sér.
Endaði hálfur undir bílnum.
Það var frost. Það var gaddur.
Stúlkurödd bergmálaði milli húsanna.
Strákur leit ekki um öxl.
Heillaðist af mynd sinni í krómuðum stuðara.
Þennan dag voru englarnir ekki á vakt.
Enginn hrópaði:
Það má ekki kyssa stuðara í miklu frosti.
Þetta var bara einn af þessum dögum.
Feðgar
Úfinn karlmaður stígur út á svalir
kallar til drengs við hliðið:
Taktu með þér hundinn, strákur.
Með það sama er hann horfinn.
Drengurinn kallar á hundinn.
Hundurinn kemur.
Saman fara þeir útfyrir.
Aftur birtist maðurinn á svölunum.
Hann kallar aftur til drengsins:
Hvern andskotan ertu að fara með hundinn?
Mótlæti á tröppum sjoppunnar
Hann þreifar niður um sig.
Alltaf hræddur
um að buxnaklaufin sé opin.
Samt er ekki kjaftur á ferli.
Hvað hef ég eiginlega gert ykkur?
spyr hann við sjoppudyrnar
sem auglýsa nýjan opnunartíma.
Þegar ég ætla að kaupa mjólk lokar búðin.
Þegar ég mæti á ströndina hættir sólin að skína.
Hann þreifar niður um sig
og grætur út í nóttina.
Samræður í hálfleik
Ég elska þig samt ennþá
hvíslar maður við næsta borð.
Núna er bara hinn frægi slæmi kafli.
Við klárum leikinn.
Þú verður áfram inná.
Ég verð áfram inná.
Við erum strákarnir okkar.
Við erum stelpurnar okkar.
Nótt í hústjaldinu
Guð minn góður.
Það er hérna sundlaug með öllu.
Þar er nóg af vatni.
Það eru kútar og ég veit ekki hvað.
Svo er hérna pottur og í pottinum fyndinn karl.
Hann endurtekur í sífellu sömu spurninguna:
Hvernig væri að flytja inn konur frá Sómalíu?
Við erum loksins komin í svefnpokana.
Það heyrist enginn þrastasöngur.
Í næturkyrrðinni berast hrotur um tjaldsvæðið.
Amen.
Séð og heyrt
Slúðurdálkarnir fjalla sjaldan um mig.
Mitt aðalsmerki hefur alltaf verið trúmennska
við fjöllyndið.
Ég hef haldið tryggð við léttúðina
verið lausunginni trúr
og jafnvel fljótfærnin var ekki einnar nætur gaman.
Ég hef átt í langtímasambandi við stundina
aldrei vil ég öllu leyna
hef samt alltaf leyft lyginni að njóta sannmælis.
Ljóð 1979-1999
Samviskufangar
Eftir allt
höfum við
lítið að segja
óráðsfólkið.
Myrkur
eggjandi
átti síðasta orðið
hét ljósfælnu bjartri framtíð.
Morgunn annars hugar
bætir gráu oná svart.
Nótt
Nótt: Ó
hjalandi nótt. Ó
gáskafulla nótt.
Nótt sem skellir uppúr.
Tvíræða nótt. Nótt.
Nótt
óhemjunnar.
Óhemju nótt. Ó
nótt.
Heiðríkja
Niðri ryðgað bárujárnið.
Uppi smiður
uppi kumpánleg vömb.
Vesgú, mín kæru:
Takið sperrurnar í nefið.
hættan í samskiptum
áður ef trúa má bókum
höfðu soldátar eitt til marks
það var hvítan í augum hinna
og samkvæmt bókum
féllu þeir í góðri trú
hver fyrir sitt land
eða hreinlega skipun að heiman
þá er vottað að leiðtogar þjóða
eigruðu inn í andvökunóttina
áhyggjufullir útaf þeim óhörðnuðu
sannast sagna virðast stílbrögðin mörg
sannast sagna skiptir um fleira en merkingu orða
enn eru samt óbreyttir kallaðir til
enn er hættan ljós á andvökunóttum
nú eru þessir tímar offramboðs á hagsmunum
þessir tímar efasemda varðandi hollustu
tímar þegar þingsalir spöglera í öryggi landa
en leiðtogar álykta: alltaf
má búast við því
að þeir sem standa augliti til auglitis falli
gersamlega
hverjir fyrir öðrum
svo nú mega dátarnir stara
í blinda skjái, stara
nú mega þeir bíða eftir hvítum
og loksins
ótvíræðum deplum, deplum
enn í sveita andlitis
maður hélt að ástandið færi batnandi
maður hélt að aftur kæmu áhyggjulausir dagar
já, maður þóttist eiga heiminn
og hvíldartímans
þarfa
naut
en alltaf beiða þær upp
stundir manns í aldingörðum
hinar þurrmjólka stundir manns í aldingörðum
Maður lifandi
Að vísu er þetta fæðingardeild
Og allur viðbúnaður sannfærandi
– samt reynist erfitt að trúa eigin augum
uns hrekkleysið kemur í ljós, maður lifandi
með tíu fingur
með tíu fingur upp til guðs.
spurt um afstöðu
hvítt eða svart
dýrið eða mannnn?
náttúruna eða ljóðið?
a poem in icelandic dedicated to roger waters
líka ég á minningar úr einhverjum skóla
og man, vá
man hvað mannkynssagan var okkur fjarlæg
man hvað við vorum rugluð í landafræðinni
fundum aldrei neitt á kortinu
ekki breiðholtið
ekki auschwitz
ekki gulag-eyjarnar
stundum var þó fjör
stundum var hurðum skellt
stundum var stólum kippt undan okkur
og öskrað
og öskrað
og öskrað
samt leið okkur kannski vel
samt vorum við kannski örugg
meðan við þekktum manninn
meðan við þekktum í honum eigin bresti
en auðvitað var sælan úti
og þegar hann brosti hikuðum við
og þegar hann brosti urðum við smeyk
saklaus og smeyk í mannkynssögutíma
fundum breiðholtið
fundum auschwitz
fundum gulag-eyjarnar
þegar hann brosti
og sigtaði á bekkinn
Óreglubróðir
Vinátta þín mun ekki varða við lög
ekki beinlínis, gamli þrjóskur
en útífrá heyri ég fáa mæla kenjunum bót.
Í nótt er minn úrvinda
í nótt talar hann varla um fyrir þér
haltu bara iðju þinni áfram
forstokkaði vinur
spilltu bara fyrir honum leiðindunum.
Hvort sem er og hvað sem verður
þá orkar hann litlu án hjálpar.
Svo litlu, gamli, svo litlu.
Óbirt ljóð
Spádómur leiðögumannsins rætist
heimkominn smjatta ég á þarlendum uppskriftum
viðurkenni að ljósadýrðin hafi reynst áhrifamikil
söfnin vakið undrun
og móttökuhallirnar snert við einhverri taug —
þetta sigldur
get ég vitnað um margt nýtt
og athyglisvert sem kom á óvart.
En utan hinnar leiðandi dagskrár
var augnablik meðan hópurinn tafði á rauðu
undir framhliðum sauðsvartra húsa
þar sem sótið afsakaði hverja rúðu
svo engan skyldi gruna mannabústað –
þrátt fyrir að grillti í hendur þeirrar konu
sem bægði gardínum til hliðar og vökvaði blóm.
Einhver fáránlegur ég
túristi á glaðhlakkalegri hraðferð
til sjálfsagt enn einnar hallarinnar
þekkti auðvitað hendur mömmu –
þótt heimkominn og uppveðraður túlki ég
einungis margt nýtt
og athyglisvert sem kemur á óvart.
Kjördagur
Sko heilbrigðan alþýðumanninn!
Hann fær inni í ljóði. Gaman
þegar skáldin muna eftir sínu fólki.
Og ekki veitir mínum af upplyftingu
sat heima í dag
sat á þræl sínum í dag
sat
en fékk þó ekki að vísa neinum til helvítis.
Hélt hann þá að síminn myndi hringja?
Hélt hann þá að sendur yrði bíll?
Þökkum pent. Þökkum pent.
Í þessu ljóði gerast kappar aldrei bitrir.
Þetta númer er á léttari nótum. Og þar
glotti alþýðumaður á elleftu stundu. Þar.
græni bekkurinn
notalegt umhverfi fólkið
lystigarðurinn fólkið
í frjósömu síðdegi borgar
fjölskrúðugt umhverfi fólkið
og annað
en goðbornu jöklarnir heima
notalegt umhverfi fólkið
sem líður þessi augu
sem líður þetta ávarp
héðan af grænum bekk
Úr sýningarskránni
Tíðarandi. 1968.
Vatn á striga. 7 X 7.
Almenn eign.
Icelandic Post-War Poetry, Summary
maurildi
napalm
spírall
lesari
hann las aldrei hugsanir
hvorki sínar eigin né annarra
upphátt flámæltur og til baka
en fagnar í hljóði
hverjum staf
sem teiknast hér á blaðið
skrifar sig inn í heiminn
heiminn inn í sig
og undrast:
er þetta áhorfandinn ég?
er þetta skaparinn ég?
hann skrifar/skrefar sig fram
les og les
veruleika
saman
Stefnumótið
Við hittumst í rjóðri
skilningurinn
og ég.
Ég man það var neðst.
Á síðunni.
Neðst.
Ég man það var neðst
en ég man ekki hvað
hann gaf mér
ef það var þá eitthvað.
Á hægri síðu neðst.
Vinstamegin neðst.
Ég man það var neðst.
Við hittumst í rjóðri.
Ég man það var neðst.
Á síðunni neðst.
hvað er svo glatt
ég drekk með nýjum félögum á nýrri
krá í nýju landi, margur jónsson
hefur að venju frá einhverju þorpi að segja
og einn man eftir fávita sem slefaði
og annar minnist aumingja sem klagaði
og þriðji man ræfil sem flúði undan
alla langar eitthvert heim
og þetta eru víst bros
og þetta eru að líkindum hlátrar
ég sit þá af mér
þegi þá af mér
reyni ég að laumast út
mun þögnin fylgja mér til dyra, þeir
kannast alltaf við baksvipinn
Annar morgunn í Svíþjóð
Morgunn í Svíþjóð og
ekkert að gera, kannski
ætti ég að yrkja upp ljóð
skáldsins Lars Gustafsson
um morgun í Svíþjóð
á máli æskustöðva minna: Morgunn
það blés, það blakti, það hvein
í fánum bensínstöðvarinnar, það
lá ís undir björkunum
hvítu. Kemur þá ekki einn
framhjá
í vetrar-
hjálparfötum og gengur með þessum líka skrefum
líkt og hann ætti langt að fara.
Vegurinn rís upp í brekku
þar sem durgurinn
þrammar.
Auðvitað þekki ég manninn
og gæti ýmislegt sagt.
Um hann
og alla þá vegi sem hann hefur afplánað.
Nú blæs
minna, bjarkirnar standa
kyrrar, glampandi október niðri við rót, sólskin.
Úr fjarska
þar sem birta himinsins er jafn sterk og hér
nálgast lítill rälsbuss á spori sínu.
Hér STANNAR hann um stund
eins og gamall Hafnarfjarðarstrætó — og hverfur
án þess að nokkur stígi út.
(Nei, rälsbuss gerir sig ekki á íslensku.
Hafiði engar lestir á Íslandi?
æpir oft hinn dæmigerði svíi
og er homo sapiens í sinni forundran.)
Þetta var útúrdúr, eða morgunn
í Svíþjóð. Það sem ég vildi
segja er þetta: Einhver steig út.
Þrátt fyrir allt. Hvort er ég þorpið eða farartækið?
Steig skáldið út
hjá mér
eða ég hjá skáldinu?
Krossað
Ég prútta hvorki við guð né menn.
Læt mig samt hafa það.
Krossa að lokum yfir gröfina.
Augu ættarinnar innheimta athöfnina
svo lítið ber á.
Óðal í Evrópu
hvernig spyrjiði, hundurinn
hundurinn heitir sama nafni
en þið munið sjálfsagt eftir honum stærri
það bakkaði trukkur í fyrra og hundurinn drapst
í ár er hann ekki fullvaxinn
hundurinn heitir sama nafni
í ættlið eftir ættlið
hefur hundurinn heitið sama nafni
Endurfundir
Nú er bandittinn breyttur:
Armurinn eini horfinn
mekanisminn annar.
Modern
times, segja þeir, tæknin. Og Rauði
krossinn fékk inni
fyrir vininn
í sjoppunni hérna á horninu.
Gamli skreðarinn lítur við
— eirðarlaus
síðan konan dó, rifjar upp
ryður unglingum frá, man
dagana í Tívolí forðum, já
sumir sigldu með Gullfossi, sumir.
Og kvöld eftir kvöld
matar hann vininn af alúð
hugleiðir aftur möguleikana, aftur.
Horfir svo á helvítið ranghvolfa augunum
neitar að trúa vanþakklæti heimsins
neitar að láta hlunnfara sig
þrjóskast við —
kvöld eftir kvöld.
Ljóð frá árunum 1974-1979
Fjarlægðir
Skyndilega
eru fjarlægðirnar týndar
Sem vappað fram göngin er skotist
í önnur landshorn
úti á hlaði þvælast álfur
snattferð til mánans er varla af bæ
Við undrun er staulast frá torfkofa
að lyftu skilningsins
til að vitja fundarlauna.
Um kjalveg er brotist frá hlýrri stofu
Á torgum er heilsast yfir atlandshöf
Ljósár eru að anddyri grannans.
Saklausir borgarar
Saklausir borgarar
líta skelfingu lostnir í dagblöðin
góðkunningjar lögreglunnar vaða um síðurnar
veifandi kúbeinum
nýbúnir að vanhelga eignaréttinn
Saklausir borgarar
vita að hver stendur sjálfum sér næstur
leggja þó góðum málstað lið
auka löggæslu
byggja fangelsi
Saklausir borgarar
tala um vandamál einstaklinga
en spyrja ekki spurninga
hnýsast ekki í einkamál.
Flugvélar morgunroðans
Engrar þjóðar mark
auðkennir flugvélar morgunroðans
engrar þjóðar mark
Enga lofthelgi virða áhafnir þeirra
óskirnar um góða veröld öllu fólki
sama rétt til lífs og gæða
Ratsjár auðliða bræða úr sér
Aldrei svifu skæðari féndur
yfir litgreindri jörð
yfir stéttgreindri jörð
yfir manngreindri jörð
Flautur eru þandar
Loftvarnarbyssum miðað lárétt
Nestaður tortímingu hleypur margur í byrgi
flugbrautarhugurinn hæfður sprengdur
Ekkert grandar flugvélum morgunroðans
ekki þrýtur eldsneyti
meðan eitthvað
meðan allt
bíður barna sem kjökra í rökkrinu
Og flugvélar morgunroðans
hringsóla yfir hverju landi hverri borg
hverri manneskju og vænta lendingarleyfis.
Brauðljóð
Þykkir eru doðrantar heimsbókmenntanna
Mikla visku fengum við í tannfé
Fagur er margur kollskítur hugsuða
og heljarstökkin glæsileg
Sannarlega þökkum við fleirum
en almáttugum guði
vort daglega ljóðbrauð
En þrátt fyrir andlegan gjörvuleik okkar
og ást á skáldskap
flytja milljónirnar brauðljóð sitt
án allra kvæðalauna.
Góðir Íslendingar
Úr suðri andar ennþá þýðum vindum
og vorið kemur við á hverju ári
Í hlíðum spretta grös og blómstur anga
þó aldrei næði þrösturinn til landsins
Sólin vefur geislum fjöllin stoltu
í giljum óma kraftasöngvar fljóta
Víðáttan tigin líkt og áður opnast
og hrærir fína strengi hvítra brjósta
Íslenska heiðin þráir hermannsins atlot
Laxar í ánum auðjöfra bíða
Vindarnir erlendum reykháfum unna
Vatnsföllin óska sér gullkvarnar stöðu
Af landsölugleði og landsöluþrá
íslendingshjartað viknar og titrar.
Erfiljóð eftir bröndóttan kött
Engin afsökun var fyrir tilveru þinni
engin ættartala
eins og hjá símasköttum þeirra nýríku
þar vorum við þó líkir
báðir af hurðarbakskyni
En ég var guð yfir kjörum þínum
hirti þig kettling upp af götunni
og bar síðan í þig mat útá afnot af mjúkum feldi
Sjaldan skyldirðu kvarta
samt varstu klipinn af börnum
af fullorðnum óvitum hvekktur
Blíðlyndi þitt var rósum líkast
þú varst trúr sem árstíð landi
Nú ertu allur og kominn inn á hauga
Yfir tunnunni fastri í skafli
blótaði skeggjaður verkakall
Kirkja klerkur bæn
En hvern er ég að ávarpa?
Þú ert endanlega dauður
trúðir aldrei á framhaldslíf
og hafðir ekki sál frekar en heilbrigður maður
Nei ég ræði sisona við minningarnar
því hérna sit ég gjörsamlega kattarlaus
Með söknuði mínum hefst þá þitt tíunda líf
Ásamt matarleifum dagblöðum og platspokum
hafnar þú í stærsta grafreit landsins
deilir örlögum með Jónasi og Mozart
því leiðið þitt
mun örugglega týnast
En í teppunum lifa verkin þín áfram.
Á markaðstorgi frelsisins
Á markaðstorgi frelsisins
er sálarlíf manna verðlaust
þú áttir aftur eignir
tryggar og jafnvel nafn þitt
var öruggur gjaldmiðill
En hægt draup víni ofurhægt
oná bjargfasta tilveru þína
Dagarnir urðu sandkorn
á ævi þinnar strönd.
Ólán
Barn, ó barn
enn eru augu þín skær
engvir speglar
feigðarglotti heimsins
Gleðin á sér þó athvarf
um stund
En seint finnur heimur gleðina
í aurum
seint leitar hann hennar hjá þér
það er ólán beggja.
Hátíð neonljóssins
í bernsku þinni amma
var á himni jafn andlaust og nú
nokkrar rúsínur gerðu heilagt
hvílík hátíð fer í hönd
ég hef vínber ég hef jafnvel melónur
og yfir hverjum búðarglugga staðnæmist leiðarstjarna
síðan í haust hefur stimpilklukknahljómur
stefnt lýðnum í hús guðsins
jólasveinninn tekur út á sér
og selur börnunum gleðileg jól
göngum við í kringum
göngum við í kringum
gullin heildsala
í dag er glatt í kaupmannshöll
hvarvetna ómar sálmur í maga
syngur inn hátíðina
hátíð samviskufriðar
hátíð neonljóss
milli hverfa skiptast gangstéttir
önnur er ekki stéttaskiptingin
þannig helgast nóttin
og hjörtum mannanna svipar saman
við skúringar og innflutningsverslun
í dag er glatt í dag er glatt
steikin gengur niðraf okkur amma
á sinn notalega hátt halda klóakrotturnar jól
smáspekiljóð
I
miklu ráða tilviljanir
skýin mettast hvað eftir annað
og sáðfrumur falla til jarðar
en nákvæmlega einn
af öllum regndropum vætusumars
hitti oní hálsmálið
það varst þú
II
fátt veistu
um líf og dauða fólksins
milljónir milljónir fæðast
og milljónir deyja
margföldun og frádráttur
reiknað með háum tölum
óskiljanleg er þér úrkoman
og það
hvað dæmið mannkynið mínus þú
breytir henni lítið
III
þú ert til
eða svo segir þjóðskráin
en staðfestingar
leitar þú í viðbrögðum annarra
þó ertu saumnálin í heysátunni
og fæstir koma auga á hana
IV
eftir forskrift
lærðir þú að rita bókstafina
sjálfur ertu í öðru stafrófi
og þér var skotiö inn í ókláraða setningu
þar máttu finna samhengi lífsins
öðlast merkingu
með þeim sem standa umhverfis
og yfir þér er enginn kennari
til að veita stjörnu
V
einhvern daginn
rennirðu þér síðustu ferðina á magasleðanum
og förin eftir meiðana sjást
meðan snjórinn helst í brekkunni
þá skilurðu
að gamanið fólst í andartakinu
á leiðinni niöur
alveg eins og í lífinu
Ljóð frá því fyrir 1974
Vormorgunn við höfnina
Situr rotta
á stein í fjörunni
ekkert að óttast
fáir á ferli
grásleppukarl
og ég
Sólargeislarnir teygja sig
yfir Esjuna
rottan hverfur
smátt og smátt vaknar borgin
og ég fer heim að sofa.
Deyfð
Milli svefns og vöku
hringdi klukka
sem skyldi vekja
en að kveldi
var hljómur hennar löngu þagnaður
og þennan morgunn
mátti vart greina
frá hinum fyrri
sem komu og fóru
án þess nokkur vissi
til hvers
var að vakna
Ekki voru seld nein hlutabréf
í eilífðinni
í dag.
Sætindi
Í miðjum sælgætishring ég stóð
horfði á háan vegg
hlaðinn úr karamellum
og súkkulaði.
Á annarri nóttu braut einhver
gat á vegginn
benti á mig
og sagði mér að muna
eftir sælgætinu.
Seinna komu kettir
með augu rauð og græn.
Einn var sérlega ágengur
hann klóraði vingjarnlega
í andlit mitt.
Aftur og aftur
rek ég mig á það
að ég gleymdi að muna.
Í kafbát uppí Hlíðum
Í blokk uppí Hlíðum
fórum við um allt
í stórum kafbát
sem hafði góðar læsingar á öllum dyrum
svo óvinirnir kæmust ekki inn.
Og mér varð litið út um glugga
á fjórðu hæð
og sá þá bróður þinn
segja mér að þegja.
Síðan ræsti hann bifreiðina og hlustaði
á ganghljóðið.
Ég vaknaði bölvaði skólanum
og reyndi að muna:
Hvað var þetta gula?
Ég lagði mig aftur en var samt engu nær.
Í nótt var ekki einu sinni myrkur.
Dökkhærða stúlkan syngur
Dökkhærða stúlkan syngur
og blómgast í vorinu
þegar allt er svo fallegt.
Í rödd hennar er árniður
og spikaður lax
stekkur í ánni.
Veiðimennirnir glotta
ná í stangir sínar
hugsa stórt
en nei
hann tekur ekki maðk.
Halló
Ég er nafn í skránni
ég er andlit í hópnum
ég er skuggi á torgi
ég klappaði líka
þegar höfðinginn lauk máli sínu
þó ekki væri
minnst á það sérstaklega
í blöðunum daginn eftir
en ég er þjóðin
og þjóðin er ég
og ég er líka sjálfur
Halló
hver sem þú ert
ég þekki þig ekki
en þú sporar út samvisku mína
líttu til baka
í fótspor þín
og leggðu skómunstrið á minnið
þá geturðu seinna
snúið við og heilsað
þó við þekkjumst ekki
Allan tímann
hef ég staðið við hlið þér
án þess þú tækir
eftir því
nærvera mín
er sjálfsögð
Opnist augu þín
sérðu að við
stöndum
við hlið einhvers
annars.
A waste land
Skáldið gagnrýndi ekkert
hvorki sjálft sig né aðra.
Og gagnrýnandinn gat aldrei
orðað hugsun sína vel.
En ólmir í að komast á miðin
biðu bátarnir á höfninni
eftir nægum mannskap.
Vögguvísa handa skáldum
Hafið er eins dökkt og skýin
sem eru eins ljós
og sjórinn.
Nautið er eins þungt og svínið
sem er eins létt
og tuddinn.
Jón
er eins stór og Toni
sem pissaði í buxurnar í gær.
Má bjóða fiér að anda?
Tuttugasta öldin
föst í eigin
kóngulóarvef:
-Pabbi
hvað þarf margar
atómbombur
til þess að sprengja upp
jörðina?
-Má bjóða þér að anda?